Friday, December 28, 2007

Gleðileg jól og gleðilegt ár elsku vinir, eitthvað hef ég verið í litlu bloggstuði í desember.
Aðventan var fín hjá okkur hérna, ég bakaði smákökur og við hituðum okkur kakó eftir skóla hjá strákunum. Súkkulaðistangir, uppskrift frá mömmu fengu nýtt nafn þegar Hugi leit á þær, hann sagði að þær litu út eins og kúkur með gubbi ofaná. Svo leit hann á mig og sagði að þær væru samt örugglega bragðgóðar. Þetta var nú ekki fjarri lagi hjá honum, þær eru dökkbrúnar með möndlukurli ofaná en þær voru líka góðar á bragðið.
Ég fór í báða bekki bræðranna og sagði krökkunum frá íslensku jólasveinunum og föndraði með þeim. Hugabekkur gerði jólasveina úr trjágreinum, svipaða og ég gerði sjálf í barnaskóla.

Stirnisbekkur gerði litla jólakalla með húfu, voða sæta, þau stóðu sig vel í föndrinu og voru mjög áhugasöm um jólasveinana.
Í Stirnisbekk hittust foreldrar með börnunum og borðuðu saman hádegisverð. Allir komu með eitthvað á hlaðborð.

Stirnir, Liem, Gabriele og Didrik


Nicole við hlaðborðið


Bekkurinn söng lag

Jólasveinarnir voru duglegir að vitja bræðranna í desember, þeir fá hrós fyrir að leggja á sig þetta langa ferðalag. Hérna vöknuðu bræðurnir óvenju snemma til að kíkja í skóinn, fótaferðatími var á milli 6 og hálfsjö alla daga.
Í byrjun desember voru jólatónleikar í skólanum. Stirnisárgangur söng Jingle bells og Stirnir söng hástöfum, brosti fallega og dillaði sér með. Ég tók sönginn upp á video og það var mikið hlegið hérna daginn eftir þegar bræðurnir skoðuðu upptökuna. Árgangur Huga bæði söng og spilaði á blokkflautur. Hugi var mjög alvarlegur yfir þessu og sagðist alls ekki geta verið í úlpu í spilamennskunni, hún gæti heft hann. Á eftir var svaka flugeldasýning og súkkulaðihlaðborð fyrir börnin.

Bræðurnir byrjuðu ekki í jólafríi fyrr en rétt fyrir jól, föstudagurinn 21. desember var síðasti skóladagur, hálfur dagur. Reyndar tókst þeim að kría út frí þennan dag hjá okkur, það átti víst ekki að gera neitt merkilegt að þeirra sögn.
Að morgni Þorláksmessu birtist fjölskyldan frá Spáni, Auður og Axel með börnin Sirrí níu ára, Eggert átta ára, Sæunni fimm ára og Ketil eins árs. Það urðu miklir fagnaðarfundir hjá öllum og við drifum þau strax með okkur út að borða. Takmarkið var að halda þeim vakandi fyrsta daginn til að laga tímamismunarrugl.
Þau stóðu sig mjög vel, létu okkur teyma sig um borgina, fyrst í brunch og svo löbbuðum við heim, komum við á skrifstofu CCP og O´Malleys.


Krakkar í krukku


Sirrí, Eggert, Hugi og Stirnir


Auður, Axel og Kjartan á þaki skrifstofunnar á Wukang lu

Að morgni aðfangadags vildi Kjartan fara að kaupa jólagjöfina handa undirritaðri, sagði að það væri hefð að finna hana samdægurs. Axel og Kjartan lögðu í leiðangur og komu aftur þremur tímum síðar, þreyttir eftir labb og búðaskoðun. Þá lögðum við Auður í hann og Sirrí kom með okkur. Við tókum leigubíl og ég keypti gjöf handa Kjartani í búð sem ég fann á netinu. Hann hafði óskað eftir stóru módeli sem hann gæti dundað sér við að líma saman í fjarveru minni. Eftir kaupin fórum við stelpurnar á barinn á Marriott uppi á 38. hæð, fengum okkur drykk og horfðum yfir borgina. Við heimkomuna fengum við að heyra það frá köllunum að skipulagningin hefði nú verið betri hjá okkur, þeir hefðu ekki gefið sér tíma í sinni innkaupaferð að til að fá sér hvorki mat né drykk.

Lí eldaði rækjurétt í forrétt og Kjartan steikti ástralskar nautalundir í aðalrétt. Þær voru mjúkar eins og smjör, bornar fram með ratatouille og sveppasósu.

Pakkaspenna


Hugi setti saman playmokastala


og Stirnir playmodýragarð

Á jóladag byrjuðum við á því að fara með Ketil litla til læknis, hann var mikið lasinn og greindist með eyrnabólgu, hálsbólgu og byrjun á lungnabólgu. Hann fékk sýklalyfjakúr svo það bráði af honum næstu daga, en hann svaf mikið og var ólíkur sjálfum sér.
Við röltum svo yfir í Xin tian di, uppgert hverfi gamalla húsa, þarna eru góðir veitingastaðir og verslanir en margir ferðamenn líka. Við borðuðum dim sum þar, dumplings og aðra smárétti. Krakkarnir stóðu sig vel í að smakka matinn og gerðu honum góð skil.
Þá lá leiðin í gegnum antíkmarkað og inná blóma og dýramarkað. Þar er hægt að kaupa engisprettur og gæludýr af öllum stærðum og gerðum.
Lí eldaði svo handa okkur kvöldmatinn, hún skellti í 6 rétti til öryggis sagði hún, vissi ekki alveg hvað börnin vildu borða. Kvöldinu eyddum við í lestur jólabókanna, við Auður lásum upp fyrir hvor aðra. Við tókum líka snúning í sing star en það var vinsæll leikur yfir jólin. Við þessi fullorðnu vöknuðum við það á morgnana að krakkarnir voru búnir að setja sing star í gang og sungu saman.
Annan í jólum fórum við í heljarinnar leiðangur. Byrjuðum á Torgi fólksins, gengum þar í gegn og fórum svo að skoða líkan af Shanghæ. Svo fengum við far með lítilli lest eftir verslunargötunni Nanjing í átt að Bund.


Jafnaldrar og vinir, Hugi og Eggert


Við mæðginin fyrir utan Urban planning museum sem hýsir líkanið stóra


Auður og Axel með Sirrí, Eggert, Sæunni og Ketil á Bund, í bakgrunni er Pudong


Hugi tók að sér fyrirsætustörf


Aðrir jafnaldrar og vinir, Stirnir og Sæunn

Við vöktum mikla athygli hvar sem við komum, með þennan barnaskara og eitt á leiðinni. Ég held að börnin hafi verið myndefni margra þessa daga í borginni, það var mikið hlegið og talið, stundum urðu til hópar í kringum okkur.

Við tókum draugalestina svokölluðu undir ána Huangpu yfir á austurbakkann, Pudong. Á leiðinni er mikil ljósasýning og verur sem birtast á teinunum og sumum varð um og ó.
Á austurbakkanum fórum við í pöddusafnið að skoða allskonar kvikindi og héldum síðan upp í Jin mao turninn til að borða kvöldverð. Þar sátum við á 56. hæð, horfðum yfir ána, yfir á Perluturninn og fleiri byggingar. Krakkarnir fengu föndurverkefni hjá þjónunum og voru eins og englar yfir kvöldverðinum.

Þriðja í jólum var ákveðið að skipta liði, Kjartan fór með strákana þrjá í sund og við hin röltum yfir á Taikang lu þar sem eru skemmtilegar bakgötur með litlum verslunum, galleríum og veitingastöðum.
Um kvöldið tók Lí að sér að passa 5 krakka en Ketill kom með okkur á veitingastað í nágrenninu. Þetta gekk allt vel þó einn hafi gubbað í pössuninni og eitthvað virðist hafa slest upp á vinskapinn þetta síðasta kvöld því við fundum aulablöð sem þau höfðu skrifað um hvert annað. Dæmi um aulablað er til dæmis þetta sem Hugi skrifaði um Eggert: Eggert er mikill auli. Hann elskar að horfa á bossana á stelpum. En svo skrifaði Eggert afsökunarbeiðni undir og þá var allt gleymt.
Næsta morgun kvöddum við svo Auði og Axel og börnin því þau héldu í ferðalag norður á bóginn, til Peking, Dalian og Qingdao. Það var tómlegt í húsinu eftir að þau fóru, það var svo gaman að hafa þau hjá okkur.
Þennan dag fórum við í síðustu skoðun til Dr. Ling á spítalann. Strákarnir komu með okkur og fengu að sjá barnið í sónar, þeim fannst nú meira spennandi að sjá bumbuna á mér þar sem ég lá í öllu mínu veldi. Við þurftum að bíða eftir lækninum sem hafði lent í keisaraskurði þennan dag. Ég nefndi það við bræðurna að daginn eftir ættum við Kjartan brúðkaupsafmæli, værum þá búin að vera gift í 2 ár. Þá sagði Hugi: Það eru tvær ástæður fyrir því að ég vil ekki giftast, ég vil ráða á mínu heimili, og ég vil ekki þurfa að vera alltaf með hring á fingrinum!
Eftir þessa löngu spítalaheimsókn fórum við til Heklu og Magnúsar sem búa í nágrenninu. Þau voru nýkomin frá Malasíu og urðu fagnaðarfundir eftir langt hlé leikjafunda hjá bræðrunum öllum. Edda og Ævar voru líka á staðnum svo það var mikið leikið. Við pöntuðum okkur mat og eftir matinn tók Magnús upp gítarinn og við sungum saman, hver með sínu nefi, mjög skemmtilegt. Útilegustemmning um jólin í Shanghæ.

Síðasta daginn minn fyrir brottför heimsóttum við Atla og Ödu, þau buðu upp á gúllas og pizzu handa Huga og Stirni.
Ég lagði í hann snemma morguns á sunnudaginn, Hugi og Stirnir kysstu mig og bumbuna bless, kveðjustundin var nú ekki dramatísk, þeir voru í leik og hláturskasti í hjónarúminu þegar ég fór.
Ég flaug fyrst til Peking með China Eastern, flugfreyjurnar hugsuðu sérstaklega vel um mig, komu hlaupandi með teppi sem þær breiddu yfir mig og kodda. Þegar ég fór á salernið var þeim umhugað um að ég færi varlega. Ég þurfti að bíða nokkra klukkutíma í Peking eftir fluginu til Kaupmannahafnar með SAS. Það var líka þægilegt flug, það var laust sæti við hliðina á mér svo ég gat aðeins breitt úr mér. Ég verð þó að viðurkenna að ég var orðin rasssár eftir 10 tíma setu.
Í Kaupmannahöfn breyttist fjögurra tíma bið í sex tíma vegna seinkunar vélarinnar frá Íslandi. Ég fékk mér kvöldmat og lagðist svo á bekk og steinsofnaði í tvo tíma.
Við komum hingað í Mosfellsbæinn um kl. fjögur um nóttina og þá var ég búin að vera á ferðinni í 27 tíma.
Gamlársdagur fór í það að leggja sig með hléum og ég sofnaði yfir skaupinu, náði fyrstu fimmm mínútunum og svaf svo af mér allar sprengingar á miðnætti.
Feðgarnir í Kína buðu Heklu, Magnúsi og kó í mat, ég frétti að þar hefði verið sungið í sing star fram yfir miðnætti og nokkrar bombur sprengdar.

Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Elsku Dalla og fjölskylda
Gleðilegt ár! Frábært að lesa bloggið. Gangi þér allt sem best elsku Dalla og þú veist hvar mig er að finna ef þig vantar félagsskap :-) alltaf í stuði að hittast.
kærar kveðjur,
Vera