Wednesday, June 18, 2008

Þá erum við að búa okkur fyrir Íslandsferðina, strákarnir eru að reyna að sofna, það er nú ekkert allt of auðvelt þegar spennan er mikil.
Síðustu vikur hafa verið skemmtilegar, með tilheyrandi niðurtalningu í Íslandsferðina. Boggi og Örn komu og gistu hjá okkur síðustu helgi og vinirnir sváfu lítið. Ég heyrði þá fara á fætur um fimmleytið eftir stuttan nætursvefn. Þeir horfðu á spennandi mynd og stráðu salti í dyragættir og gluggakistur til að varna því að skrímsli kæmust inn. Kjartan var ekkert voðalega glaður þegar ekki var til saltkorn í húsinu. Þeir útbjuggu líka tómatsósusprengjur og fleri gildrur fyrir skrímsli, húsið ætti að vera vel varið.
Við settumst inn á kaffihús í hádeginu á sunnudaginn með Heklu og Magnúsi og strákarnir könnuðu umhverfið. Þeir fundu greinilega blómabúð í húsinu því þeir komu færandi hendi með blómvendi handa pöbbunum í tilefni feðradagsins. Þeir sögðust hafa fengið blómin gefins og við ákváðum að trúa því.
Hugi færði Kjartani Family mailbox sem hann föndraði í skólanum og fyrstu skilaboðin voru til Kjartans: I love you daddy! Stirnir færði pabba sínum kort og geisladiskahulstur, í kortinu var texti um pabba.

Dad
My dad is funny.
I like to play with my dad.
He is crazy.
My dad is fun.

By Stirnir

Hugi kom uppveðraður heim úr skólanum einn daginn. Stúlka sem hljóp með ólympíukyndilinn hérna í borginni heimsótti bekkinn hans. Hann fékk eiginhandaráritun hjá henni og fékk að halda á kyndlinum. Hann var ekki lengi að föndra kyndil hérna heima og kveikja á honum með nágrannakrökkunum. Undir eftirliti fullorðinna að sjálfsögðu.

Eyja dafnar vel. Hún hjalar svo mikið núna að suma daga samkjaftar hún ekki. Ætli hún verði ekki málglöð stúlka með tímanum. Þeir sem sjá hana sjaldan undrast hvað hún stækkar hratt og bætir á sig. Mér finnst ég ekki vera dómbær á það því ég sé hana daglega. En ég staðfesti það að lærakeppirnir eru orðnir nokkuð margir. Eyja er bara yndisleg í alla staði, brosmild og góð. Hún sefur vel, mér finnst bara ekkert mál að sinna henni og mér finnst bara lúxus að hún skuli ekki vakna nema einu sinni eða tvisvar til að drekka yfir nóttina. Oft sefur hún 6 til 7 tíma í einum dúr á nóttunni. Það er greinilega ekki meira mál að eignst barn þó ég sé að nálgast fertugt (ískyggilega hratt). Hugi sagði reyndar um daginn að gamlar kellingar (og meinti mig) yrðu úrillar af því að eignast börn. Ég hef líklega eitthvað verið að skamma hann þegar þessi orð féllu.

Í skólanum hafa verið loka/kveðjuveislur í báðum bekkjum. Margir eru að flytja burt eins og gengur og gerist í alþjóðlegum skóla. Þetta getur orðið ansi tilfinningaþrungið og tár falla. Fólk veit ekki hvort það hittist aftur en kveðjusöngur skólans segir allt en í honum segir að við vonum öll að leiðir okkar eigi eftir að liggja saman einhverntíma í framtíðinni.

Við vonumst til að hitta vini og fjölskyldu á Íslandi, þetta verður stutt stopp að þessu sinni, fjórar vikur en við hlökkum til að halda inn í íslenskt sumar, sjáum ekkert eftir rigningunni í Shanghæ að þessu sinni.

Dalla

No comments: