Nú erum við í fríi þessa vikuna, ákváðum að vera bara heima í þetta skipti. Við keyptum okkur aðgang að sundlaug hérna í hverfinu fyrir nokkru og höfum farið þangað nær daglega í fríinu. Boggi og Örn komu með okkur í sundið á laugardaginn og svo fórum við á O´Malleys í hoppukastalann á eftir. Þar hittu strákarnir íslenskan strák sem er að heimsækja mömmu sína sem er hérna í námi. Skemmtileg tilviljun og ég settist niður hjá íslensku fjölskyldunni og spjallaði við þau.
Daginn eftir hittust Íslendingar í hádegismat. Hópurinn fer stækkandi og það bætast líka við fleiri krakkar.
Bræðurnir sakna Filips nágranna sem fór til Filipseyja með fjölskyldunni. En í morgun kynntust þeir kínverskum strák hérna úti og náðu einhverju sambandi við hann, Hugi sagði reyndar að hann væri svolítið reiður en ætli samskiptin hafi ekki gengið út á það að skiptast á dóti og ná því svo aftur. Um hádegi fórum við í göngutúr og yfir mig dundi spurningaflóð frá Huga, hvert við værum að fara, hvað við ætluðum að gera o.s.frv. Ég baðst vægðar og þá stakk hann upp í mig með þessu svari: "Hva, ég má spyrja, þannig læri ég!" Sem er auðvitað hárrétt hjá honum.
Nú er undirbúningur fyrir Food fair hafinn, matarstefnuna árlegu þar sem foreldrar nemenda elda og bjóða til sölu mat eða drykki og ágóðinn rennur til styrktar foreldrafélagsins. Þar sem við Elsa eru tvær ákváðum við að vera með íslenskt borð, fengum smá mikilmennskubrjálæði að íslenskum sið. Hugmyndin var að bjóða upp á ferskt vatn frá Íslandi, Brennivín og Ópalsnafs og eitthvað sætt eins og kleinur og pönnukökur. Árni maður Elsu tók að sér að kaupa inn á Íslandi í skreppitúr um daginn og bar þetta allt hingað út.
En við fengum ekki að vera í friði með okkar borð því Christina danska bað náðarsamlegast um afnot af horni af okkar borði. Við skólann stunda nám nemendur frá 9 dönskum fjölskyldum en bara ein þeirra bauðst til þess að vera með, semsagt Christina. Okkur fannst sjálfsagt að við Íslendingar ættleiddum Dani og hún fengi eitt horn. En við vorum ekki fyrr búnar að samþykkja það en að upp kom beiðni frá annarri stórþjóð Bretum, þannig að það lítur út fyrir að við ættleiðum líka þessa aumu Breta.
Ég fór í skoðun hjá lækninum mínum í síðustu viku og hann pantaði fyrir mig tíma í sónar í lok næstu viku. Ég býst við að skjánum verði ekki snúið frá okkur Kjartani eins og tíðkast hér, við fáum að vita kynið ef það sést.
Hérna heima er ég búin að lesa bókina What´s inside your tummy mummy? fyrir bræðurna og líka nágrannabörnin.
Kínverskir nágrannar eru farnir að taka eftir stækkandi kúlu og telja strákana og benda svo á kúluna og fá út þrjá og fórna höndum. Hérna vagga óléttar konur um á hverju götuhorni, það er talsverð fjölgun frá því í fyrra þegar mér fannst ég varla sjá ólétta konu. Skýringin er sú að þetta ár er sérlega gott til barneigna, ár gullna svínsins sem kemur bara á 60 ára fresti. Lára sagði mér frá kínverskri konu sem á von á sér í október og hún þarf að fara eldsnemma á spítalann þann dag sem hún vill fá skoðun en ef hún er of aftarlega í röðinni fær hún enga skoðun þann daginn. Konur eiga víst börnin á göngunum vegna plássleysis.
Á mínum spítala er ég búin að biðja tvisvar um að fá að skoða fæðingarstofuna en hún er annaðhvort í notkun eða verið að þrífa. Vonandi linnir þessari fæðingahrinu í febrúar þegar nýtt ár gengur í garð, mig langar ekki til að eiga barn á gangi.
Ég var að fara yfir myndir frá sumrinu og hér eru nokkrar frá ágústmánuði:
Sjóræningi í Viðey
Stirnir með Ársól, Friðriki og Daníel
Fjölskyldan í Háaskála, Ólafsfirði, þau ætla að heimsækja okkur um jólin
Mæðgurnar Gunna og Catherine, þarna var verið að halda upp á afmæli húsfrúarinnar í Grjótagötu
Hitarinn komst í gagnið og yljar vonandi húsfrúnni í garðinum
Tuesday, October 02, 2007
Subscribe to:
Posts (Atom)