Sunday, February 22, 2009

Stjörnur í Hangzhou

 

Við mæðgurnar fórum til Hangzhou í vikunni, Mr. Jin, einkabílsjtórinn okkar keyrði okkur út á lestarstöð og ferðin var mjög þægileg. Nýleg og hugguleg lest og ferðin tók aðeins rúman klukkutíma. Lestin þaut áfram á allt að 170 kílómetra hraða á klukkustund.

_MG_5920

Eyja fékk sér snakk á leiðinni eins og flestir ferðafélagar okkar. Kínverjar eru síborðandi og geta ekki farið í klukkutíma lestarferð án þess að borða á leiðinni.

_MG_5932

Við komuna til Hangzhou gekk okkur erfiðlega að finna leigubíl. Enginn kannaðist við heimilisfang hótelsins og uppsett verð fyrir ferðina var út úr kú. Loks aðstoðaði einhverskonar umferðarvörður okkur við að finna bíl en það var sá skítugasti leigubíll sem við höfum stigið upp í. Bílstjórinn var í símanum allan tímann og mér skildist að hann vildi fara með okkur á annað  hótel en við báðum um. Þegar ég var komin í þrot með kínverskukunnáttuna hringdi ég í Sharon á skrifstofu CCP sem talaði við bílstjórann og kom honum í skilning um hvert við vildum fara. Þegar við komum á áfangastað vildi bílstjórinn fá borgað 50 rmb en mælinn hafði hann aldrei sett í gang en ég sagði honum þá að ég byggi í Shanghai og rétti honum aura sem hann sætti sig við.

_MG_5946

Við vorum fegnar að komast inn á hótelið sem hét því vinalega nafni Friendship hotel. Eyja tók sig vel út á rúminu í hornherbergi með útsýni yfir Vesturvatn.

Við fengum bíl og bílstjóra til að keyra okkur upp að Lingyin musteri en nafnið þýðir friðsæll staður. Þar voru óvenju fáir á ferli vegna rigningar en við skoðuðum okkur um undir regnhlífum og vorum vel búnar svo ekki varð okkur kalt.

_MG_5987

Jóra og mamma á friðsælum stað, ekki algengt í Kína.

_MG_6041

Það bætti í rigninguna þegar við skoðuðum Yongfu musterið, þar gengum við einar um.

Daginn eftir gengum við niður að vatninu og komum þangað tímanlega til að fylgjast með gosbrunnasýningu. Tónlist var leikin af bandi og gosbrunnar úti í vatninu sprautuðu vatni upp í loftið í takt við tónlistina. Eyja var mjög hrifin og klappaði saman lófum í kerrunni.

Síðan gengum við meðfram vatninu og það var nokkuð friðsælt, þurrt veður og ekki kalt. Við settumst niður á kaffihúsi við vatnið og  Eyja horfði á fólkið ganga hjá. Einhver tók eftir henni í glugganum og fólk hópaðist að til að heilsa upp á hana í glugganum. Eyja brosti og vinkaði til allra.

_MG_6123

Eyja nær sambandi gegnum rúðu.

_MG_6136

Ein stúlka hafði kjark til þess að koma til okkar inn á kaffihúsið og biðja um mynd af sér með Eyju og Jóru. Ég myndaði þær og fékk að smella líka af þeim þremur. 

_MG_6139

Gangan hélt áfram og við heilsuðum upp á Marco Polo sem kom til Hangzhou og sagði þá að hún væri glæsileg borg. Hópur kvenna fylgdi okkur eftir frá kaffihúsinu.

_MG_6145

Við tókum eftir ljósmyndara sem beindi að okkur aðdráttarlinsu úr runna. Fyrsta skipti sem papparazzi hefur elt okkur. Hann gerðist svo nærgöngulli og myndaði Eyju sem brosti að venju. Mamman er ekki jafn glöð á svip.  

_MG_6153

Eyja var algjör stjarna í Hangzhou og ég svaraði spurningum um hana eftir bestu getu. Þarna dreif nokkra að til að skoða hana.

_MG_6180

Á þessum stað voru eldri borgarar áhugasamir um Eyju.

_MG_6187

Og það bættist í hópinn svo við komumst ekki áfram, það glittir í mig í hópnum. Kínverjar eru sérstaklega barngóðir og áhugasamir um börn.

Seinnipart dags var kominn tími til að fara aftur út á lestarstöð og vegna rigningar virtist erfitt að ná í leigubíl. Stúlka á hótelinu benti okkur á að núna væru vaktaskipti bílstjóra svo það væri vonlaust að fá bíl. Hún sagði okkur að við gætum tekið strætisvagn á lestarstöðina og við ákváðum að sleppa við gráðuga leigubílstjóra og fara að ráðum hennar.

_MG_6195  Hérna erum við að bíða eftir vagninum. Vagnarnir komu þétt en þeir stoppuðu ekki alltaf á sama punktinum svo við þurftum að hlaupa af stað með kerruna og farangurinn þegar rétti vagninn birtist. Tókst ekki í fyrstu tilraun en gekk betur í þeirri næstu.

Í Sjanghæ sást enginn Mr. Jin á lestarstöðinni og þegar ég ætlaði að hringja í hann vantaði mig inneign í símann. En fyrir einhverja tilviljun fundum við bílinn  og vorum fegnar að komast heim með honum.

Dalla

3 comments:

hekla said...

Flottar myndir, sérstaklega af Eyju í glugganum. Greinilegt að þið hafið vakið mikla athygli þarna.

Dalla said...

Já, ekki amalegt að hafa ljósmyndara með í ferðinni.

Anonymous said...

J'adore la photo d'Eyja à la fenêtre: East meets West! Je l'ai imprimée et vais l'encadrer. Compliments à Jora si c'est elle qui a pris la photo.
Y a-t-il des gens de CCP en partance pour Shanghai avant l'anniversaire de Kjartan et de Stirnir?
Grosses bises à tous.
Catherine