Wednesday, February 27, 2008



Eyja, þrettán daga gömul



Stirnir fimm ára, Hugi átta ára og Eyja

Jóra tók myndirnar

Lífið er yndislegt, Dalla

Wednesday, February 20, 2008

Nú er Eyja sex daga gömul í dag.
Hún er dugleg að drekka og sofa, tekur oft fjögurra til fimm tíma lúra. Þegar hún vaknar vill hún fá brjóstið um leið og öskrar á mig ef það er ekki í boði strax.
Hún er bara yndisleg og ég get ekki hætt að horfa á hana og dást að henni.

Bræðurnir fóru í skólann í morgun eftir veikindi. Þeir greindust báðir með streptókokkasýkingu um helgina og voru sárlasnir.
Hugi var að spá í það í síðustu viku að þegar ég væri leið væri ég samt aldrei ein því ég hefði litla barnið í maganum. Hann kyssir Eyju litlu á kollinn og bíður óþolinmóður eftir því að hún geti farið að gera meira en sofa, drekka, kúka og pissa. Hann er að prjóna trefil handa Eyju, hann heldur sig vel að verki og miðar vel áfram.
Stirnir er aðeins feimnari við Eyju, vill ekki kyssa hana en strýkur henni um hárið. Bræðurnir voru báðir spenntir að fá að smakka brjóstamjólkina og fengu smá dropa í gær og settu upp skrítinn svip.
Dalla

Sunday, February 17, 2008

Á mánudaginn fyrir tæpri viku fórum við Kjartan í hina hefðbundnu mæðraskoðun og sónarskoðun sem hefur verið gerð á tveggja vikna fresti upp á síðkastið. Allt leit vel út í mæðraskoðun, ég var komin rúmar 38 vikur á leið og heilsan mín góð.
Á eftir lá leiðin inn ganginn í sónarinn hjá Huldu. Ég lagðist á bekkinn og skoðunin hófst og okkur Kjartani tókst illa að sjá hvað var verið að skoða á skjánum og Hulda var óvenju þögul. Eftir góða stund sagði Hulda að hún sæi varla vökvann í kviðarholinu á barninu, hann virtist hafa horfið að mestu. Þessvegna þekktum við Kjartan líklega ekki myndirnar af barninu, við erum vön því að sjá útþanda vömb og og vökva í kringum líffærin. Hulda skoðaði lengur og benti okkur á mjóa rönd af vökva í kviðnum sem virtist vera eina merkið um allan vökvann sem hafði verið þarna í rúma fjóra mánuði.
Við vorum öll hissa á þessari framvindu mála, Hulda ekki síður en við. Ég fór í hjartsláttarrit til að fylgjast með líðan barnsins og Hulda ráðfærði sig við barnalækna á meðan. Þeir sögðu að þetta gæti varla verið annað en gott merki að vökvinn væri að fara. Við Kjartan meðtókum varla þessar fréttir, tókum því með fyrirvara að vökvinn myndi bara fara og heilsa barnsins yrði góð. En það var ekkert hægt að rannsaka meira á þessu stigi og ég fór heim. Mamma átti afmæli þennan dag og hún sagði að þetta væri besta afmælisgjöf sem hún hefði nokkurntíma fengið.
Á miðvikudagskvöld byrjaði ég að fá verki og þegar verkirnir voru orðnir örir og langir ákváðum við að fara niður á fæðingardeild, við vildum hafa varann á því það þurfti að fylgjast með hjartslætti barnsins í gegnum alla fæðinguna. Mér til nokkurra vonbrigða hættu verkirnir eftir að við komum niðureftir en útvíkkun var þó komin í fjóra eftir einungis verki í rúma tvo tíma.
Okkur var boðið að gista og sjá hvort þetta færi ekki aftur í gang hjá mér. Um morguninn var ekkert að gerast og þegar ég hitti lækni um hálftíuleytið vildi hún senda okkur heim. Ég klæddi mig og Kjartan fór með farangurinn út í bíl. Ég fór fram á vakt til að sækja skýrsluna mína og ræða við lækninn. Þá stakk ljósmóðirin upp á því að athuga aftur með útvíkkunina áður en ég færi. Þá kom í ljós að útvíkkun var konin í rúma fimm og leghálsinn mjúkur og teygjanlegur. Læknirinn kom inn og spurði hvort ég vildi að við ýttum við því að koma fæðingunni í gang og ég var sko til í það, vildi klára þetta sem fyrst. Svo ég hringdi í Kjartan til að segja honum að koma aftur inn með farangurinn og belgurinn var sprengdur og legvatnið fór að leka.
Hríðarnar létu standa á sér svo það var sett upp hríðaraukandi lyf í æð hjá mér. Hríðarnar byrjuðu svo að koma um tólfleytið og urðu strax örar og sterkar, lá við að það liði yfir mig rétt áður en ég byrjaði að rembast. Ég byrjaði að rembast kl. eitt og Kjartan og ljósmóðirin hjálpuðu mér, Kjartan rétti mér súrefnisgrímu og djús milli rembinga og ljósmóðirin hvatti mig áfram og ráðlagði með stellingar.
Rétt áður en kollurinn kom í heiminn var kallað í barnalækninn sem kom strax. Eyja Kjartansdóttir fæddist kl. 13:27, 14. febrúar og grét strax hraustlega. Ljósmóðirin skildi strax á milli okkar og ég fékk hana upp á bringuna. Barnalæknirinn leit á hana og sagði að hún virtist svo spræk að hún mætti vera hjá mér smástund og hann myndi bíða fyrir utan. Hún fékk að vera hjá okkur í 15 mínútur áður en hún fór yfir á vökudeild í rannsóknir.
Við Kjartan röltum svo yfir til að kíkja á hana og ráðfæra okkur við læknana. Eyja andaði vel frá byrjun og leit út eins og heilbrigt barn fyrir utan að húðin á kviðnum á henni er einu númeri of stór eins og einn læknirinn orðaði það. Fljótlega kom hjartalæknir til að óma hjartað og niðurstaðan úr þeirri skoðun var að hjartað liti fullkomlega eðlilega út, vökvinn sem hafði verið þar í janúar var horfinn og hjartavöðvinn sem hafði líka verið þykkur í janúar var orðinn eðlilegur.
Það voru gerðar ýmsar blóðprufur til að athuga með lifrar og nýrnastarfsemi og allt kom eðlilega út. Eyja var á vökudeildinni fyrstu nóttina og fastandi en á föstudagsmorgni var gerð ómskoðun á kviðnum þar sem allt kom líka vel út, enginn vökvi í kviðnum og líffærin líta eðlilega út.
Eftir lungnamyndatöku í hádeginu fékk Eyja að koma niður til mín á sængurkvennagang í leyfi og við byrjuðum að fikra okkur áfram með brjóstagjöfina. Vorum báðar hálf klaufskar í byrjun en það er allt á góðri leið núna.
Núna sit ég á sunnudagskvöldi og við erum komnar heim til Kjartans og stóru bræðranna sem finnst litla systir vera rosalega sæt. Þessi vika er búin að vera svakalegur rússibani á jákvæðan hátt, við vorum alveg hætt að þora að vona að þetta gæti gerst að vökvinn gæti horfið svona án skýringa. Læknarnir segja að svona sé þetta stundum að engin skýring finnist og þeir ætla heldur ekki að leita að henni lengur fyrst ástandið batnaði.
Við getum ekki verið annað en yfir okkur hamingjusöm með niðurstöðuna, litla heilbrigða og fallega stelpu eftir þá erfiðustu meðgöngu sem hægt er að ímynda sér.
Mig langar til að þakka stuðning vina og fjölskyldu á meðgöngunni, ég er svo sannarlega búin að finna hvað það er mikilvægt að njóta stuðnings og taka á móti fallegum hugsunum frá ykkur.
Ég set inn fleiri myndir fljótlega og fréttir af fjölskyldunni,
Dalla

Friday, February 15, 2008

Eyja Kjartansdóttir...



Sunday, February 10, 2008

Þá eru feðgarnir búnir að vera rúma viku á Íslandi þó okkur finnist þeir búnir að vera hérna miklu lengur, það er svo mikið fjör í kringum bræðurna.
Ferðalagið gekk vel hjá þeim, þeir náðu eiginlega síðasta flugi frá Shanghæ þann daginn, flugvellinum var lokað í nokkra klukkutíma eftir að vél Virgin til London fór í loftið. Snjórinn og kuldinn ræður víst enn ríkjum í borginni, suma daga er kaldara þar en hér.
Strax fyrsta daginn fóru bræðurnir tvisvar út að leika í Mosó með sleða. Síðdegis vildu þeir fara til ömmu Catherine og vitja kofans í garðinum sem var smíðaður síðasta sumar.



Bubbi vinur Huga kom yfir í heimsókn en þeir hittust vinirnir í Garðastrætinu og umferð stöðvaðist víst vegna þess að fagnaðarlætin voru svo mikil hjá vinunum. Þeir fóru svo í það Hugi, Stirnir og Bubbi að tæma búningakistuna hjá ömmu og máta allskonar búninga, gleraugu, hárkollur og skó.
Við fórum í bíó á sunnudaginn fjölskyldan en það gerum við aldrei í Kína. Okkur var svo boðið í pizzu til Þiðriks, Bjarkar og Unnar Marenar. Unnur fékk þá bræður sofandi í heimsókn í sumar daginn eftir komuna til Íslands en í þetta skipti héldust bræðurnir vakandi til að verða sjö svo það var mikið leikið.
Á mánudagsmorgun fórum við öll af stað um áttaleytið. Ekkert erfitt að vakna snemma, bræðurnir voru búnir að vera vakandi í fjóra tíma. Hugi mætti í gamla bekkinn sinn 3. I hjá Ingunni og hitti gamla félaga sem biðu spenntir eftir Kínabúanum. Það var eins og hann hefði aldrei farið og var hæstánægður í skólanum. Ég heimsótti bekkinn eftir hádegi og við Hugi sögðum frá Kína og áramótunum og sátum fyrir svörum. Hugi gaf öllum rottu í tilefni árs rottunnar sem voru vel þegnar. Hugi ákvað að fara í Skýjaborgir, frístundaheimilið eftir skóla því vinirnir fara þangað. Hann var líka svo heppinn að það var að byrja skólasund svo hann fer í sund daglega eftir skóla.
Stirnir fór í gamla leikskólann sinn Dvergastein og er nú í umsjón Hönnu, Siggu og Svövu á elstu deildinni Trölladyngju. Hann gekk þar inn eins og hann hefði aldrei farið og er alsæll. Ég heimsótti líka krakkana í Trölladyngju í vikunni og Stirnir hjálpaði mér að segja frá Kína.

Bræðurnir eru svo glaðir hérna, þeir raða í sig íslenskum mat, slátri og rófustöppu, hákarli, abt mjólk, bollum á bolludaginn og saltkjöti og baunum á sprengidag. Amma Ragnheiður sér um að nóg sé til af mat á heimilinu því ég held að matarlystin hafi tvöfaldast við að koma hingað.
Stirnir sagði einn morguninn þegar hann leit útum gluggann með ömmu sinni en þá hafði kyngt niður snjó um nóttina: Ég ætla aldrei að fara aftur til Kína!
Á föstudagskvöldið bauð Amma Catherine bræðrunum á beinagrindarsýningu í Borgarleikhúsinu, á dagskrá Vetrarhátíðar. Þetta var mikil ævintýraferð í vonda veðrinu. Við hjónin fórum á þorrablót CCP og borðuðum vel og hittum CCP vini.
Við fórum svo aftur í bíó í gær, þá var Ástríkur á dagskrá. Í dag var það svo sýningin um Gosa í Borgarleikhúsinu sem okkur fannst mjög skemmtileg.

Nú eru vonandi ekki margir dagar eftir af meðgöngunni, bræðurnir spyrja daglega hvort barnið komi í dag. Einn morguninn hafði hellst niður vatn við náttborðið þeirra og Hugi vissi að það gæti lekið úr mér áður en barnið kæmi. Hann var sannfærður um að nú kæmi barnið þann daginn.
En allt er með kyrrum kjörum. Ég fékk verki á sprengidag í tvo tíma en þeir voru nú hvorki sárir né reglulegir. Því miður duttu þeir svo bara niður áður en ég borðaði baunirnar.

Dalla