Friday, September 21, 2007

Takk fyrir allar kveðjur í kommentum og tölvupósti! Ég get því miður ekki svarað kommentum, ég þarf að fara inn á blogspot eftir krókaleiðum því Kínverjarnir banna aðgang að síðunni og mér tekst ekki að setja inn komment.

Hérna hefur mikið gengið á í húsinu síðan á sunnudag. Ljósin byrjuðu að blikka á sunnudagskvöld og loks sló öllu út hérna á efri hæðunum tveimur. Til allrar hamingju er sértafla á jarðhæðinn svo þar virkaði allt.
Bræðurnir voru nú ekki sáttir við það að fara að sofa í niðamyrkri svo ég sat hjá þeim þangað til þeir sofnuðu. Þetta þýddi líka að loftkælingin virkaði ekki svo við vorum ansi sveitt þessa nóttina.
Á mánudaginn kom eigandi hússins með viðgerðarmann, gamlan kall með lítið snyrtiveski sem verkfærin hans rúmuðust í. Ekkert gekk að gera við þann daginn.
Á þriðjudaginn kom eigandinn með gamla kallinn aftur og annan með sér sem var vopnaður sígarettupakka og umbúðum á þumalfingri. Það var mikið talað hérna uppi á hæðum en lítið unnið fannst mér. Þeir rýndu inn í töfluna í myrkrinu, þeim datt ekki í hug að nota lugt til að lýsa upp það sem þeir voru að vinna við. Ekkert gekk þennan dag heldur.
Á miðvikudaginn voru þeir þrír jólasveinarnir mættir snemma, þ.e. um eittleytið. Ég tók eigandann tali og lýsti yfir áhyggjum að þessi viðgerð myndi einhverntíma klárast því ekki voru þeir búnir að finna hvar vandamálið lá. Ég sagði að ef ekkert gengi yrði ég að kalla á fagmenn og var myrk í máli. Eigandinn var hinn bljúgasti og sagðist bjóða okkur á hótel ef ekkert gengi þennan daginn. Eftir fimm tíma komst rafmagnið loks á en þá kom í ljós að loftkælingin í barnaherberginu virkaði ekki og gera þurfti við hitaljós á baðherberginu. Því boðuðu þeir sig aftur daginn eftir.
Að morgni fimmtudags voru mínar taugar mjög strekktar þegar enn einn viðgerðarmaðurinn bankaði upp á. Ég missti alveg þolinmæðina og öskraði á aumingja manninn sem vissi ekki hvað var að gerast.
Í eftirmiðdaginn kom gamli maðurinn aftur til að festa upp ljós í stofunni sem virðast hrynja úr festingunum og laga skúffu í eldhúsinu sem opnast sjálfkrafa og er þegar búin að rífa dýrmætar buxur, einar af fáum sem ég kemst í.
Í dag föstudag voru vinnumennirnir að fara eftir að hafa lagað loftkælinguna í barnaherberginu. Ég kvaddi eigandann með þeim orðum að ég vildi ekki sjá framan í hann í langan tíma.
Þetta hafa semsagt verið erfiðir Kínadagar hjá mér síðustu dagar. En ég er búin að finna góða skapið aftur, búin að öskra nóg í bili.
Við höfum staðið í stappi með skólabíl strákanna síðustu vikurnar, börnin komu of seint í skólann og voru óratíma á heimleiðinni. Í þessari viku fannst viðunandi lausn að okkur fannst, börnin sex sem hér búa fengu sinn eigin bíl svo þau þurfa ekkert að stoppa á leiðinni til að sækja aðra krakka. Ég fór á fund í skólanum á mánudaginn og fékk far með bílnum heim. Þá kom í ljós að nýi bílstjórinn fór stóran hring í gegnum miklar umferðargötur á leið heim svo bíllinn var klukkutíma á leiðinni en þetta ætti að vera svona 15 til 20 mínútna ferð. Ég skammaðist yfir þessu enda finnst mér þetta allt of langur tími í bílnum. Bílstjórinn er búinn að fá leiðbeiningar um betri leið í skólann en hann virðist samt vera of lengi á leiðinni. Í gær kom sú ósk frá skólanum að börnin færu héðan kl. 7:20 í stað 7:30 á morgnana. Við Fredrik nágranni minn settum allt á fullt til að hnika þessu, okkur finnst þau fara nógu snemma af stað nú þegar. Það virðist ætla að ganga en við vorum eiginlega að hugsa um það áðan að hann tæki að sér að keyra bílinn og ég yrði skólabíls-ayi, sú sem hugsar um börnin á leiðinni.

Hugi og Stirnir voru mjög spenntir þegar þeir komu heim úr skólanum á þriðjudag. Þeir höfðu meðferðis bréf frá skólastjóranum sem bar þau skilaboð að skóla væri aflýst daginn eftir vegna þess að von væri á fellibyl til Shanghæ. Það var því sjónvarps og leikdagur hérna með nágrönnunum og beðið eftir fellibylnum sem sýndi sig aldrei. Bræðrunum fannst þetta vera mikil vonbrigði að fellibylurinn kæmi ekki.

Ég er byrjuð í kínverskunáminu í háskólanum. Fer daglega í tíma og er búin að fjárfesta í rauðu dömuhjóli með körfu til að komast á milli. Ég er svona 40 til 45 mínútur að labba en ætli ég sé ekki 10 mínútur að hjóla, á eftir að mæla það nákvæmlega. Það var skrítið að hætta sér út í umferðina í fyrsta skipti á hjólinu,
ég held að ég sé reyndar ekki í mikið meiri lífshættu á hjólinu en gangandi. Maður er alltaf í stöðugri lífshættu hérna og þarf að líta í allar áttir, alltaf.
Ég er líka búin að finna mér meðgöngujóga á lítilli sætri jógastöð hérna í nágrenninu, tímar eru tvisvar í viku. Þar eru bara erlendar konur því þær kínversku trúa ekki á hreyfingu á meðgöngu er mér sagt. Þær nota þennan tíma til að hvíla sig og sofa. Daisy kallar upp yfir sig ef hún sér mig lyfta hlutum þegar hún er nálægt og það er víst álitið sérstaklega á bannlista að lyfta upp fyrir sig jafnvel þó hluturinn sé ekki þungur.
Ég skoðaði í kínverskar búðir um daginn mér til skemmtunar, þar sem er seldur meðgöngufatnaður. Þetta eru voðalegir serkir sem ætlast er til að konur klæðist hérna. Þær virðast líka fara í skokkinn, hólkvíðan um leið og þær eru búnar að pissa á prufuna svo það sjáist örugglega langar leiðir í hvaða ástandi þær eru. Kannski ég þurfi að fara í tjaldið líka þegar dregur nær jólum, ég veit ekki hvar ég á að fá almennileg óléttuföt. Sjáum til, ég get kannski látið sauma á mig eitthvað huggulegt.

Góða helgi, Dalla

No comments: