Wednesday, December 29, 2010

Kenýaferð með abc–þriðji hluti

Einn af síðustu dögunum í Nairóbí  fórum við í hættulegasta slömm borgarinnar sem heitir Corrogocho. Þar vorum við í fylgd vopnaðs manns og andrúmsloftið var frekar rafmagnað. Hverfið er staðsett við stærstu öskuhauga borgarinnar og margir vinna sér inn peninga með því að róta í ruslinu í leit að plasti, málmi eða bara einhverju ætilegu. Við skoðuðum haugana í nálægð og lyktin var ólýsanleg. Ég sá konu beygja sig niður og skola andlitið upp úr polli við haugana, vatnið var ógeðslegt og svín og fuglar voru þarna líka í leit að æti.

Á fyrsta heimilinu bjó ekkja með þrjú börn en reyndar bjuggu fjögur börn á heimilinu því munaðarlausum frænda hafði verið komið fyrir hjá henni. Konan átti svo von á barni með kærasta sem hafði látið sig hverfa, hann treysti sér ekki til að búa með börnunum og bera ábyrgð á þeim. Hun virkaði frekar dofin og var lengi að svara spurningunum okkar og sagði okkur að hún væri að missa húsnæðið vegna þess hve illa henni gekk að borga leiguna.

Næst heimsóttum við stuðningsdóttur Berglindar en hún er sex ára og byrjaði í skóla í haust. Henni gengur vel í skólanum og mamma hennar og amma voru stoltar yfir árangrinum. Berglind var líka stoltið uppmálað þegar hún sat með hana í fanginu.

Í síðasta húsinu hittum við fyrir ekkju sem missti manninn sinn í óeirðunum eftir forsetakosningarnar. Hann var myrtur á hroðalegan hátt og hún stóð eftir ein með rúmlega ársgamla tvíburastráka. Kofinn þeirra var í hroðalegu ástandi, moldargólf með moldarveggi og það sást í gegnum bárujárnið í þakinu. Það var búið að strengja plast yfir rúmið til að varna því að rigndi beint inn. Konan sagði okkur að hún færi að leita að þvottavinnu á daginn og þá líta nágrannar oft eftir strákunum. Ef hún fær engan til að líta eftir þeim skilur hún þá eftir fyrir utan kofann, þeir eru einu ári eldri en Eyja, verða fjögurra ára í febrúar. Þessi litla fjölskylda borðar bara eina máltíð á dag. Mér fannst skrefin inn í þetta hús og út alveg sérlega erfið, ég var búin að sjá svo margt hræðilegt og þarna var enn ein fjölskyldan í ömurlegum aðstæðum.

Annar hópur hitti fjölskyldu sem gat ekki borgað leiguna og þá hafði eigandi kofans tekið hurðina af og þessvegna var greið leið fyrir utanaðkomandi inn til þeirra.

Rósa styður barn í SOS þorpi í Kenýa en það er staðsett langt frá borginni. Þórunn skipulagði heimsókn í SOS þorp í Nairóbí fyrir nokkur okkar. Það var skemmtilega uppbyggt, þarna búa einungis munaðarlaus börn og þá eru þau í húsum með konu sem þau kalla mömmu og öðrum börnum.

Börnin og unglingarnir á barnaheimili abc undirbjuggu kveðjuathöfn fyrir hópinn okkar. Við slógum saman til að hægt væri að kaupa geit sem var slátrað og nautakjöt að auki. Þau tóku á móti okkur með söng og dansi og við settumst öll inn í kirkjuna áður en við settumst að borðum og gæddum okkur á geitinni, ugali og hrísgrjónum. Eftir matinn hélt skemmtidagskráin áfram með ljóðaupplestri, leikþáttum og ræðuhöldum.

Gróa sem var sjálfskipuð amma barnanna á barnaheimilinu ákvað að bjóða öllum börnunum 160 upp á ís. Mörg barnanna höfðu aldrei smakkað ís áður.

IMG_2783

Spenna með ís í hendi.

IMG_2788

Berglind og Gróa deila út ís í boxi.

IMG_2792

Gróa naut þess að dekra við börnin.

IMG_2794

IMG_2796

Gæjar gæða sér á ís.

IMG_2797

IMG_2800

Rose kom alltaf að heilsa upp á mig.

IMG_2802

Siggi og Rósa með Möggu á milli sín.

IMG_2803

Yngsti íbúi barnaheimilisins fékk líka að smakka ís.

IMG_2805

Ég þurfti að neita krökkunum þegar þau vildu bjóða mér með sér. Þau sem kláruðu sinn skammt fyrst fengu oft smakk frá hinum.

IMG_2810

Krakkar í SPRON bolum

Eftir hjartnæma kveðjustund þar sem féllu mörg tár fórum við heim í hús til að pakka fyrir næsta ævintýri en það var þriggja daga ferð í þjóðgarðinn Masai Mara.

Við vorum sótt á bílum og keyrðum norður út úr Nairóbí í gegnum te og kaffiakra og komum að sigdalnum mikla sem nær alla leið frá miðausturlöndum til Mósambik.

IMG_2815

Mæðgurnar Helena og Rósa við útsýnisstaðinn.

IMG_2816

Horft yfir sigdalinn Rift valley.

IMG_2819

Við komum fljótlega í Masai-land en þar býr þjóðflokkur hirðingja. Þeir eiga kýr, geitur og kindur og leita eftir beitarlandi fyrir dýrin sín á landamærum Kenýa og Tansaníu en þar heitir svæðið Serengetí.

IMG_2823

Við heimsóttum Masai-þorp en það var nú frekar túristalegt því við borguðum okkur inn. Á myndinni er leiðsögumaðurinn, höfðingjasonur að sýna okkur laufblöð á tré sem þeir tyggja til að hreinsa tennurnar. Sjálfur var hann ekki góð auglýsing því það vantaði helming tannanna í munninn.

IMG_2828

Þeir sýndu okkur líka hvernig þeir kveikja eld. Sérstakan hoppdans þar sem þeir hoppa til að heilla konurnar. Masai-menn borða kjöt og drekka mjólk og blanda líka blóði út í mjólkina. Þeir borða enga ávexti og grænmeti, einungis ber sem þeir tína af trjánum.

IMG_2841

Masai-menn stunda fjölkvæni og þeir borga fyrir konurnar sínar með kúm. Það má víst ekki spyrja þá hversu margar kýr þeir eiga, það er eins og spyrja hve mikla peninga þeir eigi. Þeir stunduðu ljónaveiðar áður, sem einskonar manndómsvígslu en nú mega þeir ekki drepa ljónin. Ef ljón drepa frá þeim kú fá þeir bætur.

IMG_2844

Við Rósa ætluðum að vera sniðugar og spyrja Masai-mennina hversu margar kýr þeir myndu bjóða í okkur. Á myndinni var ég nýbúin að spyrja og sá sem er annar frá hægri leit á mig og tilkynnti: “You look old!” Þá spurði ég hvað hann héldi að ég væri gömul og hann rannsakaði mig og kvað upp dóminn 35 ára.

IMG_2845

Þá vogaði ég mér að spyrja hversu margar kýr hann myndi borga og þá var svarið: “Eina belju!!” Ég varð fyrir vissu áfalli, hélt ég væri meira virði, en samfyrirsætur mínar skemmtu sér vel yfir hrakförum mínum. Ég býst við að aldurinn 35 ára sé ansi hár en ekki nógu hár til að verða virðulegur.

IMG_2856

Hótelið okkar voru tjöld úti í náttúrunni, algjör lúxus. Rósa tók sig vel út á terrössunni. Þegar við vildum heita sturtu komu menn með með fötur fullar af heitu vatni á hjólbörum og svo var vatninu hellt í skjóðu sem var hífð upp við hlið baðherbergisins. Svo skrúfuðum við frá vatninu inni í sturtuklefanum og fengum þessa fínu sturtu sem var þó stundum fullheit.

IMG_2860

Í tjaldborginni bjó antilópa af tegund eland en það er stærsta antilópa veraldar. Hann var mjög vinalegur við Rósu.

IMG_2873

Á öðrum degi keyrðum við inn í þjóðgarðinn með leiðsögumanninum Peter sem var hafsjór af fróðleik. Við keyrðum út um allar grundir í leit að dýrum og fundum þau flest fyrir utan hlébarða sem er mjög erfitt að sjá.

IMG_2908

Flóðhestarnir voru rólegir en við rétt sáum í nashyrninga sem hurfu svo inn í runnana.

IMG_2890

Þessi fílahjörð var á leið niður að ánni.

IMG_2877

Við hittum ljónynjur með unga. Við sáum líka ljónynju sem var nýbúin að drepa sebrafolald handa sínum unga. Sebramamman kallaði viðvörunarorð til hinna sebrahestanna.

IMG_2925

Litrík eðla í tré.

IMG_2937

Hýenur eru ekki sjarmerandi dýr.

IMG_2946

Á landamærum Kenýa og Tansaníu.

IMG_2959

Rósa og safaríbíllinn en við stóðum allan daginn með hausinn út úr loftlúgunni.

IMG_2972

Um kvöldið vorum við veðurbarin eftir útiveruna og fengum mat í einskonar helli við hótelið. Helena, Ágúst og Gróa.

IMG_2973

Sigurbjörg, Inga og Rósa.

IMG_2974

Guðjón Ingi, Kristófer, Berglind og Ester.

IMG_2994

Á leið inn í borgina mættum við þessum skjaldbökum í vegkantinum.

IMG_2997

Berglind og Rósa tóku að sér að bjarga þeim og bera yfir veginn.

IMG_3002

Eftir tíðindalaust ferðalag og nótt í London vorum við, Rósa og Gróa tilbúnar í heimflugið á Heathrow.

Fullt af minningum í farteskinu sem ég deili með ferðafélögum mínum, takk fyrir samveruna!

Dalla

Friday, December 24, 2010

Kenýaferð með abc- annar hluti

 

Það fór mikill tími í ferðir í bíl í Nairóbí. Umferðin er hræðileg, ég sem hélt ég væri öllu vön frá Asíu. Bílarnir eru margir í slæmu ástandi, algeng sjón að sjá bilaða bíla og vegirnir slæmir og mikið ryk í vegkantinum. Margir ganga sínar leiðir eða taka matatu sem eru lítil rúgbrauð en líta út eins og sardínudósir á ferð, úttroðnar. Við vorum ferjuð á milli staða í tveimur bílum  og oft sátum við lengi föst í umferðarhnút. Við vorum í útjaðri borgarinnar þar sem eru hraðbrautir og yfir þær lágu göngubrýr fyrir gangandi vegfarendur. Fólk veigraði sér samt við að nota þær því þar biðu þjófar eftir fórnarlömbum sínum. Þessvegna freistar fólk frekar gæfunnar og hleypur yfir hraðbrautirnar og þá verða dauðaslys í umferðinni.

Við lentum í því einn daginn þegar við sátum föst að menn komu að bílnum, spenntu upp glugga og toguðu í töskur. Þeim tókst þó ekki ætlunarverkið og við sáum að viðbrögð vegfarenda voru ofsafengin svo þjófarnir hrökkluðust á brott. Þjófar sem nást eru oft grýttir til dauða af almenningi á staðnum.

Nokkrar  myndir með vinum okkar á Star of Hope:

IMG_2484

Rose litla og ég

IMG_2493

Kristófer með fangið fullt

IMG_2495

Fleiri bættust við þegar myndavélin var á lofti

IMG_2496

Rósa með ungum vini

IMG_2500

Bjarki og vinur

IMG_2503

Kristófer leikur við krakkana sem bíða í kring eftir að komi að sér

Einn daginn fórum við á markað til að kaupa jólaföt á krakkana sem búa á barnaheimilinu. Það eru sómalir sem reka markaðinn og við keyptum 34 buxur á stærri strákana meðan hinn hópurinn keypti kjóla á litlu stelpurnar. Við prúttuðum með aðstoð starfsmanna á barnaheimilinu.

Í hádeginu borðuðum við á Luo stað en Luo er einn af þjóðflokkunum sem búa við Viktoríuvatn. Þarna var boðið upp á fiskinn tilapiu, heilsteiktan og hann borðuðm við með chapati brauði, ugali (mauk úr maísmjöli), grænkáli og salati. Þetta var ljúffengt og skemmtilegast að borða matinn með fingrunum.

IMG_2506

Tilapia sem er borðuð með fingrunum.

Þórunn og Sammy fara reglulega og vitja götubarna sem eru óteljandi í Nairóbí. Í nágrenni við Star of Hope heldur til hópur götubarna/fólks og þar er líka kona/mama sem fylgist með þeim, hún rekur matsölu í nágrenninu og virðist ná vel til þeirra. Næsta verkefni var að hitta þennan hóp og jafnvel  ná í nokkra þaðan og hýsa á barnaheimilinu. Mörg barnanna þar koma af götunni og sögur þeirra eru hryllilegar. Það er forgangsverkefni að reyna að sameina fjölskyldur ef það er hægt, annars eru þau hýst á barnaheimilinu sem er þó yfirfullt eins og er.

Þegar við gengum inn í hverfið  þar sem götubörnin ætluðu að hitta okkur kom strákur og tók í hendina á Helenu og leiddi hana.

IMG_2508

IMG_2512

Yngstu götubörnin eru í kringum átta ára en þessi börn voru að þvælast í kringum hópinn, eiga líklega heima í nágrenninu.

IMG_2513

Margir sniffa lím og bera það reglulega upp að vitunum. Þetta er skólím og lyktin af því lá í loftinu.

IMG_2518 IMG_2519

IMG_2521

Þetta er mama sem fylgist með götubörnunum. Þórunn og Sammy greiddu fyrir mat handa þeim og hún sá um að vísa þeim af stað að fá sér að borða. Stelpan sem situr við hliðina á henni var með sýkingu á fæti og hún var flutt til læknis.

Nokkrir stóðu upp og sungu fyrir okkur og við sungum fyrir þau líka, Krummi svaf í klettagjá.

IMG_2526

Þessi kona ráfaði um með börnin sín þrjú, eitt á bakinu. Hún sagðist sjálf hafa verið á götunni síðan hún var barn. Einhvernveginn tekst henni að halda lífi í börnunum sínum. Hún kom með okkur til að skoða barnaheimilið því Þórunn bauð henni að taka eldri börnin tvö. Hún sagðist ekki geta skilið þau eftir því þá gæti pabbi barnanna sakað hana um að selja þau.

IMG_2527

Þessi strákur bað mig um að taka mynd þar sem hann stillti sér upp með límflöskuna

IMG_2531

Það var mjög sorglegt að vera með þeim þarna en líka von í því að abc heimsæki þau og fylgist með ástandinu. Sammy sagði mér að þau reyndu oft að taka krakka með sér sem væru nýkomin á götuna, það væri mesta vonin að bjarga þeim áður en þau væru orðin of háð líminu og félagsskapnum. Það fóru tveir strákar með okkur og tvær stelpur í bílinn á barnaheimilið. Því miður struku þau öll aftur eftir nokkra daga til að fara aftur á götuna. En eins og Sammy sagði að þá reyna þau bara aftur og mörgum þeirra tekst að hefja nýtt líf og halda áfram í skóla. Mörg barnanna á barnaheimilinu eru langt á eftir í skóla vegna þess að þau hafa misst úr heilu árin í skólagöngu.Til dæmis eru 18 ára strákar bara í 5. bekk.

Daginn eftir funduðum við með Þórunni og félagsráðgjöfunum um þær fjölskyldur sem við vorum búin að heimsækja í slömmin. Við áttum að forgangsraða börnunum eftir ástandi á heimilunum. Það er hrikalega erfitt að taka svona ákvarðanir um líf fólks en þetta varð að gera, svo er næsta verkefni að finna stuðningsaðila. Á nokkrum heimilum eru börnin hreinlega vanrækt en samt er reynt í lengstu lög að börnin séu með foreldrum sínum. Það þarf líka að hugsa um að það er nær ómögulegt að taka börn af heimili þar sem þau hugsa um yngri systkini sín vegna þess að foreldrarnir eru geðveik eða drykkjusjúklingar.

Eftir erfiðan fund lyftum við okkur upp og heimsóttum hjónin Brendu og Garry. Hann er prestur og hún rekur Jacaranda creations en það eru HIV smitaðar konur og fátækar sem sauma fallega muni á 13 saumastofum í slömmum borgarinnar. Við fengum góðar veitingar og keyptum ýmislegt fallegt hjá þeim og settum sölumet að Íslendinga sið. Næsti viðkomustaður var markaður með munum frá Masai þjóðflokknum þar sem við keyptum skálar, skart, spjót, fatnað og fleira sem gæti dúkkað upp í jólapökkum hópsins.

Við höfðum líka tíma til að vera ferðamenn og á laugardegi fórum við á munaðarleysingahæli fyrir fíla. Fílsungunum er oft bjargað upp úr brunnum og þá hafa mæðurnar gefist upp og yfirgefið þá. Markmikið er að koma þeim aftur út í náttúruna.

IMG_2547

Jarðvegurinn er rauðleitur sem þýðir að fílarnir verða rauðir líka, þeir voru mjög sætir þegar þeir böðuðu sig.

IMG_2560

Yngsti fílsunginn var undir sólhlíf, bara sex vikna grey.

IMG_2569

Pelar fyrir fíla eru frekar stórir

IMG_2577

Steinunn var afmælisbarn dagsins og hún kom okkur öllum að óvörum og reiddi fram morgunverðarhlaðborð fyrir hópinn. Þar voru pönnukökur, brauð með áleggi, safi, kaffi, algjör lúxus. Flest okkar borðuðum kenískan mjölgraut á morgnana svo þetta varð enn meiri veisla.

IMG_2592

Næsti viðkomustaður var gíraffagarður þar sem var hægt að knúsa þá. Sumir fengu blauta gíraffakossa, nefni engin nöfn.

IMG_2593

Við heimsóttum líka hús hinnar dönsku Karen Blixen sem notaði rithöfundanafnið Isak Dinesen. Margir þekkja myndina Out of Africa sem fjallaði um líf Karenar. Hún bjó með manni sínum fyrir sunnan Nairóbí og ræktaði kaffi en þar var ekki góður jarðvegur fyrir kaffirækt, kaffi og teakrarnir eru fyrir norðan borgina. Hún eignaðist elskhuga sem hún bjó síðar með og myndin fjallar um þá sögu. Húsið hennar var fallegt og skemmtilegt að sjá munina og myndirnar frá þessum tíma en hún flutti til Kenýa árið 1914. Hún var með tvær lugtir með rauðu og grænu ljósi sem hún setti fyrir utan dyrnar á svefnherberginu til að láta eiginmanninn vita hvernig hún væri stemmd, greinilega skýr skilaboð.

IMG_2595

IMG_2599

Australian flame tré í garðinum við hús Karen Bilxen. Það var algjör paradís að koma í þetta fallega umhverfi.

Laugardagar eru brúðkaupsdagar í Kenýa. Það tíðkast ennþá að semja um brúðarverð og þá eru það oft peningar og kýr sem skipta höndum, uppgefið verð til brúðgumans getur til dæmis verið 250.000 shillingar og 18 kýr að sögn Sammy. Þá tekur við langt samningaferli og þá getur verðið farið niður í 70.000 shillinga og 9 kýr. Sammy er oft í samninganefndinni fyrir hönd brúðgumans en þennan laugardag var hann að aðstoða við akstur. Þegar hann ætlaði að sækja brúðhjónin og fara með þau til kirkju vildu frænkur brúðarinnar semja betur á síðustu stundu og neituðu að láta hana af hendi. Þá tóku við umræður í tvo tíma og brúðkaupsgestir biðu í kirkjunni. Þegar samningum var náð voru flestir gestanna búnir að missa þolinmæðina og farnir.

IMG_2601

Í garðinum við hús Karen Blixen var brúðkaupsveisla og þar var þessi litla prinsessa meðal gesta.

Í Kenýa er mikil guðstrú og trúin hjálpar fólki í sínum erfiðu aðstæðum, sú vissa að Guð vaki yfir þeim og hjálpi þeim. Við fórum í kirkju í slömminu og við klæddum okkur upp að kenískum sið.

IMG_2605

Prúðbúnir kirkjugestir, undirrituð og Rósa.

IMG_2610

Kirkjan tekur 10.000 manns í sæti og það eru fjórar messur á sunnudögum. Tónlistin var falleg og fólk stóð upp, dansaði og klappaði.

IMG_2624

Kirkjugestirnir Bjarki, Kristófer, Rósa, Inga Björg, ég og Helena.

IMG_2627

Sammy með George Dima sem er einn af fyrstu starfsmönnum abc í Nairóbí og dætur hans Hope og Wanda.

Gróa tók sig til einn daginn og settist niður með krökkunum á barnaheimilinu og gerði við föt með þeim. Fötin þeirra voru ekki í góðu ástandi, mörg götótt og slitin og margir fundu sig í  því að stoppa í göt.

IMG_2635

IMG_2639

IMG_2641

Gróa með lítilli vinkonu

IMG_2644

IMG_2650

Rósa var heillengi að stoppa í prinsessukjól af litlum íbúa barnaheimilisins.

IMG_2657

Fjör hjá Gróu í saumaskapnum.

IMG_2661

Útsýnið yfir Mathare slömmið frá barnaheimilinu

IMG_2666

Lítil fyrirsæta

IMG_2669

Christine og Helena sem heldur á stelpu sem sofnaði yfir perluvinnunni.

IMG_2677

Rachel til hægri með vinkonu sinni.

IMG_2675

Eitt af síðustu kvöldunum okkar var haldin veisla í húsinu hjá okkur. Við þurftum nú lítið að gera því starfsfólk abc kom og eldaði handa okkur veislumáltíð. Kjúklingur sem var líklega reyttur á staðnum því fjaðrir flugu um stéttina lengi á eftir, nautakjöt, hrisgrjón, salat, chapati og ugali.

IMG_2685

Hláturskast yfir grænmetinu.

IMG_2688

Chapati var steikt á pönnu.

IMG_2692

Ugali, maísmjöl sem er blandað saman við vatn er mikilvægur hluti af máltíðinni. Einn sagði mér að hann fengi magapínu ef hann fengi ekki ugali daglega. Rétturinn er frekar bragðlaus en borðaður með grænkáli eða kjöti og tekur bragð af því.

IMG_2694

Maísmjölið sett út í vatnið og svo þarf að hræra lengi.

IMG_2704

Ég fékk að aðstoða við matargerðina.

IMG_2708

Og svona leit matardiskurinn út, namm.

IMG_2709

Veislumáltíð

IMG_2712

Ágúst svindlaði og notaði gaffal, flestir borða með höndunum.

IMG_2726

Eftir matinn var stiginn trylltur dans í stofunni við trommuundirleik.

IMG_2718

Rósa í fíling í dansinum. Klukkan tíu voru ræðuhöld og stutt bæn og svo kvaddi fólk. Þetta fólk kann að skemmta sér!

IMG_2741

Nemendahópur abc með töskurnar sem við fengum að taka með okkur.

Meira síðar, Dalla