Monday, June 29, 2009

Sumarfrí

Við höfum haft það gott það sem af er fríinu. Við fengum Emmu og Hadley í heimsókn og svo eru þær flognar heim til Portland í Oregon. Boggi og Örn gistu hjá okkur eftir heilmikið playgroup sem ég hélt í síðustu viku. Þar var metmæting, nágrannarnir bættust við mömmuhópinn og stóru krakkarnir komnir í frí líka. Lí bakaði pönnukökur ofaní krakkana og ég gerði kúskússalat og quiche og ávaxtaprengju handa mömmunum og pöbbunum tveimur. Þessar samkomur eru að verða flottari hjá okkur, það nýjasta er að bjóða upp á smá léttvín en í byrjun drukkum við bara kaffi. Börnin stækka og eru farin að hreyfa sig mikið, þrjú þeirra ganga og hin skríða eða velta sér um gólfið.

Það hefur verið óvenju mikið um gestagang hjá okkur líka. Árni Snævarr og Ásgerður dóttir hans komu við hjá okkur og fengu afnot af kojunum. Við borðuðum saman sushi á uppáhaldsstaðnum okkar Haiku. Björk og fjölskylda voru í Kínareisu og enduðu dvölina á Sjanghæ. Þau komu við hjá okkur og ég lóðsaði þau um hverfið mitt og í gær fórum við saman í dýragarð fyrir utan borgina.

Lí hefur verið upptekin við barnapössun á kvöldin líka því við Kjartan fórum í fertugsafmæli og skoðuðum nýja skrifstofu leikjafyrirtækis í opnunarpartíi.

IMG_4838

Eyja er spennt fyrir strákadótinu, gengur oft um með sverð í hendi.

IMG_4857

Strákasúpa að kvöldi dags.

IMG_4876

Eyja kát á leið í dýragarð.

IMG_4882

Hugi fékk koss frá sæljóni.

IMG_4899

Arinbjörn, Kolbeinn, Benedikt og Björk lenda á mynd hjá aðdáanda Eyju í dýragarðinum.

IMG_4909

Þessir voru hættulegir, reyndu að gogga í okkur.

IMG_4911

Huguð kona.

IMG_4916

Einn fíll lagði af stað í leiðangur…

IMG_4918

IMG_4922

IMG_4935

Pandabjörninn sat og úðaði í sig bambus.

Dalla

Wednesday, June 24, 2009

Veisluhöld

Hugi kom glaður heim úr gistingunni með vinkonunum á laugardaginn. Hann var þreyttur vegna lítils svefns og neglurnar lakkaðar bleikar, bæði á fingrum og tám. Bræðrunum er báðum boðið í gistingu hjá Hadley og Emmu næstu helgi, með fleiri vinkonum. Það er hálf sorglegt að í lok árs er maður lokins að kynnast sumum foreldrunum í bekknum og krakkarnir orðnir svo miklir vinir. Ég skil ekki þessa stefnu að brjóta upp bekkina árlega, mér finnst nóg að börnin fái nýja kennara árlega.

Þakkarvikunni miklu lauk á því að börnin áttu að klæðast uppáhaldslit kennarans einn skóladag. Hugabekkur ákvað að klæða sig eins og Mr. Blanck og hann er freknóttur og rauðhærður svo Hugi skartaði freknum þegar hann fór í skólann.

IMG_4674

IMG_4680

Bræðrakærleikur á föstudagsmorgni.

IMG_4683

Allir tilbúnir til brottfarar við hliðið. Eyja grætur oft þegar bræðurnir fara af stað en vinkar líka.

IMG_4690

Conor vinur Stirnis kom í heimsókn eftir skóla og þeir hittu þennan leikfélaga á göngu um hverfið okkar.

IMG_4693

IMG_4694

IMG_4699

Strákarnir eru ekki vanir að fara mikið um einir en á föstudaginn fann ég ekki Huga í næsta nágrenni og byrjaði að leita að honum. Gömul kona benti mér í átt að götunni hinumegin við bakgöturnar okkar og þar stóð Hugi og fylgdist með framkvæmdum. Ég bað hann um að koma heim en hann hughreysti mig og sagðist verða tíu ára á þessu ári svo það væri nú í lagi að hann færi í rannsóknarleiðangur einn.

IMG_4701

Þegar ég kom til baka frá Hugaleitinni voru vinkonurnar Eyja og Lí komnar út að leika.

IMG_4703

Þær hittu lítinn félaga.

IMG_4706

og Eyja heilsaði með sínu hæ.

IMG_4709

IMG_4710

Við héldum allsherjar kveðjupartí í raðhúsalengjunni okkar. Vinskapurinn milli okkar nágrannanna hefur verið mikill og samgangurinn líka mikill. Börnin leika saman úti og inni og öll dýrin í skóginum eru vinir. Við vorum að ræða það að engar erjur hefðu komið upp milli okkar, allt svo ljúft og gott. Ætli maður eigi nokkurn tímann eftir að eignast svona góða nágranna aftur.

En hátíðahöldin byrjuðu með varðeldi í portinu:

IMG_4711

Og svo var hópmyndataka:

IMG_4739

Efri röð frá vinstri: Kjartan, Eyja, Dalla, Kerstin, Mattias, Nelly, Elin og Fredrik.

Neðri röð: Hugi, Stirnir, Philip, Andrea, Carolina og Ebba.

IMG_4747

Ebba, Nelly og Carolina

Við grilluðum saman og sungum í Singstar. Nágrannakonurnar eru fínar söngkonur og Stirnir er orðinn ansi flínkur líka.

Í skólanum var haldið lokapartí í bekkjunum. Partíið í Hugabekk leystist upp í mikið fjör, krakkarnir skrifuðu á boli hvers annars.

IMG_4763

Emily fær áritanir frá Luca og Arthur

IMG_4766

Arthur skrifar á Huga

IMG_4770

Kennarinn Brian Blanck

IMG_4774

Cameron og Hugi

IMG_4775

Allie vinkona Huga en vinahópurinn er hún, Cameron, Emily, Hadley og Hugi.

IMG_4781

Hadley og Hugi

IMG_4783

Hugi merkir Hadley

IMG_4785

Cameron fær áritun og Lotte borðar köku

IMG_4788

Hadley merkt Huga en þau voru bæði sammála um það þegar þau kvöddust að þau hefðu fundið sinn besta vin í Sjanghæ í hvort öðru.

Partíið í Stirnisbekk var aðeins rólegra. Börnin mauluðu nammi og afhentu Mrs. Wiser hópmynd af bekknum.

IMG_4797

Kate Wiser kennari Stirnis

IMG_4798

Stirnir upptekinn við nammileik

IMG_4805

Conor vinur Stirnis

IMG_4810

Og Alp líka vinur

IMG_4813

IMG_4816

Rétt fyrir brottför í skólabílnum. Skólabílarnir bíða um 100 talsins eftir að leggja af stað fyrir utan skólann og það er eins og að stinga höfðinu inn í ofn, þannig er hitastigið inni í bílunum.

IMG_4828

Ég keypti grjónapúða handa börnunum og hérna eru Stirnir og Eyja í afslöppun á púðunum.

IMG_4830

Það er líka búið að hnoðast mikið með púðana og hérna gera bræðurnir tilraunir, Stirnir liggur á gólfinu, þrír púðar ofan á honum og efst trónir Hugi. Enginn meiddist við þessa tilraun.

Stirni hefur farið mikið fram í vetur að skrifa stutta texta. Hann er oft ekki margmáll, erfitt að draga upp úr honum hvað hann gerir í skólanum, en hann virðist segja skemmtilega frá helgunum í Weekend window:

On my weekend I went to my friends house. We made a toilet outside and we went fishing in the pond. We only got one black fish in our fish ball.

On my weekend Philip had a sleepover at my house. We played video games until 12 o´clock. We had donuts for snak, it was so good!

On my weekend I got a new video game! It is called the Simpsons game. Now it is my favorite game but the worst thing about it is that when you win a levle you can´t play that levle again. My favorite levle is th elf levle.

Yesterday me and my brother went to a our freands house to  do so fun activities! W made santas and I made a big one. We alsoe made gingerbread.

Yesterday me and my dad just finished a huge jigsaw puzzle! It was so fun and so hard.

This is Eya´s birthday party. Her presents were a car and a puzzle that maces music and a a biger car and a buket that you can put shapes inside.

Stafsetningin er hans.

Hugi skrifar heilu sögurnar og hér er saga sem hann skrifaði um nýtt nammi:

It would taste like butter. I makes your poop green. That is the reason it is called green poop. It looks like an eraser. This is the odd: A child comes home from school, he forgot his key inside and no one was home. He really has to poop. So he ate green poop and pooped in the grass, it was green. He finally was finished and sat down and waited. Here came the mom “wow, for a while I thought that was poop but it´s just my green grass” said the mom.

Tuesday, June 09, 2009

Síðustu metrarnir fyrir frí

Nú fer að nálgast sumarfrí hjá Huga og Stirni, bara rúm vika eftir af skóla. Þessar síðustu vikur einkennast af miklum veisluhöldum, afmæli, kveðjuveislur, leikjadagar í skólanum og samkomur ýmiskonar.

Stirnir bauð til leiklesturs ásamt bekknum sínum og tveimur fyrstu bekkjum. Hann las hlutverk tröllsins í Geitunum þremur og stóð sig með ágætum, röddin var hræðileg og hann hneig út af þegar geitapabbi mætti honum á sviðinu. Eftir leiklesturinn fylgdumst við Eyja með Huga á leikvellinum í pokahlaupi og vatnsblöðruslag sem var hluti af dagskrá leikjadagsins.

Þessi vika er tileinkuð þökkum til kennara, frekar amerískt því eins og Hugi benti á þá borgum við skólagjöld sem borga laun kennaranna sem eru að vinna vinnuna sína. En það er falleg hugsun að baki og í dag áttu börnin að færa kennurum blóm og áðan sátu bræðurnir og skrifuðu þakkarkort. Stirnir teiknaði fallegt hjarta og inni í því stóð stórum stöfum: I love you. Mrs. Wiser hans umsjónarkennari fær þennan glaðning á morgun. Hugi skrifaði utan á umslag til Ms. Library og í kortinu stóð þetta: Thank you for letting me borrow many books. Ms. Lala tónlistarkennari fékk þakkir fyrir að kenna honum að spila á blokkflautu og Mr. Blanck umsjónarkennari fékk þessi skilaboð: Thank you for teaching me so much!

Hugi bar upp þá bón í gær að hann fengi leyfi til að setja göt í eyrun, eða holur í eyrun eins og hann orðaði það. Ég var ekki spennt fyrir því og sagði að hann yrði alveg eins og stelpa með síða hárið og eyrnalokka í báðum eyrum en mótrök hans voru þau að sjóræningjar væru með eyrnalokka og ekki væru þeir stelpulegir. Í dag var hann hættur við allt saman, sagðist ætla að bíða þangað til hann yrði eldri. En hann var spenntur þegar hann kom heim úr skólanum því  hann var með boðskort í vasanum, afmæli og sleepover hjá Allie vinkonu sinni ásamt tveimur öðrum vinkonum. Hann segist eiga bara stelpuvini í skólanum og einu sinni áður var honum boðið í gistingu með  hóp stelpna en afmælisbarnið tók það upp hjá sjálfri sér að bjóða Huga og það fór þannig að mömmu afmælisbarnsins leist ekki á að hafa strák með í stelpuhópnum og það urðu mikil vonbrigði. En núna er ég búin að hringja og boða komu Huga til Allie á föstudagskvöld til laugardagsmorguns, allt klappað og klárt.

Eyja er farin að labba út um allt. Hún var í hláturskasti fyrstu dagana sem hún gekk um, hló út í eitt. Nú nýtir hún sér óspart að geta fært hluti á milli staða. Hún talar meiri kínversku en íslensku. Segir mamma og baba en bræðurna kallar hún gögö sem þýðir stóri bróðir á kínversku. Hún sest upp í rúminu á morgnana og þegar hún heyrir í strákunum bendir hún fram og segir gögö. Þegar hún kallar á Lí segir hún lai, lai, lai sem þýðir komdu. Hún segir  namm namm þegar hún borðar og elskar að dansa við tónlist. Við syngjum mikið saman og Hugi og Stirnir sitja hjá okkur og syngja með vísnabækur. Eyja þekkir myndirnar í bókunum og gerir hreyfingar þegar við á, klappar og sýnir fingur þegar við syngjum um þá. Hún vill leika lengi úti, fer í æfingatækin hérna fyrir utan hlið og við tökum á móti bræðrunum þar þegar þeir koma heim úr skólanum. Um helgina vorum við á tveimur stöðum þar sem voru rennibrautir og hún var óstöðvandi í þeim. Í síðustu viku fórum við í garð með lítilli vinkonu og þær prófuðu hringekjuna og munnurinn á Eyju var opinn allan tímann vegna gleði.

Fyrir nokkru skipulagði Íslendingafélagið lautarferð í garð fyrir utan borgina. Þar voru 7 fjölskyldur með börn á aldrinum 6 mánaða til níu ára. Hugi er elstur og hann er stoltur af því að vera elsta íslenska barnið í Sjanghæ. En eldri börnin sáust varla allan daginn, þau sulluðu í laug og léku á manngerðri strönd.

IMG_4529

Baddi, Eiríkur og Magnús.

IMG_4545

Ásta Magnúsdóttir situr í grasinu. Eyju líkaði vel að ganga í grasinu en hún öskraði upp yfir sig þegar hún steig í sandinn, linnti ekki látum fyrr en hún var tekin úr sandinum.

IMG_4551

Hluti hópsins

Í síðustu viku rak góður gestur frá Frakklandi inn nefið. Cedrick er frændi Kjartans, þeir eru systkinabörn. Hann höfðum við ekki hitt síðan við bjuggum í Nice 1991. Það var gaman að hitta hann og rifja upp kynnin, hann var bara unglingur þegar við sáum hann síðast en nú er hann tveggja barna faðir og var hér á viðskiptaferðalagi.

IMG_4581

Cedrick og frændsystkinin

Á sunnudaginn birtist Hilmar hjá okkur og fékk gistingu í gestaherberginu. Bræðurnir eru vanir að sofa þar saman en létu sig  hafa  það að fara upp í ris í kojurnar meðan Hilmar dvelur hjá okkur. Hilmar þekkja þeir vel frá Havaii ferðinni í fyrrasumar og Eyja heilsaði upp á hann við komuna.

IMG_4588

IMG_4591

Við kældum okkur með þýskum bjór á Paulaner

IMG_4601

Strákafjör

IMG_4606

Hugi fær far með Hilmari. Þarna sést nokkuð vel hvað hárið er orðið sítt, það nær langt niður á bak þegar það er blautt.

Dalla