Monday, September 24, 2007

Í sumar kynntust bræðurnir íslensku frelsi. Hugi þvældist um ömmuhverfi með Bubba og Hilmi, fór upp á Landakotstún og um næsta nágrenni. Hann fór líka niður á Ingólfstorg með Hilmi og Stirni og bauð þeim upp á pulsu fyrir tannpeninga sem hann fékk fyrir framtönn. Stirnir fór á leikvöllinn í ömmugötu en ekki mikið lengra nema í fylgd með Huga. Mér finnst það leiðinlegt að bræðurnir missi af því að kynnast þessu íslenska frelsi hérna í Kína.
Þessvegna leyfði ég Huga í vor að fara út í búð sjálfur, búðin er í svona 100 metra fjarlægð en ekki inni í bakgötunni okkar heldur við umferðargötuna. Hugi fer og kaupir sér kókómjólk eða íste. Stirnir vildi líka prófa núna í ágúst, fór fyrst með Huga en núna er hann farinn að fara einn og kaupa sér ís úr kistunni.
Á föstudaginn voru Hugi og Philip í leik en Stirnir var með Andreu og Karolinu í eftirdragi hérna úti. Stirnir bað mig um íspening en án þess að ég vissi ákvað hann að bjóða dömunum upp á ís með sér og tók þær með í búðina. Fredrik pabbi Karolinu kom hingað þegar þau voru komin til baka og spurði um þessa ferð. Ég kom af fjöllum en sönnunargögnin voru augljós, stelpurnar útataðar í ís. Fredrik fannst þetta greinilega skrítið að ég leyfði bræðrunum að fara einum í búðina og ég reyndi að útskýra það frelsi sem börn upplifa á Íslandi og mér finnst þeir fara á mis við hérna.
Í gærmorgun kláraðist mjólkin út á morgunkornið og Stirnir bað mig um að fara í búðina. Ég sat hérna í náttfötunum og þó það sé alvanalegt að sjá fólk á gangi í náttfötum eða jafnvel nærfötum á götum úti, fannst mér það ekki viðeigandi svona í dagsljósinu. Ég viðurkenni það að ég hef hlaupið út á náttbuxunum svona í skjóli myrkurs. Ég stakk upp á því að hann færi bara sjálfur og reddaði málum og það gerði hann, fann mjólkina og kom til baka mjög stoltur.

Ég var búin að lofa skautaferð í gær og varð að standa við það þó það hellirigndi. Okkur tókst að fá leigubíl og fórum í skautahöll í verslunarmiðstöð í miðbænum. Hugi var að fara í annað skipti á stuttum tíma og hann er byrjaður að fara hratt yfir. Stirnir hætti við síðast og ætlaði líka að gera það þegar hann átti að fara inn á svellið. En ég gat reddað kennara fyrir hann sem tók að sér að leiða hann um í 45 mínútur. Hann var aðeins farinn að sleppa sér undir lokin.
Í stað þess að bjóða bræðrunum upp á KFC eða MacDonalds ákvað ég að bjóða þeim í snarl á Marriott hótelinu. Þegar við komum þangað upp á 38. hæð var hádegisverðarhlaðborð í boði og við létum slag standa. Innifalið var stanslaust flæði af kampavíni sem ég gat nú lítið notfært mér. Hugi borðaði ólífur, franska osta og ananas og Stirnir rannsakaði eftirréttina. Súkkulaðigosbrunnur var ansi freistandi og þar stóð hann og stakk sykurpúðum á prjóni inn í fljótandi súkkulaðið. Hann leit nú út eins og hann hefði jafnvel stungið sjálfum sér í bununa eftir átið, allur í súkkulaði frá toppi til táar. Ég reyndi að slaka á og gæða mér á ýmsum réttum eins og pekingönd.

Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Ótrúlega breyttir tímar Dalla mín, ekki hefði okkur móður þína grunað að hægt væri að vera í skeytasendingum til Kína. Ég ætlaði að vera búin að skrifa. Hér er örugglega sama brasið t.d. á Soffíu þannig lagað verið að fara með stelpurnar í eina og aðra menningu, en eins og þú veist geta þær ekki farið útí búð og keypt ís. Það er gallinn við Garðabæinn, það er ekkert skroppið til þannig hluta. En gott hvernig þú tekur á þessu með strákana. Þeir eru alveg draumur. Við Friðbjörn erum alveg að fá doktorsgráðu í eftirliti barna, og bæzt hafa við börnin frá >Portugal eins og þú veist. Það verður örugglega ekki auðvelt fyrir þau, að aðlaga sig. Ég læt heyra frá mér.. Kveðja Dalla mín Solla.