Nú er þriðja skólavikan að byrja og að komast mynd á dagskrá vikunnar hjá börnunum. Hugi byrjaði í trompetttímum á fimmtudaginn, fyrsta verkefnið var að ná hljóði úr lúðrinum og það gekk vel hjá honum. Hann fer tvisvar í viku í tíma, strax eftir skóla, í húsi á skólalóðinni, einstaklega þægilegt. Hann er líka búinn að fara á sinn fyrsta skátafund og honum fannst gaman. Hann bíður spenntur eftir því að fá merki og klút.
Stirnir er byrjaður í fimleikum og fer tvisvar í viku í Gróttu. Friðrik Kári er þar líka svo við mömmurnar ætlum að skipuleggja sætaferðir, jafnvel með þriðja vininum og þá verður bara keyrsluskylda þriðju hverja viku. Stirni finnst gaman í fimleikunum, sagði einn morguninn að hann gæti ekki beðið átta klukkutíma eftir því að fara þangað. Hann fylgist vel með tímanum því hann lýsti því yfir að skólinn á Íslandi væri betri vegna þess að hann væri í 5 klukkutíma en í Kína væri hann í 7 klukkutíma. Hann byrjar líka í forskóla tónlistarskóla í vikunni, lærir þar á blokkflautu. Kennslan fer fram í skólanum eftir skólatíma og þegar hann kemst inn á frístundaheimilið verður það mjög hentugt.
Það hefur tekið smá tíma hjá mér að finna út úr tímasetningum og skráningum fyrir krakkana. Mér finnst samt hlutirnir vera nokkuð einfaldir þegar maður er búinn að læra hvernig Rafræn Reykjavík virkar. Hérna eru tómstundinar í hverfinu okkar og umferðin er ekki brjáluð seinni part dags eins og í Sjanghæ.
Eyja verður heima með mér og Lí, hún er ekki skráð á neitt námskeið. Við förum á róló og höfum hitt Andreu þar sem er aðeins eldri en hún. Hér í hverfinu eru margar kisur og nóg að gera við að fylgjast með þeim á göngutúrum. Hún bætir við sig orðum og í morgun benti hún á blóm og sagði hua sem er blóm á kínversku. Hún sækir skóna sína þegar það er fararsnið á mér eða bræðrunum og verður sár ef hún fær ekki að fara með út. Hún virðist líka vera reglusöm, gengur frá skónum sínum á rétta staðinn og biður um nýja bleiu þegar hún er búin að kúka, setur upp svip, smellir í góm og bendir á bossann.
Í síðustu viku var hún skoðuð og þar kom allt vel út. Læknarnir í Kína hafa lengi haft áhyggjur af því að hún sé höfuðstór og viljað skoða það betur. En læknirinn hér sagði að hún virtist samsvara sér vel og fannst höfuðið eðlilegt að stærð. Hún þroskast eðlilega en hefur ekki bætt á sig í þyngd síðustu mánuði. Ég hef nú engar áhyggjur, hún hreyfir sig allan daginn og borðar mjög vel.
Lí finnst íslenskir krakkar vera heppnir, þeir hafa svo mikinn tíma til að leika sér. Við finnum það að hér er minni heimavinna en í Kína, þar tók heimavinnan stundum 30 til 45 mínútur. Það er nú lítið miðað við kínversk börn sem þurfa að læra heima í þrjá til fjóra klukkutíma. Þar fá börnin kannski 20 mínútur á dag til að leika sér, heimavinnan og æfingar á hljóðfæri eru mikilvægari en leikur.
Í Kína sefur fólk yfirleitt á hörðum dýnum eða jafnvel á viðarplötu með bambusmottu undir sér. Lí kvartaði yfir bakverk um helgina og í gær tók hún dýnuna úr rúminu og lagði þunna tjalddýnu á þverspýturnar og svaf þannig í nótt. Bakið var betra í morgun sagði hún.
Um helgina var líf og fjör hjá okkur. Boggi og Örn Kínavinir gistu hjá bræðrunum á föstudagskvöld. Á föstudaginn komu nokkrir vinir í heimsókn og á tímabili voru átta strákar í feluleik í húsinu. Lí bakaði pizzu og Bubba fannst kínverska pizzan einstaklega góð. Við Hekla fengum kínverskan mat a la Lí, svínakjöt og kálrétt. Á laugardaginn fór ég með fimm stráka í bíó á myndina Upp, þeir tóku sig vel út með þrívíddargleraugu.
Í gær var það svo sund með Bubba í Neslauginni og sýningin Söngvaseiður um kvöldið. Hugi sagði að þetta væri gott leikrit, hann klæddi sig upp í jakkaföt og var glæsilegur. Stirnir var líka hrifinn þó hann væri kannski í yngsta lagi, hann hélt athyglinni allan tímann. Við vorum svo flott á því og splæstum í leigubíl heim eftir sýninguna. Við vorum alveg agndofa yfir þessari glæsikerru, aðeins flottara en dósirnar í Sjanghæ.
Krakkar í náttfötum frýnast í tölvuna.
Kínversk veisla með afa Emil, ömmu Helenu, Gunnu, Ágústi, Eyrúnu og Halldóru. Við Lí fórum í fjórar búðir til að kaupa inn, komumst að því að lítið kínverskt er að finna í Asíubúðunum, aðallega tælenskt eða japanskt. En þetta tókst að lokum og Lí bar fram fjóra rétti, svínakjöt, kjúkling, lax og rækjur. Með matnum var drukkinn Tiger bjór.
Eyja og Gunna föðursystir.
Emil, Hugi og Lí.
Síðustu helgi heimsóttum við Heklu, Magnús, Bogga, Örn og Ástu í húsið þeirra á Íslandi. Þar hófst fjöldamorð á geitungum sem Boggi stýrði.
Örn og Eyja leika á leikvellinum bakvið hús.
Gott að fá far með gögö.
Ásta brosir á milli þess sem hún smakkar á mölinni.
Lí og Eyja á göngu í hafnfirskri sveitasælu.
Stirnir les heima daglega og litla systir nýtur góðs af því.
Dalla