Sunday, August 27, 2006

Þriðja skólavikan að byrja á morgun, rosalega líður tíminn hratt. Bráðum erum við búin að vera hérna í 3 mánuði.
Ég sótti Huga í skólann á föstudagsmorgun, hann var með hlustarverk og hjúkrunarfræðingurinn hringdi í mig. Hann grét og hélt um eyrað en leið nú betur þegar ég kom. Líklega bara hlustarverkur eftir langa sundferð á fimmtudeginum sem lagaðist þegar leið á daginn.
Við fórum saman eftir hádegi á föstudagssamveru í skólanum sem verður á tveggja vikna fresti í lok skóladags. Skólastjórinn og fleiri kennarar spila í hljómsveit og halda uppi fjöri, Stirni fannst þetta rokk skemmtilegt sagði hann. Bræðurnir sátu með sínum bekk og foreldrarnir aftast. Allir nýir nemendur og kennarar voru kallaðir upp á svið og kennararnir látnir dansa þar við undirleik og söng. Einnig fer hver bekkur upp á svið og hneigir sig og fær klapp að launum. Þegar líður á skólaárið fá bekkirnir stærra hlutverk á samkomunni. Það var líka sungið fyrir afmælisbörn sumarsins, sérstakur SCIS afmælissöngur. Við lærðum líka slagorð eða hvað maður á að kalla það skólans en það er Gooooooo dragons!!! og hendurnar opnast eins og drekamunnur og skella svo saman í lokin. Nemendur hafa þetta viðurnefni, drekar.
Ég fékk að sitja í skólabílnum á heimleiðinni, börnin voru greinilega þreytt, þrjú þeirra sofnuðu á leiðinni.
Kennarinn hans Huga sagði að hann hefði átt góðan dag í skólanum á fimmtudaginn. Kennari Stirnis segir að hann sé farinn að taka meira þátt í kennslustundum og jafnvel reyna að tjá sig á ensku. Það finnst mér gott eftir rúma viku í skólanum.
Í gær fór ég með strákana á hárgreiðslustofu, lubbinn hefur vaxið mikið í sumar og þeir treystu mér ekki í verkið. Við fórum bara á stofu hérna í næstu götu, ekta kínverska. Það var vel tekið á móti bræðrunum og þeir voru lagðir til við vaskinn og hárið þvegið. Þeir eru ekki vanir að fá hárþvott þegar þeir fara í klippingu en þeim fannst þetta bara gott. Í stólnum voru þeir með nokkrar herramannsbækur sem þeir skoðuðu meðan verið var að klippa þá. Útkoman er mjög fín, þeir eru hæstánægðir sjálfir. Ég ætlaði nú ekki að trúa því þegar ég var að borga, klippingin fyrir þá báða kostaði tæpar 200 ikr. Ekki hægt að segja annað en að hárgreiðslustofur hérna eru ekki okurbúllur, nema þá þær sem eru stílaðar inn á útlendinga. Þegar ég fór í klippingu borgaði ég svona 1800 fyrir það en hárgreiðslumaðurinn bauð mér upp á maska í hárið sem mér fannst bara góð hugmynd þangaði til hann sagði mér hvað hann kostaði, aðeins 13.000 ikr, nei takk!
Við hjónin fórum út á laugardagskvöldið, Daisy káta kom og passaði. Við fórum á veitingastað sem heitir People 6 en People 7 er líka í Shanghai og hinir í Japan og Taiwan. Þetta er mjög flottur staður, það er ekki auðvelt að komast inn á staðinn, smá trikk. Ég kom á eftir Kjartani, Atla og Ryan og ég stóð og veifaði á þá inn um gluggann til að biðja þá um hjálp við að komast inn. Þeir létu mig bara finna út úr þessu og það tókst að lokum. Salernið er völundarhús og allt í speglum, við Yongjia fundum það þó en á People 7 staðnum er víst svo flókið að komast inn á salernið að liggur við undirmigu.
Matseðillinn er kínverskt nouvelle cuisine, mjög góður matur og skemmtilegur félagsskapur líka. Á eftir fórum við á bar sem heitir Zapatas, fullt af expats/útlendingum þar og eightiestónlist á fóninum. Þar er dansað uppi á barnum líka og Ryan og Atli skelltu sér upp og ég prófaði líka með þeim. Við fórum líka á skemmtistaðagötuna Tongrengötu, á tvo staði þar. Þannig að ég fékk smá innsýn í næturlíf Shanghæborgar sem Kjartan var búinn að prófa áður en ég kom á staðinn.
Nú eru strákarnir sofnaðir, Hugi inni í tjaldi í herberginu, hann saknar þess mikið að hafa ekki farið í útilegu í sumar. Ég þarf að herða upp hugann og fara í langferð á morgun til PuDong að sækja vegabréfin okkar með dvalarleyfinu, ég fresta því endalaust, nenni ekki að sitja þarna og bíða.
Dalla

2 comments:

Anonymous said...

Sælar, héðan í frá ætla ég að fá að fylgjast með þessu ævintýri ykkar. Hitti mömmu þína um helgina. Djammaði með Jóru um daginn, ekki leiðinlegt.

Kv Thelma

Dalla said...

Elsku Thelma, gaman að heyra frá þér! Ég er búin að týna netfanginu þínu, viltu senda mér póst á dallaj@gmail.com - Dalla