Stirnir á afmæli í dag, hann sem var litla barnið mitt í tæp sex ár hefur staðið sig mjög vel í hlutverki stóra bróður. Eyja dýrkar hann og kallar hann Didú mjúkum rómi. Stirnir sinnir henni og faðmar hana af ástúð. Stirnir og Hugi eru bestu vinir þó ólíkir séu, þeir mega varla hvor af öðrum sjá.
Stirnir fékk áhuga á peningum þegar við komum til Íslands og uppgötvaði að það voru verðmæti í flöskum og dósum. Hann byrjaði söfnun og frímínúturnar fóru oft í það að leita að flöskum sem hann faldi svo inni á skólasvæðinu og tók með sér heim í lok dags. Hann tók líka að sér umsjón með því að fara út með ruslið og fékk smápening fyrir það. Um daginn var hann með þegar ég setti bensín á bílinn. Hann horfði stóreygur á dæluna fara yfir 12.000 krónur og fannst þetta vera miklir peningar fyrir ekkert áþreifanlegt. Þegar við lögðum af stað sagðist hann vera að hugsa um að verða krakkakall eins og Sveppi þegar hann yrði stór. Við vorum nýbúin að sjá leikritið um Sveppa og hann ímyndar sér greinilega að krakkakallar hafi engar skyldur eins og að kaupa bensín.
Þegar ég sótti Stirni í skólann einn daginn sáum við hund af sama kyni og Moli okkar heitinn. Ég spurði hvort hann myndi ekki vel eftir Mola og hann jánkaði því. Svo varð hann hugsi og sagðist hlakka til að deyja því þá myndi hann hitta Mola aftur. Svo hugsaði hann aðeins lengur og sagðist öfunda mig. “Nú”, sagði ég. “Jú, þú deyrð bráðum því þú ert svo GÖMUL.” Ég get semsagt farið að hlakka til endurfundanna við Mola.
Stirnir með bekkjarkrókódílinn Breka og uppáhaldið ís.
Stirnir, Hugi og Eyja á afmælisdegi Eyju, tveggja ára.
Hvíld á kaffihúsi eftir labb um bæinn og söng á öskudaginn. Hugi tók myndina.
Endur, gæsir og svanir fá oft gott að borða hjá Stirni.
Stirnir og Eyja gerðu snjókarl í síðasta snjó. Eyja sendi honum fingurkoss úr glugganum fyrir nóttina og talaði um hann lengi eftir að hann bráðnaði.
Til hamingju með afmælið elsku Stirnir okkar,
mamma.