Wednesday, December 22, 2010

Kenýaferð með abc – fyrsti hluti

 

Í haust stóð ég á krossgötum, ég var búin að búa í Kína í þrjú ár og vera eitt ár á Íslandi heimavinnandi með yngsta barnið, Eyju. Hún byrjaði í leikskóla í lok ágúst og þá gafst tími fyrir mig að hugsa mér til hreyfings. Eitt kvöldið horfði ég á sjónvarpsfréttir og þá sá ég umfjöllun um abc-skólann sem er á vegum abc barnahjálpar. Ég fékk hugljómun og ákvað að skrá mig í þetta tíu vikna nám, alla virka morgna. Sama dag og ég skráði mig í námið, fór ég í kaffi á minn gamla vinnustað Saga film. Þar var mér vel tekið og nokkrum dögum síðar bauðst mér að pródúsera áhugavert verkefni, heimildamynd um Laxdælasögu sem breskt framleiðslufyrirtæki gerir fyrir BBC4.  Þá var ég komin í íslenska pakkann fannst mér, vinnu og skóla, eiginlega alveg óvart.

Vinnan var mjög skemmtileg, ég sá um að finna viðmælendur og setja upp tökuplan í samvinnu við leikstjórann Ashley Gething, við töluðum mikið saman á skype og ég tók prufuviðtöl við hugsanlega viðmælendur og sendi honum.  Ashley kom til Íslands til að skoða tökustaðina og við fórum vestur á söguslóðir, borðuðum plokkfisk og hittum viðmælendurna sem Ashley var stórhrifinn af.

Í lok október kom hann ásamt tökumanninum Patrick og umsjónarkonunni Ninu til Íslands og við héldum vestur til Þingeyrar, Hólmavíkur og í Dalina með Eika hljóðmanni. Við tókum líka upp í Reykjavík, á Þingvöllum og fórum tvisvar á sjó, einu sinni á víkingaskip, tökurnar stóðu í átta daga. Nú er klippingu lokið á myndinni “The Viking Sagas” og hún verður sýnd á Íslandsviku á BBC4 í maí.

IMG_9320

Á Þingeyri með ungum leikurum sem túlkuðu Kjartan og Bolla unga.

IMG_9321

Leikararnir Dagur, Anton og Ashley leikstjóri

IMG_9382

Pikknikk úr skottinu á jeppanum í Kaldadal sem stóð undir nafni þennan dag.

En svo ég komi aftur að tilefni Kenýaferðarinnar og abc-skólanum þá var námið áhugavert og námsefnið fjölbreytt, fyrirlestrar um þróunarhjálp, mannfræði og við fengum tölur frá fulltrúum allra hjálparsamtaka sem starfa á Íslandi. Atli Dagbjartsson var með fyrirlestraröð sem heita Þar sem enginn er læknir  þar sem hann fjallaði um helstu barnasjúkdóma sem draga börn til dauða í þriðja heiminum og hvernig er hægt að aðstoða sem heilbrigðisstarfsmaður. Við lærðum um sjúkdóma og næringarfræði hjá læknunum Davíð Þór og Sigrúnu, barnasálfræði, framandi lönd og menningu og vorum kynnt fyrir starfsemi abc og margt fleira sem of langt er að nefna.

Nemendur voru á öllum aldri með ólíkan bakgrunn en fljótlega kom í ljós að meirihluti hópsins ætlaði í þriggja vikna vettvangsferðina sem var skipulögð í lok annar. Í Kenýa starfrækja hjónin Þórunn og Sammy barnaheimili á vegum abc þar sem 160 börn dvelja. Öll koma þau úr hörmulegum aðstæðum, eru munaðarlaus eða hafa búið á götunni. Einnig eru börn sem búa í fátækrahverfunum/slömmunum styrkt til skólagöngu, skólagjöldin eru ekki há en fyrir fjölskyldur er það oft neyðarúrræði að taka börnin úr skóla því ofan á skólagjöldin bætist  kostnaður við skólabúninga, skó og bækur. Í Nairóbí þar sem abc starfar eru ótal slömm og abc styður yfir 600 börn til skólagöngu og þá eru það stuðningsaðilar á Íslandi sem borga mánaðarlega og fyrir börnin sem búa á barnaheimilinu er upphæðin aðeins hærri. Fall krónunnar gerði starfið mjög erfitt og það varð að draga saman kostnað og til dæmis fá börnin á barnaheimilinu aldrei kjöt í matinn.

Nemendahópurinn hélt styrktartónleika fyrir brottför til að safna peningum til að færa barnaheimilinu. Þeir tókust vel með aðstoð tónlistarmanna sem gáfu vinnu sína. Inga Björg í nemendahópnum fékk leyfi frá Icelandair til að við gætum farið með 40 kíló af farangri hvert svo við fylltum öll aukatöskur með fatnaði, skóm og ritföngum sem nemendur Kársnesskóla gáfu.

Við lögðum af stað 23. nóvember, 14 nemendur og einn fararstjóri ,flugum í gegnum London og ferðalagið var tíðindalítið, gekk semsagt vel. Allar töskurnar skiluðu sér og við drifum í að flokka allt saman, stofan í húsinu þar sem hópurinn bjó var eins og lager. Öllu var svo pakkað aftur og ferjað á barnaheimilið.

Fyrsta daginn kom Pennina kennari og kenndi okkur að bjarga okkur á swahili sem er þjóðarmálið ásamt ensku. Við lærðum að kynna okkur, spyrja frétta og mikilvægi þess að heilsa með handabandi en í Kenýa heilsast allir með handabandi.  Við vorum búin að fá upplýsingar um það fyrir brottför til Kenýa að við mættum ekki vera í flegnum/stuttum/þröngum/gegnsæum fötum og  Pennina sagði við okkur að við sætum þarna í tímanum hjá henni bókstaflega allsnakin að hennar mati. Þá glitti í hné, axlir og rassa og við þurftum öll að venja okkur við að klæða okkur siðlega sem voru ekki góðar fréttir fyrir sóldýrkendur í hópnum.  En við vöndum okkur við þetta og móðguðum engan að við vitum með ósiðsamlegum klæðaburði.

Á þriðja degi var komið að því að hitta krakkana/unglingana sem búa á barnaheimilinu Star of hope. Við komum inn um hliðið á lóðinni og þar tók á móti okkur hópur af börnum sem söng og dansaði og mér vöknaði um augu að hitta loksins þessa skjólstæðinga abc. Við vorum leidd dansandi inn í kirkjuna á lóðinni og þar hófst móttökuathöfn sem stóð í nokkra klukkutíma þar sem börnin sungu, dönsuðu, héldu ræður, lásu ljóð og kennararnir léku fyndið leikrit þar sem stelpa var tæld af gæja, varð ólétt og varð þessvegna að hætta í skóla. Hvert tækifæri er greinilega nýtt til að fræða krakkana. Ræðuhöldin voru flott því Kenýamenn virðast vera mjög málglaðir og standa upp og halda tækifærisræður við hvert tilefni. Þarna töluðu foreldri barns, prestur, hverfisforingi, barn á heimilinu, starfsmaður, Sammy, Þórunn og loks undirrituð fyrir hönd hópsins. Ég þakkaði fyrir góðar móttökur og óskaði eftir frekari danskennslu fyrir stirðan Íslendingahópinn.

Við fórum síðan öll út og blönduðum geði við börnin og tókum myndir, oft að þeirra ósk. Þau eru miklar fyrirsætur og stilla sér upp eins og atvinnumenn:

IMG_2272

IMG_2284

IMG_2288

Ég fékk líka að vera með á myndinni.

IMG_2295

IMG_2296 °

IMG_2298

IMG_2326

IMG_2329

Þegar rigningarskúr dundi yfir hlupum við inn og nokkrar stelpur buðu mér inn í herbergið sitt. Börnin sofa í stórum herbergjum en gólfplássið er ekki mikið því kojur fylla herbergin. Það voru örugglega tuttugu til þrátíu börn í hverju herbergi. Stelpurnar spurðu mig út úr og ég sýndi þeim kveðju á lítill videovél frá Huga, Stirni og Eyju. Þá vildu þær taka upp kveðju til þeirra  á móti og sýna mér hvað þær gætu sungið og dansað fallega. Þetta varð heilmikil upplifun, við vorum ánægð með móttökurnar og börnin ánægð með gestina.

Næst dag var komið að fyrstu ferðinni okkar inn í slömm. Okkur var skipt í fjóra hópa þar sem voru þrír eða fjórir í hóp. Við löbbuðum af stað frá barnaheimilinu inn í Mathare slömmið og byrjuðum á því að heimsækja fjölskyldu þar sem dóttirin sem er sjö ára gengur í skóla vegna styrks frá abc. Heimilið var um 9 fermetrar og ekkert rafmagn inni. Móðirin þvær þvotta fyrir fólk og gengur yfir í næsta hverfi til að finna sér vinnu sem tekst kannski tvisvar í viku og faðirinn tekur við greiðslu í Matatu vagni en það eru bílar sem keyra um borgina, einhverskonar strætó. Þetta var eitt af fáum heimilum sem við komum á þar sem faðirinn er til staðar, á flestum heimilum hittum við einstæðar mæður eða ekkjur og það er vegna þess að þær eru í verstu aðstæðunum.

Í næsta húsi var kona með fjögur börn og það yngsta er mánaðargamalt. Hún býr hjá bróður sínum með börnin því maðurinn hennar fór frá henni. Svo hittum við Susan sem býr ein með þrjár stelpur og tvær þeirra ganga í skóla. Hún fór frá manninum sínum vegna barsmíða og er stolt af einkunnum stelpnanna. Í síðasta húsinu hittum við ekkju sem býr með 6 börnum og einu barnabarni. Það var mjög gott að hitta þessar konur og ræða við þær um þeirra aðstæður og alls ekki óþægilegt. Það hjálpar fjölskyldunum mjög mikið þegar börnin ganga í skóla því þar fá þau líka eina máltíð á dag.

Heimilin svokölluðu er þó varla hægt að kalla mannabústaði. Þetta eru kofar, oft er moldargólf, veggir og þak úr bárujárni og hriplekt. Fæstir hafa rafmagn og eldunaraðstaða er einhverskonar prímus. Fólk deilir kömrum með nágrönnunum og baðaðstaðan er fata með vatni. Flestir þurfa að kaupa allt vatn, bæði til neyslu og þvotta. Umhverfið er hræðilegt, við stikluðum yfir skítapolla og víða mátti sjá ummerki um fljúgandi klósett en þá gerir fólk þarfir sínar í plastpoka og hendir honum svo frá sér. Við vorum með sérstaka slömmskó, helst uppháa gönguskó. Við fórum alltaf inn í slömmin með öryggisgæslu með okkur, þá fylgdu verðir okkur allan tímann. Okkur fannst samt aldrei sem okkur væri ógnað.

Eftir þessar heimsóknir til abc fjölskyldna fórum við á barnaheimilið og hlustuðum á söng og ljóðalestur. Börnin vildu sýna okkur meira af því sem þau höfðu æft. Við kíktum í töskurnar með fötum og fleira sem við komum með og ég hef aldrei heyrt jafn mikil fagnaðarlæti og þegar krakkarnir sáu hvað var í töskunum. Börnin fengu að smakka abc súkkulaði, þrjá mola á mann og það var eins og þau hefðu fengið gull.

Næsta ferð inn í Mathare slömmið var vinnuferð því tilgangurinn var að hitta og taka skýrslur af fjölskyldum í neyð og þá þýðir það að börnin eru ekki skóla vegna peningaskorts. Félagsráðgjafar abc heyra sífellt af nýjum fjölskyldum og ferlið er þannig að þeir fara og hitta börnin og foreldrana, taka niður fjölskyldusöguna og upplýsingar um tekjur, leigu og meta hvort börnin verði sett á forgang inn í dagskólaprógrammið. Nú tókum við að okkur að taka niður upplýsingar og fylla út skýrslurnar með aðstoð félagsráðgjafans sem túlkaði líka fyrir okkur þegar fólk talaði ekki ensku. Við mynduðum líka börnin og síðan fara upplýsingarnar inn á vef abc þar sem tilvonandi stuðningsforeldrar finna þau.

IMG_2346

Í fyrsta húsinu var fjögurra daga gamalt barn og Helena fékk að halda á því.

IMG_2349

Götumynd úr Mathare-slömminu

IMG_2353

Kúk og pisslækur

IMG_2354

Vilina félagsráðgjafi sem fylgdi mínum hópi.

IMG_2360

Þarna situr Gróa með tveggja ára strák sem á þrjú systkini, Kenneth ellefu ára, Henríettu sjö ára og Lavendu fimm ára en hún er mikið fötluð. Móðirin getur ekki unnið úti vegna fatlaða barnsins og faðirinn leitar að byggingavinnu daglega en fær ekki alltaf vinnu.

IMG_2361

Henrietta 7 ára

IMG_2362

Kenneth 11 ára

IMG_2365

Þessi strákur heitir Ombisa og er fjögurra ára. Hann býr með mömmu sinni, langömmu og litlum bróður. Pabbi hans fór frá fjölskyldunni og er tekinn saman við nýja konu og sinnir börnunum ekkert. Í kofanum var eitt sófaskrifli og ekkert rúm, þau sofa bara á gólfinu.

IMG_2370

Hérna er leikvöllurinn á Star of hope. Við komum með marga fótbolta og treyjur sem komu sér vel.

IMG_2378

Inga Björg, Helena og Kristófer fengu flöskur frá Arion banka og fyrir hluta af ágóðanum var keyptur vatnshreinsibúnaður fyrir barnaheimilið. Í Kenýa er vatnsskortur og það koma upp margir sjúkdómar vegna óhreins vatns. George  Dima, Sammy og Þórunn taka við tækinu frá Ingu Björgu, Helenu og Kristófer á myndinni.

Í Soweto-slömminu  hittum við HIV smitaða móður sem var yfirgefin af eiginmanninum þegar hann komst að því að hún væri smituð. Kofinn hennar var í hörmulegu ástandi og hún hafði reynt að einangra með pappakössum.

IMG_2401

IMG_2404

Við Helena sitjum inni myrkrinu hjá konunni sem selur maís og þvær þvotta þegar hún hefur heilsu til. Þegar hún kemst ekki til að vinna fá hún og börnin ekki mat.

IMG_2408

Stelpna fór að gráta þegar Bjarki ætlaði að mynda hana og Þórunn huggaði hana svo við næðum mynd af henni.

IMG_2412

Falleg mæðgin

Við hittum móður sem átti erfitt með mál en hún fékk slag fyrir tveimur árum. Maðurinn hennar var í byggingavinnu og var ráðinn til að grafa grunn á landi. Einn daginn kom lögreglan og handtók hann því sá sem réð hann í vinnuna hafði ekki byggingarleyfi. Hann var þá dæmdur saklaus í fangelsi þar sem hann hefur verið í eitt ár og á eftir tvö ár af dómnum. Þessi kona hefur enga tekjumöguleika vegna heilsuleysis og býr með þremur börnum sínum við hörmulegar aðstæður. Ein  dóttirin býr hjá ömmu sinni í sveitinni en þar er ekki vel hugsað um hana. Nágrannarnir aðstoða af veikum mætti en oft þarf fjölskyldan að nærast á þunnum mjölgraut í marga daga. Konan grét sárt þegar við töluðum við hana en brosti þegar við kvöddum.

IMG_2420

IMG_2426

Vilina og Þórunn ræða við örvæntingarfulla móður og börnin hópast að Þórunni.

IMG_2427

Gróa, Guðjón Ingi fararstjóri, Helena og Bjarki í Soweto-slömminu.

IMG_2429

Lítil dúlla í Soweto.

IMG_2433

Gróa varð amma margra barna í Kenýa

IMG_2435

Kristófer, Rósa og Guðjón Ingi.

Í Mukuru Kwajenga slömminu hittum við móður fimm barna sem sagði okkur sögu sína. Maðurinn hennar dó fyrir tíu árum í sveitinni  eftir að hafa drukkið ólöglegt og eitrað brugg. Tengdamamma hennar kenndi henni um dauðann, brenndi ofan af henni og hrakti hana burt. Síðan hefur hún búið í slömminu í Nairóbí og unnið sem húshjálp. Elstu börnin eru uppkomin og hjálpa mömmu sinni en henni tekst samt ekki að aura saman fyrir skólagjöldunum handa yngstu sonunum sem eru 12 og 9 ára. Við tókum niður upplýsingar og kvöddum og gengum af stað. Þá birtist stelpa sem grét sárt og Vilina spurði hana hvað væri að. Hún endurtók bara “ ég vil líka fara í skóla, ég vil líka fara í skóla”. Við vissum ekki alveg hvernig þessi stelpa tengdist konunni en það kom í ljós að hún er systurdóttir hennar og fljótlega birtist strákur líka sem grét með ekka og var litli bróðir stelpunnar. Þá kom í ljós að þau búa þarna líka, pabbi þeirra  dó úr aids í sumar og mamma þeirra liggur fyrir dauðanum. Við tókum líka niður upplýsingar um þau og þegar við fórum voru þau bæði farin að brosa aftur.

IMG_2458

Móðirin sem var hrakin burt af tengdamömmu sinni.

IMG_2462

Systkinin sem grétu með frænda sinn á milli sín. Þau vildu bæði verða flugmenn en það er framtíðardraumur margra barna sem við hittum. Þau vilja líka verða fótboltamenn, kennarar og einn vildi verða endurskoðandi.

Við vorum ekki alla daga í slömmunum. Við vorum líka með nýju vinum okkar á barnaheimilinu en skólalok voru nýbúin og allir í jólafríi. Börnin höfðu tíma til að leika sér og fara í ýmsa klúbba eins og leiklist, ljóðalestur og söng. Þau voru mjög dugleg að perla skartgripi og nokkrir Íslendinganna lærðu af þeim. Tilgangurinn með perluvinnunni var að selja skartgripina og safna sjóði sem væri hægt að nota peninga úr og kaupa fjölbreyttari mat. Maturinn var ansi einhæfur, í hádeginu er oft baunakássa og ugali er þá borðað á kvöldin en það er búið til úr maísmjöli og borðað með grænkáli.

Rósa snyrtifræðingur kom með fullt af snyrtivörum og hún setti upp námskeið um hreinlæti og förðun. Við máluðum svo stelpurnar sem voru gullfallegar fyrir en urðu mjög ánægðar með smá gloss, kinnalit, augnskugga og maskara.

IMG_2474

Tvær kenískar fegurðardísir.

IMG_2481

Gróa og Helena í perluvinnunni með litlum vinum.

Meira síðar, Dalla

No comments: