Saturday, November 10, 2007

Síðasta helgi var fín hjá okkur. Hekla kom með Bogga og Örn í heimsókn á laugardeginum og vinirnir léku mikið, mest úti en líka inni. Þeir fengu lummur og kakómalt í kaffitímanum og hamborgara í kvöldmat og svo var þeim leyft að horfa á eina mynd. Indiana Jones var ansi skelfileg og Örn sem er minnstur nagaði neglurnar ákaft en vildi samt ekki missa af neinu.
Glitnir bauð til kvöldverðar á sunnudaginn, tilefni var sjávarútvegsráðstefna í bænum. Þeir eru alltaf svo rausnarlegir og bjóða öllum Íslendingum í borginni. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld, góður matur og félagsskapur. Einnig var sett saman hljómsveit fyrir kvöldið, Jónsi og Ómar Guðjónsson frá Íslandi, trommarinn úr Yes og tveir gamlir sem hafa spilað með Queen. Það varð ótrúleg stemmning, borðum var ýtt til hliðar í skyndi svo það væri hægt að dansa. Við dönsuðum við nokkur lög, ekki oft sem manni gefast tækifæri til þess.
Á þriðjudaginn hitti ég nýja lækninn minn, Dr. Ling. Mér líst mjög vel á hana, þetta er á öðrum spítala en ég fór á áður og aðstaðan öll virðist góð. Barnið var skoðað í sónar, mjög nákvæmlega og gerðar mælingar á vökvanum í kviðarholinu. Ég fékk svo disk til að senda til Huldu, míns læknis á Íslandi sem staðfesti að það væri ekki mikil breyting á vökvasöfnuninni. Barnið virðist vaxa eðlilega og legvatnið er ekki yfir eðlilegum mörkum. Dr. Ling hvetur mig til að eiga á Íslandi, það þýðir að ég fer til Íslands í byrjun janúar, 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Við erum ekki búin að ákveða hvernig framhaldið verður, hvort Kjartan kæmi með bræðurna í febrúar líka til Íslands er óákveðið. Óneitanlega eru völdin tekin af manni þegar heilsufarsmál eru annars vegar en við viljum vera þar sem aðstaðan verður best þegar barnið kemur í heiminn. Eins og er er ekkert að gera annað en að bíða og vona það besta. Mér tekst það bara nokkuð vel þessa dagana, hvíli mig vel og fer í leiðangra líka til að hitta góða vini.
Í gær fór ég með Heklu og Elsu í húsgagnaskemmu þar sem eru gömul kínversk húsgögn til sölu. Ég fór þangað líka í vor og keypti nokkra hluti. Ég keypti nú minna núna en samt smávegis. Hekla og Elsa gerðu góð kaup, við reyndum að vera harðar í prúttinu en kallinn sem afgreiddi okkur vildi lítið gefa eftir. Við vorum ansi þreyttar eftir tvo tíma í skemmunni, allt í þykku ryklagi og húsgögnunum staflað upp svo erfitt var að skoða þau.
En eftir harkið fórum við á tælenskan veitingastað til að safna kröftum. Ég er orðin fastagestur á tælenskum stöðum í borginni, ætli það sé ekki maturinn sem fylgi óléttunni í þetta skipti, í síðustu óléttu voru súrar gúrkur vinsælar. Ég fer oft ein í hádeginu og fæ mér grænt karrí eða annað góðgæti á tælensku stöðunum.
Eftir matinn kíktum við í tvær búðir sem selja húsbúnað. Þarna voru sömu hlutir til sölu og við vorum að prútta um áður en verðið var þrefalt eða fjórfalt hærra.

Í dag vildum við Kjartan fara og fá okkur snarl og kíkja í nokkrar búðir. Hugi vildi alls ekki koma með, hann er ekki fyrir búðaráp og svo vildi hann æfa sig í að vera einn heima. Að lokum samþykktum við að leyfa honum að reyna, hann skrifaði niður símanúmerið hans Kjartans og kvaddi okkur.


Feðgar bíða eftir leigubíl á Yongjia götu


Stirnir fékk ís með brownie og naut þess að borða


Feðgar í bakgötum Taikang götu


Hugi kom út á sokkaleistunum og sagði að hann gæti sko alveg verið einn heima, við vorum í burtu í tvo tíma.


Undirrituð fyrir utan hliðið okkar við heimkomuna

Hugi og Stirnir eru farnir að njóta kvenhylli. Stelpa í Hugabekk sagði mér um daginn að Hugi væri "the funniest boy in class!". Þegar ég var í Stirnisbekk um daginn var hann nýbúinn að skipta um sæti og sat hjá tveimur stelpum. Þær voru sposkar á svip þegar ég kom og sögðu mér að þær langaði til að kyssa Stirni. Hann var nú ekki til í tuskið en þær settu stút á munninn og sendu honum kossa.

Dalla

3 comments:

Anonymous said...

C'est toujours sympa de lire tes nouvelles de votre vie quotidienne en Chine! C'est bien que Hugi affirme son autonomie. Il semble qu'il n'ait plus besoin de barnapía!
Les nouvelles médicales que tu donnes sont plutôt encourageantes. Prends bien soin de toi pour être dans la meilleure forme possible pour affronter le jour J. Nous pensons à toi en croisant les doigts.
Bises à toute la smala.

Anonymous said...

Gleymdi að skrifa, mikið óskaplega líturðu vel út Dalla mín. Flott í turkiskjólnum......

Anonymous said...

Ég sé að fyrra skrifelsið komst ekki leiðar sinnar, en allt gott frá okkur Soffía passar stelpurnar sínar, og gerir það vel, Friðbert er nú í töluverðri vinnu í húsin þeirra. Eldhúsið hjá okkur í endurnýjun. Heilsan góð hjá okkur gömlu. KÆRAR kveðjur til allra strákanna þinna. Solla.