Friday, August 18, 2006

Föstudagskvöld og skólastrákarnir eru sofnaðir.
Þeir verða glaðari með hverjum deginum í skólanum finnst mér. Hugi segir frá þegar hann kemur heim, hann fór í tölvur og tónlistartíma í dag, tónlistarkennarinn virðist vera klár að spila á trommur.
Stirnir segir að það sé gaman að leika í skólanum. Hann vill ekki borða hádegsimatinn þar, segir að hann sé ógeð, vill ekki einu sinni smakka. Hann borðar bara nestið og kemur sársvangur heim seinnipartinn. Hugi borðar matinn og lætur vel af honum.
Ég held áfram mínum verslunarferðum til að safna saman græjum fyrir skólann, ég finn hvergi málningarsvuntur. Kennnarinn sagði að strákarnir gætu notað gamla skyrtu af mér eða Kjartani en það er nú ekki beint það sem maður flytur með sér á milli landa, gamlar skyrtur.
Ég fór í IKEA í gær en þar voru allar svuntur uppseldar. Mér fannst ég næstum komin heim í IKEA, kannaðist við mig þar, ekki jafn framandi umhverfi og hérna í kringum mig. Ég nældi mér í kjötbollur, frosnar og bauð upp á í kvöld með sósu, þær féllu í góðan jarðveg.
Einnig er ég að svipast um eftir stígvélum en regntímabilið hlýtur að vera liðið því ekki sé ég stígvél neinsstaðar. Vonandi fer þessum fellibyljum að linna, manntjón hefur verið mikið. Í dag var hvasst í borginni, Yongjia sagði að það væru leifar af fellibyl að ganga yfir.
Við höfum haldið áfram að fara í sund fyrir kvöldmat, það eru margir krakkar í sundi á þessum tíma og einn sundkennarinn er ofan í líka og leikur við krakkana, mikið fjör.
Ég hef nú lítið álit á sundlaugarvörðunum hérna, þeir snúa oftast baki að lauginni, lesa bók eða eru í símanum. Í gær var einn þeirra að klippa á sér neglurnar á sundlaugarbarminum, oj segir pempían ég! Kjartan var einu sinni í sundi og enginn vörður sjáanlegur. Þegar hann birtist gekk hann að lauginni og skimaði ofan í hana til að athuga hvort einhver lægi á botninum líklega. Sá væri nú löngu dauður á meðan vörðurinn brá sér frá.
Ég var stödd í búð í dag og þar stóð afgreiðslumaðurinn fyrir framan búðarborðið og klippti á sér neglurnar, það er snyrtilegt að vera með vel klipptar neglur en óþarfi að gera þetta á vinnustaðnum. Annars eru margir kínverskir karlmenn með langar neglur eða þá eina mjög langa nögl á litlafingri. Ég fæ hroll bara við að skrifa þetta, ég hlýt að vera með einhverja naglafóbíu.
Góða helgi, Dalla.

No comments: