Tuesday, August 29, 2006



Skólabíllinn og bræðurnir í aksjón, þessar myndir eru teknar áður en þeir fengu kínversku herraklippinguna, ég þarf að smella af þeim aftur. Úr leyni á Stirni því hann þrjóskast enn við í fyrirsætustörfum.
Ég fékk símtal kl 8:30 í morgun, var kölluð út í verkefni, shopping með Lethe. Ég brást vel við og var mætt á staðinn klukkutíma síðar. Uppskar nokkra hluti, Kjartan brosir þegar ég kem heim með pokana, ennþá... Ég hef tekið expathlutverkið nokkuð alvarlega undanfarið, shopping, nudd... á bara eftir að fara í hand og fótsnyrtingu og þá er þetta fullkomið.
En það er ekki leiðinlegt að hafa félagsskap á daginn. Lethe er fyndin týpa, hefur ekki unnið í þónokkur ár, hún notar búðarferðirnar til að halda sér í formi segir hún. Hún er fróðleiksnáma um verslunarvölundarhús Shanghaiborgar og ég sýg upp fróðleikinn og nýt hennar aðstoðar ef þarf að þrefa um verð. Hún er alin upp í Shanghai, þar sem hennar hús og hverfi stóð er nú risaverslunarmiðstöð. Skrýtið að eiga bara minningar um æskustöðvarnar, geta ekki heimsótt þær. Það eru margir í sömu sporum og hún, mikið hefur verið rifið og byggt nýtt hérna síðastliðin ár og áratugi.
Hugi var að segja mér um daginn hvað væri leiðinlegt við það að vera í Kína og þá nefndi hann helst að hann ætti enga vini hér, þeir urðu eftir á Íslandi. Ég sagði að ég væri í sömu sporum og hann, mínir vinir urðu líka eftir á Íslandi. En hann benti á að ég hefði Atla og Yongjia sem er alveg satt, en þeim kynntist ég hér. Það er skrýtið að vera svona á byrjunarreit og vera að leita sér að félagsskap, mér finnst stundum eins og ég sé orðin barn aftur. Viltu vera memm?
Það góða er að margir eru í sömu sporum og við hérna, fólk er að mynda ný tengsl og finna sig á nýjum stað, þetta er mikill lærdómur fyrir okkur.
Í bekknum hans Huga eru krakkar frá Írlandi, Hong Kong, Japan, Kóreu, Malasíu, Ameríku, Frakklandi, Svíþjóð og Taiwan. Hann verður ríkari eftir að hafa kynnst þessum krökkum. Í síðustu viku var bekkurinn að gera verkefni um nöfn og taka viðtöl við hvert annað um uppáhaldslit, ávöxt o.s.frv. Í þessari viku eru þau að læra um afmælisdaga og mánuði.
Ég hitti Ms. D, kennara Huga í dag til að ræða hlutverk mitt sem "room parent". Í því felst að skipuleggja dagskrá fyrir foreldrana þegar Ms. D vill fá þá inn í bekkinn til aðstoðar. Mér líst vel á þetta verkefni, flott fyrir pródúsentinn, vonandi verða foreldrarnir jafn meðfærilegir og skemmtilegir og idolbörnin mín síðasta vetur!
Ég náði mér í kvef í gær, ég var svo mikið á ferðinni, í loftkældum lestum og á göngu í hitanum inni á milli, fullkomin uppskrift að loftkælingarkvefi. Það er mjög rakt þessa dagana, eiginlega ómögulegt að vera útivið. Ég ferðast um með blævæng sem Yongjia færði mér og hann bjargar mér oft frá köfnun finnst mér.
Í næstu viku stefni ég á að byrja í kínverskunáminu, vonandi hef ég tíma á milli búðarferða, kaffimorgna með mömmum og annarra starfa. Ég verð að segja það að ég gleðst yfir því að hafa nóg að gera, þó ekki of mikið, allt er gott í hófi.
Dalla

No comments: