Thursday, April 03, 2008

Þá kemur ferðasagan loksins. Það virðist vera annasamt starf að sinna þremur börnum og bara að koma sér í gírinn aftur á heimilinu svo ég hef varla sest við tölvuna síðan við komum á staðinn mægðurnar, ég, Eyja og mamma/amma.

Fyrsta flug gekk vel, Eyja svaf mestalla leiðina til Kaupmannahafnar og það fór vel um okkur, við fengum autt sæti á milli okkar. Biðin í Kaupmannahöfn gekk líka vel, við skráðum okkur inn í næsta flug og lentum á stúlku sem var ekki hjálpsöm. Ég spurði hvort við gætum fengið körfu til að leggja Eyju í á leiðinni, var búin að fá þær upplýsingar að þær væri ekki hægt að panta fyrirfram. Þessi hélt því fram að ég hefði þurft að panta fyrirfram, ég hefði fengið rangar upplýsingar. Þegar ég skoðaði brottfararspjöldin okkar betur sá ég að við mamma höfðum fengið sæti á sitthvorum staðnum í vélinni. Indæl stúlka sagðist ætla að kippa því í lag og athuga með körfuna umtöluðu. Við fengum því fín sæti, tvö saman á góðum klassa og á millivegg fyrir framan okkur var fest burðarrúm/karfa eftir flugtak sem Eyja svaf í. Ég gat því borðað í rólegheitum og sofnað líka.
Í Peking lentum við á nýopnuðum flugvelli og þar var skipulagið ekki komið í lag. Við þurftum að bíða mjög lengi eftir farangrinum, sérstaklega eftir kerrugrindinni. Við áttum eftir að kaupa flugmiðann handa Eyju svo ég skildi mömmu og Eyju eftir með farangurinn til að redda miðanum. Þá kom í ljós að við vorum orðnar of seinar í flugið og það þurfti að fá nýjan miða, ekkert flug laust fyrr en fjórum tímum seinna. Það gekk illa að útskýra hvað ég vildi og stúlkan sem afgreiddi miðann var óratíma að útbúa hann, hún handskrifaði hann allan. Þetta tók því klukkutíma í allt og gráturinn í Eyju var farinn að hljóma í hausnum á mér. Ég ímyndaði mér hana vakandi sársvanga því hún var sofandi þegar ég fór af stað. Mamma vissi ekki hvað hefði orðið af mér allan þennan tíma, var farin að halda að eitthvað hefði komið fyrir mig. Ég hljóp því af stað með miðana í höndunum og mætti mömmu með farangurinn, grátandi barn í vagni og tvo aðstoðarmenn sem höfðu séð aumur af henni. Við þurftum að fara yfir aðra flugstöðvarbyggingu og fengum aðstoð þessa góða fólks, Eyju var bara skellt á brjóstið og við gengum af stað. Þá tók við strætóferð í 20 mínútur og í hinni byggingunni þurftum við líka að kaupa miða handa Eyju og vorum voðalega fegnar þegar við losnuðum við farangurinn í innritun.
Við vorum orðnar fölar og fárar þegar við komumst í Sjanghæflugið, það bjargaði miklu að við fengum miða á fyrsta klassa svo við gátum hallað okkur vel aftur og blundað.
Í Sjanghæ urðu fagnaðarfundir, bræðrunum fannst litla systir hafa stækkað mikið.
Daginn eftir fengum við góðar heimsóknir, Hekla og Magnús komu með strákana og Atli og Ada og mamma Atla komu við líka.

Á sunnudaginn fórum við út úr bænum með Atla og kó. Skoðuðum vatnabæ sem heitir Zhouzhang, þar eru síki í gömlu hverfi og gaman að labba þar um. Hugi og Stirnir sinntu fyrirsætustörfum, ungar kínverskar konur eru spenntar fyrir að fá þá á mynd með sér. Barnavagninn vakti líka mikla athygli og margir reyndu að kíkja ofan í hann.



Eyja á leiðinni



Barnavagninn í kínverskum öngstrætum



Síkin í Zhouzhang




Veitingastaður í dyragætt



Hugi á siglingu





Eitt hinna mörgu svipbrigða Stirnis

Í vikunni höfum við mæðgurnar verið í miklum innkaupum, fórum í IKEA að finna kommóðu fyrir Eyjuföt með Elsu og borðuðum með henni hádegismat. Við fórum líka í Carrefour í stórinnkaup og fengum Lí með okkur. Við höfum aðgang að bíl núna með bílstóra svo ferðalög innan borgarinnar eru auðveldari. Svo er nú líka hægt að labba heilmikið um hverfið okkar og margt að sjá. Við gengum með Elsu á franskan veitingastað í gær og við mamma héldum svo áfram í röltinu, fórum líka með bræðurna í sund seinnipartinn.
Eyja brosir mikið til Lí, hún hefur verið spör á brosin hingað til en þegar Lí talar við hana á kínversku þá verður hún eitt bros. Það liggur við að við hin séum hálf afbrýðisöm.
Á mánudaginn fór ég í heimsókn í bekkinn hans Stirnis því hann bauð upp á súkkulaðiköku í tilefni afmælisins. Ég hitti nýja kennarann hans í fyrsta skipti og mér leist vel á hana. Hún sagði mér að Stirni gengi mjög vel í skólanum og hann væri orðinn fluglæs. Ég var líka hissa þegar ég heyrði hann lesa, honum hefur farið svo mikið fram.



Afmælisprinsinn krýndur af Mrs. Lewis



Afmælisbarnið elskar súkkulaðiköku

1 comment:

hekla said...

Þið eruð svo ótrúlega afkastamikið fólk. Maður hefði haldið að þið mynduð liggja í leti á sunnudeginum eftir allt ferðalagið, en nei þið smellið ykkur bara í ferðalag. Maður kemst ekki með tærnar þar sem þið hafið hælana svei mér þá!!