Monday, September 24, 2007

Í sumar kynntust bræðurnir íslensku frelsi. Hugi þvældist um ömmuhverfi með Bubba og Hilmi, fór upp á Landakotstún og um næsta nágrenni. Hann fór líka niður á Ingólfstorg með Hilmi og Stirni og bauð þeim upp á pulsu fyrir tannpeninga sem hann fékk fyrir framtönn. Stirnir fór á leikvöllinn í ömmugötu en ekki mikið lengra nema í fylgd með Huga. Mér finnst það leiðinlegt að bræðurnir missi af því að kynnast þessu íslenska frelsi hérna í Kína.
Þessvegna leyfði ég Huga í vor að fara út í búð sjálfur, búðin er í svona 100 metra fjarlægð en ekki inni í bakgötunni okkar heldur við umferðargötuna. Hugi fer og kaupir sér kókómjólk eða íste. Stirnir vildi líka prófa núna í ágúst, fór fyrst með Huga en núna er hann farinn að fara einn og kaupa sér ís úr kistunni.
Á föstudaginn voru Hugi og Philip í leik en Stirnir var með Andreu og Karolinu í eftirdragi hérna úti. Stirnir bað mig um íspening en án þess að ég vissi ákvað hann að bjóða dömunum upp á ís með sér og tók þær með í búðina. Fredrik pabbi Karolinu kom hingað þegar þau voru komin til baka og spurði um þessa ferð. Ég kom af fjöllum en sönnunargögnin voru augljós, stelpurnar útataðar í ís. Fredrik fannst þetta greinilega skrítið að ég leyfði bræðrunum að fara einum í búðina og ég reyndi að útskýra það frelsi sem börn upplifa á Íslandi og mér finnst þeir fara á mis við hérna.
Í gærmorgun kláraðist mjólkin út á morgunkornið og Stirnir bað mig um að fara í búðina. Ég sat hérna í náttfötunum og þó það sé alvanalegt að sjá fólk á gangi í náttfötum eða jafnvel nærfötum á götum úti, fannst mér það ekki viðeigandi svona í dagsljósinu. Ég viðurkenni það að ég hef hlaupið út á náttbuxunum svona í skjóli myrkurs. Ég stakk upp á því að hann færi bara sjálfur og reddaði málum og það gerði hann, fann mjólkina og kom til baka mjög stoltur.

Ég var búin að lofa skautaferð í gær og varð að standa við það þó það hellirigndi. Okkur tókst að fá leigubíl og fórum í skautahöll í verslunarmiðstöð í miðbænum. Hugi var að fara í annað skipti á stuttum tíma og hann er byrjaður að fara hratt yfir. Stirnir hætti við síðast og ætlaði líka að gera það þegar hann átti að fara inn á svellið. En ég gat reddað kennara fyrir hann sem tók að sér að leiða hann um í 45 mínútur. Hann var aðeins farinn að sleppa sér undir lokin.
Í stað þess að bjóða bræðrunum upp á KFC eða MacDonalds ákvað ég að bjóða þeim í snarl á Marriott hótelinu. Þegar við komum þangað upp á 38. hæð var hádegisverðarhlaðborð í boði og við létum slag standa. Innifalið var stanslaust flæði af kampavíni sem ég gat nú lítið notfært mér. Hugi borðaði ólífur, franska osta og ananas og Stirnir rannsakaði eftirréttina. Súkkulaðigosbrunnur var ansi freistandi og þar stóð hann og stakk sykurpúðum á prjóni inn í fljótandi súkkulaðið. Hann leit nú út eins og hann hefði jafnvel stungið sjálfum sér í bununa eftir átið, allur í súkkulaði frá toppi til táar. Ég reyndi að slaka á og gæða mér á ýmsum réttum eins og pekingönd.

Dalla

Friday, September 21, 2007

Takk fyrir allar kveðjur í kommentum og tölvupósti! Ég get því miður ekki svarað kommentum, ég þarf að fara inn á blogspot eftir krókaleiðum því Kínverjarnir banna aðgang að síðunni og mér tekst ekki að setja inn komment.

Hérna hefur mikið gengið á í húsinu síðan á sunnudag. Ljósin byrjuðu að blikka á sunnudagskvöld og loks sló öllu út hérna á efri hæðunum tveimur. Til allrar hamingju er sértafla á jarðhæðinn svo þar virkaði allt.
Bræðurnir voru nú ekki sáttir við það að fara að sofa í niðamyrkri svo ég sat hjá þeim þangað til þeir sofnuðu. Þetta þýddi líka að loftkælingin virkaði ekki svo við vorum ansi sveitt þessa nóttina.
Á mánudaginn kom eigandi hússins með viðgerðarmann, gamlan kall með lítið snyrtiveski sem verkfærin hans rúmuðust í. Ekkert gekk að gera við þann daginn.
Á þriðjudaginn kom eigandinn með gamla kallinn aftur og annan með sér sem var vopnaður sígarettupakka og umbúðum á þumalfingri. Það var mikið talað hérna uppi á hæðum en lítið unnið fannst mér. Þeir rýndu inn í töfluna í myrkrinu, þeim datt ekki í hug að nota lugt til að lýsa upp það sem þeir voru að vinna við. Ekkert gekk þennan dag heldur.
Á miðvikudaginn voru þeir þrír jólasveinarnir mættir snemma, þ.e. um eittleytið. Ég tók eigandann tali og lýsti yfir áhyggjum að þessi viðgerð myndi einhverntíma klárast því ekki voru þeir búnir að finna hvar vandamálið lá. Ég sagði að ef ekkert gengi yrði ég að kalla á fagmenn og var myrk í máli. Eigandinn var hinn bljúgasti og sagðist bjóða okkur á hótel ef ekkert gengi þennan daginn. Eftir fimm tíma komst rafmagnið loks á en þá kom í ljós að loftkælingin í barnaherberginu virkaði ekki og gera þurfti við hitaljós á baðherberginu. Því boðuðu þeir sig aftur daginn eftir.
Að morgni fimmtudags voru mínar taugar mjög strekktar þegar enn einn viðgerðarmaðurinn bankaði upp á. Ég missti alveg þolinmæðina og öskraði á aumingja manninn sem vissi ekki hvað var að gerast.
Í eftirmiðdaginn kom gamli maðurinn aftur til að festa upp ljós í stofunni sem virðast hrynja úr festingunum og laga skúffu í eldhúsinu sem opnast sjálfkrafa og er þegar búin að rífa dýrmætar buxur, einar af fáum sem ég kemst í.
Í dag föstudag voru vinnumennirnir að fara eftir að hafa lagað loftkælinguna í barnaherberginu. Ég kvaddi eigandann með þeim orðum að ég vildi ekki sjá framan í hann í langan tíma.
Þetta hafa semsagt verið erfiðir Kínadagar hjá mér síðustu dagar. En ég er búin að finna góða skapið aftur, búin að öskra nóg í bili.
Við höfum staðið í stappi með skólabíl strákanna síðustu vikurnar, börnin komu of seint í skólann og voru óratíma á heimleiðinni. Í þessari viku fannst viðunandi lausn að okkur fannst, börnin sex sem hér búa fengu sinn eigin bíl svo þau þurfa ekkert að stoppa á leiðinni til að sækja aðra krakka. Ég fór á fund í skólanum á mánudaginn og fékk far með bílnum heim. Þá kom í ljós að nýi bílstjórinn fór stóran hring í gegnum miklar umferðargötur á leið heim svo bíllinn var klukkutíma á leiðinni en þetta ætti að vera svona 15 til 20 mínútna ferð. Ég skammaðist yfir þessu enda finnst mér þetta allt of langur tími í bílnum. Bílstjórinn er búinn að fá leiðbeiningar um betri leið í skólann en hann virðist samt vera of lengi á leiðinni. Í gær kom sú ósk frá skólanum að börnin færu héðan kl. 7:20 í stað 7:30 á morgnana. Við Fredrik nágranni minn settum allt á fullt til að hnika þessu, okkur finnst þau fara nógu snemma af stað nú þegar. Það virðist ætla að ganga en við vorum eiginlega að hugsa um það áðan að hann tæki að sér að keyra bílinn og ég yrði skólabíls-ayi, sú sem hugsar um börnin á leiðinni.

Hugi og Stirnir voru mjög spenntir þegar þeir komu heim úr skólanum á þriðjudag. Þeir höfðu meðferðis bréf frá skólastjóranum sem bar þau skilaboð að skóla væri aflýst daginn eftir vegna þess að von væri á fellibyl til Shanghæ. Það var því sjónvarps og leikdagur hérna með nágrönnunum og beðið eftir fellibylnum sem sýndi sig aldrei. Bræðrunum fannst þetta vera mikil vonbrigði að fellibylurinn kæmi ekki.

Ég er byrjuð í kínverskunáminu í háskólanum. Fer daglega í tíma og er búin að fjárfesta í rauðu dömuhjóli með körfu til að komast á milli. Ég er svona 40 til 45 mínútur að labba en ætli ég sé ekki 10 mínútur að hjóla, á eftir að mæla það nákvæmlega. Það var skrítið að hætta sér út í umferðina í fyrsta skipti á hjólinu,
ég held að ég sé reyndar ekki í mikið meiri lífshættu á hjólinu en gangandi. Maður er alltaf í stöðugri lífshættu hérna og þarf að líta í allar áttir, alltaf.
Ég er líka búin að finna mér meðgöngujóga á lítilli sætri jógastöð hérna í nágrenninu, tímar eru tvisvar í viku. Þar eru bara erlendar konur því þær kínversku trúa ekki á hreyfingu á meðgöngu er mér sagt. Þær nota þennan tíma til að hvíla sig og sofa. Daisy kallar upp yfir sig ef hún sér mig lyfta hlutum þegar hún er nálægt og það er víst álitið sérstaklega á bannlista að lyfta upp fyrir sig jafnvel þó hluturinn sé ekki þungur.
Ég skoðaði í kínverskar búðir um daginn mér til skemmtunar, þar sem er seldur meðgöngufatnaður. Þetta eru voðalegir serkir sem ætlast er til að konur klæðist hérna. Þær virðast líka fara í skokkinn, hólkvíðan um leið og þær eru búnar að pissa á prufuna svo það sjáist örugglega langar leiðir í hvaða ástandi þær eru. Kannski ég þurfi að fara í tjaldið líka þegar dregur nær jólum, ég veit ekki hvar ég á að fá almennileg óléttuföt. Sjáum til, ég get kannski látið sauma á mig eitthvað huggulegt.

Góða helgi, Dalla

Monday, September 10, 2007

Þá er nú kominn tími til að rifja upp sumarið á Íslandi og segja frá fyrstu vikunum í Kína.
Að morgni 18. júní gengum við upp Túngötuna mæðginin og ekki var köttur á kreiki. Stirni varð þá að orði: "Það er ekki margt fólk á Íslandi"! Mig grunar að fullur miðbær af fólki á 17. júní hafi verið eðlilegt ástand fyrir hann en þarna varð hann hissa, ekkert fólk, engir bílar, engin reiðhjól.
Hugi fór á námskeið í Skýjaborgum, frístundaheimilinu, nokkra fyrstu dagana á Íslandi. Það var aðallega til að hitta Matas sem var á leið til Litháen og ætlaði að eyða sumrinu þar. Þeir fundu sig vel vinirnir enda þekkjast þeir vel, Matas býr á Suðurgötunni og hefur verið heimagangur hjá okkur síðan við fluttum þangað.
Hugi var reyndar ekki alveg sáttur við námskeiðið í Skýjaborgum, honum fannst of margar reglur vera þar og breytti nafninu úr leikjanámskeiði í reglunámskeið. Hann vildi algjört frelsi held ég eftir vetrarvistina með Ms. D sem var ansi ströng.
Í lok fyrstu vikunnar lögðu þeir af stað frændurnir Hugi og Úlfur í sumarbúðir skáta við Úlfljótsvatn. Þeir voru kotrosknir, veifuðu úr rútuglugganum og tóku myndir af því sem fyrir augu bar á einnota myndavélar.
Daginn eftir kíktí ég á myndir á vef sumarbúðannna og sá þá frændur í fyrsta göngutúrnum. Hugi hafði greinilega skipt um föt við komuna og farið í kung fu fötin, gul satínföt eru kannski ekki góður göngufatnaður en hluti af hans ímynd sem Kínabúa og kung fu iðkanda.
Vikan gekk vel hjá þeim frændum, ég hringdi nánast daglega til að fá fréttir af þeim. Þeir sigldu á vatninu, klifruðu, tjölduðu og ætluðu að sofa í tjaldinu en skriðu víst í hús fyrir miðnætti. Eitt kvöldið um níuleytið fékk ég símtal frá Úlfljótsvatni og hélt að eitthvað hefði komið fyrir en þá vildi Hugi bara tala við mig. Hann sagðist vera með pínulitla heimþrá en aðallega vildi hann hringja vegna þess að einn félagi hafði fengið leyfi til þess.

Við Stirnir fórum daglega á sundnámskeið í Vesturbæjarlauginni meðan Hugi var í burtu. Við heimsóttum Ara Karl nokkrum sinnum í Hafnarfjörðinn og vinskapur þeirra félaga varð mikill, þeir eru einstaklega góðir félagar.
Stirnir fékk líka að gista eina nótt hjá Jóru frænku sinni og þar voru grillaðir hamborgarar ofan í hann eins og hann gat í sig látið.
Kjartan kom til Íslands um mánaðamótin júní júlí og náði að hitta aðeins á Huga áður en hann fór í næstu sumarbúðir. Þá var ferðinni heitið á Hellu í Ævintýraland með Bubba. Þar ætluðu vinirnir að fara á reiðnámskeið þó þeir þættust þaulvanir hestamenn. Öllu, mömmu Bubba þótti réttara að láta sumarbúðastarfsfólk vita af því að þeir væru byrjendur þrátt fyrir yfirlýsingar um annað hjá vinunum.
Þeir fóru á námskeið í kvikmyndagerð og gerðu stuttmynd, jólamynd með mjög svo flókinn söguþráð.

Í byrjun júli komu Cathra og Troy með börnin sín þrjú, Eleanor, Lorelei bekkjarsystur Stirnis og Gabriel. Þau voru á leið til Bandaríkjanna og stoppuðu í 3 daga á Íslandi. Við leigðum tvo jeppa, gistum á Þingvöllum og fórum dagsferðir þaðan. Einn daginn fórum við í Landmannalaugar, pabbar og eldri krakkar gengu á Bláhnúk, við Cathra og litlu krakkarnir gengum upp gilið og aftur til baka gegnum hraunið. Við böðuðum okkur í ánni sem var upplifun fyrir alla. Veðrið var gott eins og í allt sumar og við nutum samverunnar við þau. Því miður koma þau ekki aftur til Shanghæ því Troy er búinn að fá vinnu í Sviss, við söknum þeirra heilmikið.

Við fórum í útilegu í júlí með Heklu, Magnúsi og sonum. Við tjölduðum í Þjórsárdalnum á skemmtilegu tjaldsvæði. Strákarnir voru allsberir mestallan tímann, þeir böðuðu sig í hverri lækjarsprænu sem varð á vegi þeirra. Þeim varð nú ekki meint af því en spurning hvort myndirnar séu birtingarhæfar á netinu.

Fljótlega eftir komuna til Íslands uppgötvaði undirrituð að hún var eigi kona einsömul. Ekki mikið síðar byrjaði ógleði að gera vart við sig með uppköstum. Ég verð að segja að ég naut Íslandsdvalarinnar ekki sem skyldi vegna ástandsins og var kannski ekki jafn félagslynd og ég er vön að vera, þar spilaði ógleðin og þreyta inn í. Núna er ég komin tæpa fjóra mánuði á leið og líðanin er orðin betri. Barnið var búið til í Kína (Made in China) eins og svo margt í heiminum í dag og mun fæðast í Kína í febrúar. Bræðurnir eru spenntir fyrir litla barninu og eru duglegir að segja mér daglega að ég sé feit, sem ég þoli ágætlega. Hugi er búinn að tilkynna að þetta verði gott barn og Stirnir ætlar að standa sig í hlutverki stóra bróður.

Um verslunarmannahelgina fórum við norður til Hjalteyrar og hittum CCP vini. Reynir og Tóta, Hilmar og Guðrún, Gummi og Cecile voru þarna með sín börn og við elduðum góðan mat og höfðum það gott. Við kíktum á Auði, Axel og börn út á Ólafsfjörð einn daginn, þau eru að gera upp íbúð þar en gáfu sér tíma til að fara með okkur í sund. Hugi og Eggert eru alltaf jafn miklir vinir, þeir detta í prakkaragír þegar þeir hittast.

Bræðurnir fóru á smíðavöll við Melaskólann í sumar. Þar smíðaði Hugi kofa með hjálp Kjartans. Það hefur verið draumur Huga í mörg ár að smíða hús uppi í tré en þetta kom ansi nálægt því. Kofinn varð listasmíð hjá feðgunum og var fluttur í garðinn hjá ömmu á Grjótagötu. Hann var málaður gulur með rauðu þaki og rauðri hurð og sómir sér vel í bakgarðinum. Amma Catherine var ánægð með kofann og er búin að setja glugga í hann fyrir veturinn og læsa honum.

Síðustu tvær vikurnar á Íslandi fóru bræðurnir á leikjanámskeið hjá TBR, badmintoniðkun, sund og leikir voru á dagskránni. Þeir fóru á námskeiðið með Bubba og Ársól systur hans og voru ánægðir. Þetta gaf mér tíma til að útrétta og hitta vini
í hádegismat og kom bræðrunum líka aftur í gírinn fyrir skólann.
Síðasta daginn hlupu bræður Latabæjarhlaup. Hugi ákvað að fara í aldursflokk Stirnis, bæði til að passa upp á hann og líka til að það væru meiri möguleikar á að vinna hlaupið þar sem hann væri eldri. Bræðurnir voru við ráslínuna í upphafi en voru nú ekki alveg fyrstir í mark en þeir studdu hvorn annan, leiddust allt hlaupið.

Ég þakka öllum, fjölskyldu og vinum fyrir samveruna í sumar, suma hitti ég því miður ekki, aðra hitti ég sjaldan. En það er alltaf gaman að fá fréttir í gegnum tölvupóst...

Lendingin í Kína var nokkuð mjúk. Strákarnir sváfu vel í Kínavélinni sem þýddi það að þeir voru bara 2 nætur að jafna sig á tímamismuninum. Leigubíllinn sem við tókum á flugvellinum var velilmandi og leigubílstjórinn vingjarnlegur, kallaði bræður litlu vini sína.
Atli var búinn að biðja Daisy um að kaupa drykki handa okkur í ísskápinn og svo mætti hann sjálfur fyrsta kvöldið með dýrindis nautasteikur til að elda.
Daginn eftir áttum við að fara og hitta kennara bræðranna í skólanum en þá var Hugi með gubbupest og komst ekki. Við Stirnir fórum bara og hittum Mrs. Salaman og líka Ms. Day kennara Huga. Nú er búið að loka skólabyggingunni þar sem bræður gengu í skóla svo nú fara þeir á nýjan campus. Skólabyggingin er ný og fín en ansi stór. Ég rata sjálf ekki vel þarna. Mér fannst skrýtið að senda þá fyrsta daginn í skólabílnum og Hugi hafði ekki einu sinni komið í skólann áður. En nú tala þeir ensku og geta bjargað sér.
Huga leist vel á Ms. Day, hann kom heim fyrsta daginn og sagði að hún væri góður kennari. Mér skilst á honum að hún hafi húmor sem vantaði alveg í Ms. D í fyrra. Hann er með tveimur stelpum úr gamla bekknum áfram og Stirnir líka, tvær stelpur fylgja honum áfram. Hérna er stefnan sú að börnin fá nýjan kennara og nýja bekkjarfélaga árlega.
Nú er Hugi byrjaður í kínverskunámi líka, hann er útskrifaður úr enskuprógramminu. Þeir bræður læra kínversku daglega og þrátt fyrir að Hugi hafi sett fram óskir um að læra frekar japönsku sem honum finnst skemmtileg að þá er hann hæstánægður í kínverskunáminu. Hann er farinn að æfa að skrifa tákn og er mjög stoltur. Stirnir er farinn að nota kínverskuna pínulítið. Við fórum á markað um daginn að kaupa vasaljós og hann brá fyrir sig kínversku, mjög einfalt en það er samt byrjunin.

Í skólanum eru komnir tveir nýir íslenskir krakkar, Ævar sem er í Hugaárgangi og Edda sem er árinu yngri en Stirnir. Foreldrar þeirra eru Elsa og Árni en Árni vinnur hjá Össuri eins og Hekla og Magnús. Ævar og Hugi hafa orðið hálfgerðar samlokur, þeir hittast í frímínútum og borða saman hádegismatinn. Huga finnst mjög spennandi að hafa íslenskan leikfélaga í skólanum.
Við Elsa höfum líka hist á fundum í skólanum og borðað saman, nú er ég orðin reynslunni ríkari og get vonandi miðlað einhverju til hennar.
Um helgina buðu Lára og Baddi okkur öllum, Heklu, Magnúsi, Elsu og Árna með krakkana í grill. Þetta er orðið sæmilegt krakkagengi sem gekk þarna um hverfið hjá þeim. Þau gerðu nú samt ekkert mikið verra af sér en að skrúfa frá garðslöngu nágrannanna og rennbleyta sig. Við fullorðna fólkið spjölluðum saman og borðuðum góðan mat að hætti Láru og Badda.

Fyrstu helgina í Shanghæ fórum við að sjá sýningu Cirque de Soleil með Christinu, Anders og börnum. Sirkustjaldið var í Pudong, hinu megin árinnar Huangpu, slóðir sem við förum sjaldan á. Sýningin var fín, Stirni fannst hún reyndar svolítið hræðileg, tónlistin og myrkur spilaði þar inn í. Eftir sýningu borðuðum við í hæsta turni borgarinnar Jin Mao, hann er 88 hæðir en við vorum á þeirri 56. Reyndar er verið að byggja annan turn við hliðina sem verður ennþá hærri en það gengur víst á ýmsu við að klára hann.
Við höfðum gott útsýni yfir ána og Puxi en það er sá hluti borgarinnar þar sem við búum. Þegar við komum var sólin að setjast og svo rökkvaði, dimmdi alveg og ljósin kviknuðu í kring. Hugi hefur mikið spáð í það upp á síðkastið hvort Kína eða Ísland sé fallegra. Þarna komst niðurstaða í málið, "Kína er fallegra á nóttunni en Ísland er fallegra á daginn"!

Hérna heima eru nágrannakrakkarnir orðnir heimagangar hjá okkur aftur, Andrea og Ebba, prinsessurnar við hliðina koma hingað uppáklæddar eftir skóla. Philip og Karolina sækja líka í að leika hér. Núna eru þau öll í sama skólanum og fara saman í skólabílnum á morgnana. Samkomulagið er yfirleitt gott og við erum farin að þekkjast ágætlega foreldrarnir.

Um daginn fórum við fjölskyldan á pöddusafn, ferðin var farin sérstaklega fyrir dýrafræðinginn Stirni. Þarna voru skordýr af ýmsum stærðum, krókódílar, skjaldbökur, slöngur, kanínur og jafnvel geit og íkornar. Bræðurnir voru nú báðir spenntir fyrir dýrunum en á leið út þá gengum við framhjá slöngunum sem voru að fá sér miðdagssnarl. Þær fengu lifandi mýs inn í búr til sín og þessar litlu fengu músarunga. Þetta var mikið sjónarspil að sjá slöngurnar gleypa mýsnar og okkur fannst þetta óhugnanlegt. Vörðurinn kom með lifandi mús sem hann hélt á í töng og ætlaði að færa einni slöngunni og þá var Stirni nóg boðið. Ég vil ekki! kallaði hann á kínversku en vörðurinn hélt sínu striki. Þegar við komum út hófst mikil umræða um það hvaða réttlæti væri í því að fæða slöngurnar á lifandi músum.

En svo ég endi á léttari nótum að þá voru þeir vinir Stirnir og Ari Karl að ræða málin eftir ferð í Húsdýragarðinn í sumar. Stirnir hélt því fram fullum fetum að hann væri dýrafræðingur. Þá hugsaði Ari Karl sig aðeins um og sagði svo:"Og ég er ofurhetjufræðingur"!

Dalla