Thursday, November 22, 2007

Í síðustu viku fengu bræðurnir einkunnir og umsagnir, fjórar blaðsíður að venju. Þetta er allt mjög nákvæmt og fá bræðurnir góðar umsagnir, sérstakt hrós fengu þeir frá kínverskukennurunum fyrir áhuga og dugnað.
Ég sat hérna í sófanum um daginn og Stirnir og Karolina litla sænska nágrannastelpan voru að leika sér á gólfinu. Þau tala nú alltaf saman ensku en allt í einu skiptu þau yfir í kínversku eins og ekkert væri. Ég sat andaktug og hlustaði, þetta var nú fyndið og merkilegt að heyra Íslending og Svía leika saman á kínversku.

Stirni var boðið til athafnar með kennara og bekkjarfélögum frá síðasta vetri. Tilefnið var að þakka bekknum fyrir þeirra peningaframlag til bókakaupa í kínverskum skóla. Fiðrildin eins og þau voru kölluð bekkurinn gáfu ágóða af kaffihúsi sem þau settu upp í vor til skólans. Mr. Flesher, kennarinn þeirra sagði að þau hefðu fengið móttökur þjóðhöfðingja, 400 börn sátu á skólalóðinni þegar þau komu og fremst var búið að koma fyrir litlum stólum fyrir heiðursgestina. Við athöfnina var sungið og þeim færðar þakkir. Svo voru þau látin stimpla í bækurnar og loks fóru þau inn á bókasafn til að sjá bækurnar þar.


Stirnir og Ethan


Stirnir með butterflybros


Miss Yuko, Danie, Anna, Hanae og Natasha


Fiðrildi með Noah Flesher


Heiðursgestirnir sitja fremst


Stimplað af einbeitingu


Hérna er bókasafnið í skólanum


Kínverskir félagar sem njóta bókagjafarinnar

Um helgina fór Hugi á sinn fyrsta skátafund. Honum fannst nú ekkert voðalega gaman en ætlar að fara aftur á morgun og vonast eftir meira fjöri.
Magnús kom yfir með strákana á sunnudaginn og Anna kom líka. Kjartan tók okkur í kennslu í póker meðan börnin léku inni og úti.
Á þriðjudaginn voru foreldrafundir í skólanum og enginn skóli. Við Kjartan hittum Mrs. Salaman kennara Stirnis og heilsuðum upp á Mrs. Snyder, nýjan kennarara Huga. Huga líst vel á hana og okkur líka.
Á eftir hittum við Elsu í almenningsgarði með Ævar og Eddu. Við sigldum tvo hringi og krakkarnir fengu útrás í hoppukastala, ekki veitti af, það var spenna í mannskapnum að vera í fríi í miðri viku.


Fíflagangur í leigubíl


Aðdáendur hlæja að grettunum


Heilsast á milli báta


Elsa, Edda og Ævar


Hugi stýrir af öryggi undir brúna


Stirnir með brosgrettu


Líf á árbakkanum, tvær konur syngja saman og saxófónleikari spilar lag

Ég hef haldið áfram að njóta lífsins með góðum vinum. Við Elsa fórum í nudd, ég fékk sérstakt meðgöngunudd sem var mjög notalegt. Nuddarinn bauðst til að klippa á mér táneglurnar sem ég þáði með þökkum, það verk fer að verða erfitt vegna stækkandi bumbu. Við hittum svo Láru og Önnu á frönskum stað og byrjuðum skipulagningu aðventugleði Íslendinga í borginni.

Ég hitti líka Aurelie, franska vinkonu á öðrum frönskum stað, svona franskt þema þessa vikuna. Hún er að flytja heim til Frakklands eftir 8 ára dvöl í Kína. Þau hjónin komu hingað barnlaus en fara heim með tvo syni og eiga von á þriðja barninu á næsta ári, stúlku frá Kína. Þau ætla að búa í úthverfi Parísar og eru bæði kvíðin og hlakka til að fara aftur heim. Við hlógum og grétum yfir hádegisverðinum, þjónninn gat ekki hætt að afsaka sig þegar hann kom að okkur þar sem við sátum með tárin lekandi niður kinnarnar.

Í gær borðaði ég með Chen sem er frá Tævan, hún er mamma í Hugabekk, Hsuan Hsuan dóttir hennar var líka með Huga í bekk í fyrra. Chen sagði mér frá kínverskri sængurlegu sem stendur yfir í mánuð. Þá má móðirin ekki baða sig og á að liggja fyrir allan tímann. Hún á að borða sérstakan mat, heitan mat svokallaðan eins og engifer en engan kaldan mat eins og vatnsmelónu. Þetta er víst orðið svo þróað hérna í borginni að það er hægt að fá þennan mat sendan heim og þá er nóg að hita hann í örbylgjunni. Ég hélt að þetta væri gamaldags að fara eftir þessu en hún sagðist sjálf hafa gert þetta nokkurnveginn eftir bókinni eftir sínar barnsfæðingar. Hún fór víst ekki nógu vel eftir þessu eftir fyrri fæðinguna og var refsað með höfuðverkjum. Eftir að hún átti tvíbura fyrir tveimur árum gerði hún þetta eftir bókinni og hefur síðan losnað við höfuðverkina.
Tengdaforeldrar Chen hafa dvalið hjá þeim hjónum í tvo mánuði, heimili sonar þeirra er líka þeirra heimili. Þau fóru í vikunni og ég heyrði á henni að hún var fegin. Tengdamamman ráðskaðist með heimilishaldið, ákvað hvað ætti að vera í matinn o.s.frv.

Hérna heima læt ég Lí ráða því hvað hún hefur í matinn. Á föstudögum er pizzudagur hjá bræðrunum en við Kjartan borðum yfirleitt annað. Síðasta föstudag eldaði Lí núðlurétt með rækjum handa okkur tveimur, Kjartan var ekki heima. Rétturinn er frá Tævan, mjög góður og ég bað hana um að elda hann aftur í kvöld, föstudag. Henni finnst ég ekki borða nóg og er held ég að reyna að fá mig til að borða meira. Mér skilst að hún ætli að elda súpu líka, namm.

Dalla

No comments: