Saturday, May 09, 2009

Hitastigið hækkar

Nú er kominn tími á loftkælingu og moskítóvörn. Hitinn fór yfir þrjátíu gráður í gær og það verður líka heitt í dag. Maður verður hálfmáttlaus í hitanum, það tekur tíma að venja sig við. Afmæli hjá Bogga framundan, örugglega garðpartí.

En allir eru við góða heilsu í sumarhitanum, engin svínaflensa eða önnur flensa. Kínverjar taka svínaflensuna mjög alvarlega og allir flugfarþegar sem koma hingað eru hitamældir við komuna. CCP fólk sem lenti um síðustu helgi lýsti mönnum í hvítum búningum sem komu inn í flugvélina og beindu hitamælum að ennum farþeganna. Í vélinni, sem var full frá London, hóstaði kona mikið og maður sem sat við hliðina á henni reyndi að halla sér frá henni. Einhverjir voru teknir til hliðar til frekari skoðunar.

Hér í litlu raðhúsalengjunni (þrjú hús) okkar er mikill nágrannakærleikur. Nú er Mattias heimavinnandi eins og við Fredrik og við fylgjumst vel með hvert öðru. Við hittumst á morgnana þegar við fylgjum krökkunum út í skólabíl og plönum daginn. Fyrir utan hliðið okkar myndast oft ruslahrúga, þar er settur byggingarúrgangur úr næstu húsum og stundum gömul húsgögn. Við stöldruðum við um daginn og litum á gamlar kistur sem einhver hafði  hent út og okkur fannst þær líta sæmilega út. Þá sagði Fredrik að við værum líklega búin að vera of lengi í Kína fyrst við værum farin að líta tvisvar á rusl.

Eyja er orðin ansi ákveðin (frek) og mótmælir hástöfum þegar hún er tekin upp úr baðinu eða má ekki eitthvað. Hún er ekki farin að labba alveg enn, en hefur tekið tíu skref í einu svo þetta hlýtur að fara að koma. Það verður auðveldara að leyfa henni að leika úti þegar hún fer að labba. Við erum oft úti seinnipartinn þegar stóru krakkarnir eru komin heim úr skólanum og hún sækir í róluna og hengirúmið sem hangir úti. Hún skilur bæði íslensku og kínversku en segir ekki mörg orð. Það er mikil væntumþykja milli hennar og Lí og Lí er alltaf að segja mér hvað Eyja sé klár og yndisleg. Eyja veit alveg hvenær Lí fer heim því þegar Lí kemur niður með blautt hárið eftir sturtu byrjar Eyja að vinka bless. Lí eldar núðlur handa Eyju í beinasúpu sem hún útbýr með því að sjóða bein. Eyja borðar allt og er ekki matvönd eins og bræðurnir, hún elskar ávexti og grænmeti, kirsuberjatómatar, mangó og jarðarber eru í uppáhaldi.

Í dag er mæðradagurinn og ég fékk fallegar ástarjátningar sem Hugi og Stirnir gerðu í skólanum. Stirnir er soldið að spá í hvað ég sé gömul. Hugi lýsti því yfir um daginn að kaffi léti mann deyja fyrr en tedrykkja lengdi lífið. Stirnir spurði mig þá hvort ég drykki kaffi og ég sagðist drekka lítið af því. Hann virtist anda léttar.

_MG_1504

Ebba drullumallar í portinu.

_MG_1505

Carolína

_MG_1507

Eyja við æfingatæki fyrir framan hjá Matta og Maríu. Þar vorum við í grillveislu um síðustu helgi.

_MG_1508

Hugi aðstoðar systur sína við æfingarnar. Hann sópaði portið hjá Matta og Maríu með mikilli nákvæmni.

_MG_1512

Atli, Matti og Jói

_MG_1513

Kjartan sá um að grilla.

_MG_1515

Atli spilar fyrir Eyju og Töru.

_MG_1522

Ada, Atli og Tara.

_MG_1523

Tara er brosmild.

_MG_1526

Við vinkonurnar fórum á Nýlistasafnið MOCA í vikunni og Hekla, Ásta og Elsa eru þarna við háhýsin.

_MG_1527

_MG_1537

Ásta fimm mánaða prófaði matarstól í fyrsta skipti á veröndinni á safninu.

Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Eyja est bien mignonne dans sa robe chinoise. Qu'est-ce qu'elle attend pour marcher? Ce sera la découverte d'un nouvel univers.
Gunna est en ce moment en voyage au Yémen. J'espère qu'elle en profite bien. Elle vient de traduire en islandais le livre de l'Afghan Atiq Rahimi qui a obtenu le prix Goncourt l'an dernier pour son livre: Pierre de patience. Reste encore beaucoup de travail de relecture et de corrections,avant de chercher un éditeur.
Kristinn porte toujours un gros pansement à sa main blessée le 19 avril (d'un coup de scie électrique). 2 doigts ont failli y passer. Maintenant il faut les rééduquer! Il ne souffre pas, mais ça l'embête!
Grosses bises à tous.
Amma Catherine