Tuesday, May 22, 2007

Strákarnir fengu kærkomið frí frá æfingum fyrir hæfileikasýninguna á fimmtudaginn því þeim var boðið í heimsókn til Callums og Robbie eftir skóla. Æfingin gekk vel, miklu betur en á þriðjudag og ég andaði strax léttar.
Hugi og Stirnir voru að leika sér með Robbie og hundinum þegar ég kom að sækja þá og voru ekkert glaðir að sjá mig svona fljótt eða eftir tæpa 3 tíma. Fjölskyldan er bresk svo mér var boðið upp á gin og tónik á skoðunarferð um húsið. Ég hef aldrei séð svona stórt íbúðarhús hérna í borginni, þrjár hæðir mjög rúmgóðar og fjölskyldan er með kokk og tvær barnapíur í sinni þjónustu. Ein barnapían býr á staðnum og sinnir 12 vikna gömlu ungbarninu. Þetta er skemmtilegt fólk, þau búa í sömu götu og Cathra og Troy og hafa vingast við þau líka.
Föstudagurinn fór í síðasta undirbúning fyrir sýningu, við kláruðum skreytingar á salnum og undirbjuggum mötuneytið, settum upp bar þar. Við, Vivian og Christina fengum okkur svo hádegismat saman fyrir samkomuna á sal síðdegis. Stirnir kom fram með sínum bekk. Þau fluttu svokallað banana cheer sem er hefð að flytja þegar einhver kemur með banana í nesti. Þau sýna með látbragði hvernig á að flysja banana, skera hann og borða. Svo söng bekkurinn Love me do af fullum krafti og lék með. Stirnir stóð sig vel, tók þátt og naut þess að vera á sviðinu.
Kúng fú var næst á dagskrá í íþróttasalnum. Kennarinn vill að Hugi taki gráðu í byrjun júní, ég veit nú ekki alveg hvaða gráða það er, þarf að ræða það betur við kennarann. Ég þurfti að hlaupa út og ná leigubíl, skila strákunum heim og rjúka aftur af stað upp í skóla.
Sýningin um kvöldið heppnaðist vel. Margir spiluðu á píanó, einn á ukulele og ein á kínverskt strengjahljóðfæri. Hsuan Hsuan í Hugabekk spilaði á fiðlu og ein lítil sýndi töfrabrögð. Margir sungu, bæði einir eða í hóp og nokkur dansatriði, þar á meðal Abbaatriði og húladans frá Hawai tókust bara vel. Strákur í þriðja bekk sýndi kúng fú, hann sveiflaði sverði fagmannlega í kringum sig. Krakkarnir voru fín og flott í búningum við hæfi, í Kína er auðvelt að láta sauma á krakkana og margir höfðu lagt mikið í búninga. Því miður náði ég ekki að taka einu einustu mynd þó ég væri með myndavélina með mér.
Á laugardaginn fóru bræðurnir í tónlistarskólann að venju og Huga var boðið á playdate til Isabel á eftir en Stirnir fór í afmæli til Lucasar. Hugi var vel sveittur þegar ég sótti hann, búinn að hoppa á einhverskonar hoppupriki allan tímann skildist mér. Stirnir var glaður í afmælinu, Hugo og Aurelie eru foreldrar Lucas og þau búa í húsi með stórum garði og fínasta garðpartí með risaeðluþema var vel heppnað.


Vinir og bekkjarfélagar, Lucas og Stirnir


Kanínan sem býr í garðinum hjá Lucasi


Stirnir með Naomi sem tilkynnti víst mömmu sinni um daginn að hún vildi giftast Stirni vegna þess að hann væri fyndinn

Á sunnudaginn vorum við bara heima, fórum í búð og keyptum osta, lax og salami og áttum kalt rósavín í ísskápnum. Cathra og Troy komu við með krakkana sína og sátu úti á verönd með okkur, krakkarnir léku úti og inni.

Dalefjölskyldan á sínum fararkosti


Hugi og Filip fengu eina salibunu

Hugi er mættur út að leika upp úr klukkan átta á morgnana, hann bankar á dyr í næstu húsum til að leita sér að leikfélaga. Hann var eitthvað vængbrotinn þegar allir fóru og vildi fá fleiri vini en þá fengu bræðurnir þá hugmynd að fara í vatnsslag hérna í portinu. Þeir voru á nærbuxunum einum fata og skóm og sprautuðu svo á hvorn annan, mikið fjör.Dalla

Wednesday, May 16, 2007

Það er um að gera að koma helgarfréttunum inn áður en næsta helgi byrjar, svona líður tíminn hratt hjá okkur.
Á laugardagsmorgun fórum við á Basar í skóla strákanna. Þarna er ýmis gjafavara til sölu og heimilisiðnaður. Skólastjórinn selur póstkort sem hann útbýr sjálfur, Mr. Flesher selur vörur sem hann flytur inn frá Víetnam og Troy vinur okkar ljósmyndir. Þetta eru svona dæmi og margt fleira í boði. Hugi linnti ekki látum fyrr en við vorum búin að festa kaup á nýjasta geisladiskinum en hann er með tónlist húsbands skólans, Jiangsu Blues Band. Þetta eru stefin sem bandið leikur á föstudagssamkomum og fleiri lög, Kjartani fannst þetta fyndin hljómsveit en varð að viðurkenna við nánari hlustun að skólastjórinn er ágætur bassaleikari.
Við keyptum ýmislegt af Mr. Flesher, Hugi valdi sér hálsmen sem hann skartaði alla helgina, hann hikaði á milli hálsmensins og armbands, það lítur út fyrir að hann sé glysgjarn. Stirnir valdi sér fjólublátt seðlaveski, við eigum okkur sömu uppáhaldsliti. Strákarnir græddu líka nýja búninga, kúrekabúninga sem gera þá mjög myndarlega.
Í tónlistarskólanum viðraði ein mamma þá hugmynd að bjóða bræðrunum á playdate næstu helgi eftir tíma. Dóttur hennar langar til að fá þá í heimsókn. Ég tók vel í það og fékk nafnspjaldið hjá henni, ég kíkti svo á það betur áðan og sá að hún er konsúll Bretlands í Shanghai, titluð hennar hátign konsúllinn.
Um kvöldið fórum við Kjartan í afmæli, Kjartan kom frá Hong Kong síðdegis, fór í skreppitúr með Hilmari sem var hérna staddur, gisti hjá okkur, góð nýting á gestaherberginu. Spurning um að fólk fari að leggja inn pantanir, ekkert bókað út árið, ennþá.
En okkur var boðið í fertugsafmæli hjá Hollendingnum fljúgandi Hugo, Aurelie konan hans kallar hann þetta vegna þess hve oft hann þarf að ferðast vegna vinnu. Við slepptum leisertaginu, fengum okkur bara fordrykk í staðinn og hittum afmælisgestina sveitta á veitingastað. Hugo bauð öllum í mat, örugglega 40 manns og við Kjartan töluðum aðallega frönsku allt kvöldið, gott að æfa hana öðru hvoru.

Daginn eftir var fundur með Íslendinum í borginni, kannski ekki alvarlegur fundur, við hittumst yfir hádegisverði og nokkur ný andlit bættust við. Í þetta skipti á O´Malleys svo börnin gætu hlaupið um. Þau voru reyndar bara róleg, þarna voru kisur í búrum sem voru að leita sér að nýju heimili, og kisurnar fengu mikla athygli barnanna.

Þá lá leiðin í barnaafmæli, þriðja afmælisveislan þessa helgina. Afmælið var haldið á Ritz-Carlton hótelinu en afmælisbarnið, Kean í Hugabekk býr þar. Hann hélt upp á afmælið með Kyle litla bróður sínum og báðum bekkjum þeirra bræðra var boðið og örugglega 50 manns til viðbótar, samtals minnst 100 manns. Svona afmæli eru bara í Shanghai, nema kannski hjá einhverjum olíufurstum. Veislan var á 8. hæð hótelsins á leiksvæði sem er útivið, risahoppukastali var blásinn upp og veitingar voru af ýmsum gerðum. Nammibar fyrir börnin, rauðvín og hvítvín fyrir fullorðna og ýmislegir girnilegir smáréttir. Á staðnum var fólk sem sá um leiki með börnunum og þjónar á hverju strái til að hjálpa með diska og færa gestum drykki. Þetta var ágætis hvíldartími fyrir foreldra, hugsað um börnin af fagmennsku.
Pabbi Keans er viðskiptajöfur frá Singapore, indæll maður og mamman líka indæl, þau fluttu til borgarinnar fyrir þremur mánuðum og eru búin að koma sér upp svona mörgum kunningjum eða vinum.


Bræður á tali á afmæli


Stirnir í hoppukastala með skýjakljúfa í baksýn


Hugi náði sér í fullt af nammi leik

Eftir miklar skylmingar með blöðrusverð náðum við að draga drengina með okkur heim og þá var helgin búin.

Þessi vika er ansi erilsöm hjá undirritaðri. Ég hef verið að undirbúa hæfileikasýningu barnanna í skólanum með þáttöku 60 barna, síðustu vikur hafa verið æfingar tvisvar í viku, einu sinni með yngri börnunum 4 til 7 ára og einu sinni með þeim eldri 8 til 10 ára. Þessa vikuna keyrum við alla sýninguna í gegn með öllum börnunum sem þýddi að æfingin stóð frá 3 til 6 í gær. Ég er farin að vorkenna Huga og Stirni því það þýðir að ef ég er uppi skóla þurfa þeir að vera þar líka. Þeir eru semsagt á námskeiðum tvo daga í vikunni og tvo daga hanga þeir eftir mér, annaðhvort upp í samkomusal og þá dansa þeir stundum á sviðinu þegar einhver spilar á píanóið eða leika úti á leikvelli. Þeir þvertaka fyrir það að vilja taka þátt, reyndar stakk ein mamman upp á því við mig að setja þá upp á svið og setja tónlist í gang og þá myndu þeir dansa. En ég er ekkert að pína þá, er bara fegin að þeir séu ekki enn einn stressfaktorinn í sýningunni sem verður á föstudagskvöld. Ég á svo sannarlega eftir að anda léttar þegar henni verður lokið, stundum er spurning hvort það sé erfiðara að eiga við foreldrana en börnin. Christina og Vivian eru mínar aðstoðarmanneskjur og ég gæti ekki haft betra fólk með mér. Ég tók þetta að mér í haust þegar ein stjórnarmanneskjan í foreldrafélaginu bað mig um það, ég vissi ekkert hvað ég var að fara útí þá. Nú eru kosningar í foreldrafélagið á föstudag, ein var að ýta á mig hvort ég vildi ekki sækjast eftir stöðu í nýrri stjórn. Ég get ekki sagt að ég sé alltof spennt núna.

Í dag var dagur vettvangsferða. Stirnir fór með sínum bekk á blómamarkað, keypti blóm og sá ýmis dýr, héra, kóngulær og fiska. Hann hafði frá miklu að segja í kvöld.
Ég fylgdi Hugabekk í blómagarð en bekkurinn er búinn að læra um plöntur síðustu vikur og nú átti að skoða þær í návígi. Börnin voru með blöð til að lita myndir af plöntum og skrifa smá um þær, Ms. D gat þess nú líka að þau mættu skemmta sér. Hún gaf út þær leiðbeiningar að við þyrftum ekki að fylgjast að í hóp og Hugi og Lucy sem var í minni umsjá tóku það bókstaflega og flögruðu með mér burt frá hópnum. Annie frá Svíþjóð fylgdi okkur líka með Susan mömmu sinni, þær eru nýkomnar til Kína.


Hoppað fram af smábrú


Vatnaliljan var valin vegna þess að hún er svo flöt


Hugi og Lucy stóðust ekki þetta tipl


Vísindamaður að störfum í regnskóginum


Kjartan verður ánægður með þessa mynd, Hugi á milli Annie og Lucy


Bambus var ein plantan sem krakkarnir völdu sér að teikna og ástæða Huga fyrir að velja bambusinn var: Because it´s very hard to break!


Hópmynd af bekknum, Ms. D og mömmum


Þessi skjaldbaka sat á steini


Höfrungabekkurinn

Þetta var mjög skemmtilegur dagur og þegar ég leit yfir hópinn sá ég vel að minn maður var skítugastur af öllum, svartur á höndum og í andliti og bolurinn útkámaður. Enda skreið hann ofan í 2 holur, elti frosk og velti sér upp úr möl til að gera engil.

Umræða kvöldsins var um nefið á mér. Í gær var heimaverkefni Huga að mæla ýmsa hluti á heimilinu, meðal annars nefið á mér. Kjartan ætlaði að vera sniðugur og spyrja Huga hvaða mamma hefði nú haft lengsta nefið og hann fékk þessar líka góðu undirtektir hjá sonunum. Það var nú ekki staðfest að ég væri með lengsta nefið en Hugi leit á mig og sagði sem svo: Mamma, þú ættir að líta í spegil, nefið á þér er svakalega langt! Og svo vildu þeir báðir, hann og Stirnir draga mig að spegli til að ég gæti staðfest þetta sjálf. En Hugi klykkti svo út með því að segja: Mamma, það er allt gott um þig, nema nefið!
Dalla með nefið langa

Friday, May 11, 2007

Vikan hefur verið annasöm hjá okkur og við sjáum fram á skemmtilega helgi sem byrjaði í gær með afmæli Bogga. Við komum svolítið seint í afmælið því bræðurnir fóru á kung fú æfingu eftir skóla. Kennarinn kom með sverð og þeir fengu aðeins að æfa með þau, núna er þetta að verða spennandi. Huga langar að æfa skylmingar segir hann en kvikmyndin kínverska Hero hefur kveikt í honum, hann er búinn að ná þónokkrum kung fú hreyfingum úr þeirri mynd og æfir sig mikið með sverð.
En við ætluðum semsagt að ná leigubíl en það voru svo margir að bíða eftir bíl að við fórum í lestina sem er rétt við skólann og komumst út í Hongqiao þar sem Boggi býr á nokkuð skömmum tíma. Þegar við komum út úr lestinni ætluðum við að ná í leigubíl síðasta spottann en við lestarstöðvarnar eru stundum menn á mótorhjólum sem hafa það að atvinnu að koma fólki á áfangastað. Þarna var staddur maður með rikshaw, reyndar rafmagnsknúið en við fengum far með honum og ætluðum að koma með grand entrance í veisluna. Ferðin tókst vel þó Stirnir kvartaði yfir því að sitja undir pokafargani, bæði afmælisgjafir og afrakstur ferðar undirritaðrar í HM. En við hliðið inn á svæði afmælisbarnsins var vörður sem vildi ekki hleypa okkur á vagninum inn svo við löbbuðum bara síðustu metrana.
Afmælið var skemmtilegt, pizzuveisla utandyra og krakkarnir hlupu um, hjóluðu og hoppuðu í hoppukastala. Við fórum síðust að venju, drengirnir fóru saman í bað eins og er að verða að hefð eftir afmælisveislur.
Helgin er fullbókuð, við ætlum á basar í skóla strákanna á eftir, svo er það tónlistarskólinn og að lokum förum við Kjartan í fertugsafmæli í kvöld hjá Hugo og Aurelie. Á morgun hittast Íslendingar yfir hádegisverði og okkur er öllum boðið í barnaafmæli síðdegis hjá Kean bekkjarfélaga Huga.

Í gær var mæðradagurinn og ég fékk falleg kort frá bræðrunum.
Stirnir skrifaði sjálfur á kortið: Happy mothers day, love Stirnir! Á kortinu er mynd af fallegu blómi, mömmu sem stendur á grasflöt, sólin er hátt á lofti og ánamaðkur skríður ofan í jörðinni. Myndina prýða líka blaðra, hjarta, húsið okkar og geimvera. Í kínverskutímunum í vikunni hefur verið fjallað um mömmu og hann átti að teikna myndir af hlutum sem ég elska, mitt uppáhald. Uppáhaldslitirnir mínir eru fjólublár, grænn og blár samkvæmt Stirni og uppáhaldsmaturinn minn er pizza (uppáhald Stirnis líka),gulrót, ís, sveppir og salat. Uppáhaldsfötin mín eru kjóll. Hann hittir bara nokkuð rétt á þetta. Hann lærði líka um karakterinn kona og hestur sem samansettir mynda mamma.
Hugi teiknaði fallega mynd af mér í fjólubláu pilsi, rauðri peysu með stórt bros. Textinn á kortinu er svona: You cook dalisues cake for my birthday. You buy candy every day. And you pay money for me to be in school. I love you. Thank you for buying me an piano. What is your favorite animal? And what´s your favorite day? Love Hugi.
Þetta er með stafsetningu Huga. Ég held að hann sé að hugsa um fátæku börnin sem geta ekki farið í skóla og þessvegna þakkar hann mér fyrir að borga skólagjöldin. Ég kannast nú ekki við að kaupa sælgæti á hverjum degi, hann er nú ekki einu sinni sælgætisgrís sjálfur.
Góða helgi, Dalla

Sunday, May 06, 2007

Við héldum tvisvar upp á Dag jarðarinnar í apríl. Fyrst með Heklu, Magnúsi, Bogga og Erni í skóla þeirra bræðra. Skólinn er staðsettur inni í dýragarði borgarinnar og þar var mikil hátíð einn laugardag um miðjan mánuð. Íslenska fjölskyldan hafði lagt mikla vinnu í að útbúa veggspjald með útskýringum á eldgosi og eldvirkni Íslands, mjög flott hjá þeim. Strákarnir fengu að klifra á klifvegg og klifruðu líka á því sem fyrir varð eins og stráka er siður.Boggi kom fram í brúðuleikriti með bekknum sínum, lék aðalhlutverkið og stóð sig með mikilli prýði. Strákarnir sátu fremst til að fylgjast með vini sínum/bróður og klöppuðu fyrir honum. Þeir kíktu líka bakvið til að sannreyna að það væri Boggi þarna bakvið.Tveimur dögum seinna var haldin samkoma á sal í skóla Huga og Stirnis vegna Dags jarðarinnar. Börnin áttu að koma í búningum sem þau áttu að útbúa sjálf úr endurunnu efni, gömlum fötum eða þvílíku. Það voru hæg heimatökin á þessum bæ svona stuttu eftir flutninga svo bræðurnir ákváðu að gera búninga úr pappakössum. Hugi vildi hafa höfuðfat á sínum búningi en Stirnir ekki.


Hugi á leið í skólabílinn að morgni


Skundað á samkomu með Ms. D


Michelle og Champion bekkjarfélagar Huga


Tveir árgangar á sviðinu syngja lag um jörðina, Stirnir er í grænum kassa fyrir miðri mynd

Árgangur Huga rappaði á sviðinu og Hugi stóð sig vel, Stirnir og félagar sungu tvö lög. Tveir úr hverjum bekk voru valdir af sínum félögum til að sýna búningana sína uppi á sviði og Hugi og Stirnir fóru báðir upp á svið.
Mr. Flesher sagði mér það að Stirnir hefði borðað morgunnestið sitt inni í kassanum. Hann setti líka bara hausinn ofan í kassann þegar hann varð feiminn á sviðinu.

Við Kjartan fórum að sjá Íslenska dansflokkinn hérna í Shanghai, þetta var flott sýning hjá þeim. Við buðum Cathra og Troy með okkur og nokkrir vinnufélagar Kjartans komu líka. Á eftir fórum við út að borða með Cathra og Troy, Heklu og Magnúsi og kíktum aðeins á bar líka, mjög gaman.

Núna er frívikan okkar að klárast, kínverjar fá þriggja daga frí kringum fyrsta maí og það teygist oft upp í viku. Skólafríið var vika hjá strákunum og skólinn byrjar aftur á morgun.
Við erum búin að vera mest heima, veðrið hefur verið nokkuð gott og strákarnir eru búnir að leika mikið, bæði úti og inni. Filip sænski og Karolina litla systir hans eru orðin heimagangar hérna, sænsku stelpurnar tvær við hliðina fóru til Víetnam.
Einn daginn sinnaðist Huga við mig og hann ákvað að flytja með sitt hafurtask útfyrir hlið. Filip og Stirnir fylgdu honum og þeir settu upp búðir í tveimur tjöldum.


Hugi hírist í tjaldi í mótmælaskyni


Nágrannar spila. Spilið gengur út á það að einn er með spil með mynd á höfðinu án þess að sjá á það og spyr hina spurninga til að finna út hvað er á myndinni.


Hugi í kung fu æfingum í portinu okkar

Í vikunni var okkur boðið í sveitaklúbb í nágrenni Shanghai. Það var tævönsk fjölskylda í Hugabekk sem bauð okkur og fleiri vinum sínum að eyða deginum í klúbbnum. Við byrjuðum á því að fara í sund í skemmtilega sundlaug með rennibrautum og ýmiskonar nuddi. Sundlaugin var líka hlý og góð ólíkt köldu lauginni sem við erum vön. Eftir sundið borðuðum við saman hádegisverð en umræður fóru að mestu fram á kínversku. Ég vil ekki segja að við Kjartan höfum tekið mikinn þátt í þeim.
Eftir matinn vorum við keyrð á golfbílum að svæði þar sem var lækjarspræna og grillaðstaða og nokkur dýr voru þarna í kofum. Þetta var svona gervisveit en bara huggulegt þegar maður fer sjaldan út úr borginni.


Stirnir í lauginni


Hugi og Hsuan Hsuan í klifurgrind


Hugi og Hsuan Hsuan leggjast á eitt


Hsuan Hsuan, kölluð Coco vinkona Huga

Við Kjartan skutluðum bræðrunum til Bogga og Arnar einn daginn í vikunni. Við ætluðum í innkaupaleiðangur að skoða húsgögn. Við fundum ekkert við hæfi en veltum fyrir okkur hvort við ættum að fjárfesta í steinljóni, spurning hvernig það kæmi vel út á Suðurgötunni við innganginn. Hekla og Magnús buðu í grill um kvöldið og Lára og Baddi komu líka með dæturnar. Krakkarnir könnuðu hverfið að venju, þau eru voðalegir útigangar saman.
Daginn eftir fengu Boggi og Örn að gista hjá okkur. Það gekk bara vel, það urðu ein vinslit milli Huga og Bogga að morgni en þeir útkljáðu það í sverðaeinvígi og urðu bestu vinir aftur eftir það.
Síðdegis var okkur boðið í heimsókn til Champion bekkjarfélaga Huga ásamt fleiri vinum. Þetta varð að garðpartí á svæðinu þar sem börnin spiluðu badminton og hentu frisbídiskum. Ég var svo mikill klaufi að henda frisbídisknum út í tjörn í garðinum og við hófum strax björgunaraðgerðir. Það gekk illa þangað til Hugi fékk þá hugmynd að búa til brú út í litla eyju í tjörninni og ná diskinum þaðan. Við fundum spýtu og aðstoðarmenn komu henni fyrir. Hugi tiplaði svo eftir spýtunni og náði diskinum við mikinn fögnuð viðstaddra. Hann fékk mikið hrós frá öðrum gestum fyrir að vera úrræðagóður.
Í gærkvöldi þegar Stirnir fór í háttinn var hann að spá í það hvort hann gæti valið sér drauma. Helst af öllu vill hann dreyma að hann sé í leiðangri með fjölskyldunni að skoða risaeðlur, þær eru honum mjög hugleiknar.
Hugi er loksins búinn að missa aðra framtönnina sem hékk laus ansi lengi. Hann sagði þannig frá að hann hefði verið á skólalóðinni og einhver stelpa hefði sett stein upp í munninn á honum til að láta tönnina detta. Það gekk ekki en öll hersingin hélt þá ti hjúkrunarkonunnar með von um aðstoð en rákust þá á skólastjórann sem kippti tönninni úr.
Að lokum eru nokkrar myndir frá deginum en honum eyddum við í félagsskap Louca og fjölskyldu. Við borðuðum með þeim á veitingastað og hittum þau svo í garði í nágrenni við okkur sem heitir Ruijin. Strákarnir hjóluðu í garðinn, þeir eru orðnir miklir hjólagarpar enda á það við í Kína.

Stirnir neitar myndatöku á dramatískan hátt


Kjartan og Sophie með Cael


Hugi tannlausi uppi í tré


Louca líka í tré
Hugi og Louca gerðust Wedding crashers, þeir skelltu sér í eina af þremur brúðkaupsveislum í garðinum. Þeim var vel tekið og voru beðnir um að sitja fyrir með gestum sem þeir gerðu. Hugi fékk pepsiglas að launum og var hæstánægður með þennan díl.


Hugi að störfum


Hugi og brúðurin, þessi er aðeins úr fókus, ég var ekki nógu snögg.

Dalla

Thursday, May 03, 2007

Það þýðir ekkert annað en að gera Beijingferðinni áfram skil, ég vil ekki að hún gleymist alveg áður en ég næ að skrá hana niður.
Annað kvöldið í Beijing fórum við á akróbatasýningu. Hún var mjög fín þessi sýning, strákarnir sátu alveg heillaðir og fylgdust með.Þetta getur ekki verið þægilegt

Hvað komast margir kínverjar á eitt reiðhjól?

Daginn eftir keyrðum við út úr borginni að Kínamúrnum að stað sem heitir Mutianyu. Þar er stólalyfta upp á Múrinn og þónokkuð um ferðamenn en víst aðeins fáfarnari staður en Badaling sem er víst mjög vinsæll. Við fórum öll upp í stólalyftunni sem var hrikaleg lífsreynsla fyrir mömmu, svo svakaleg að hún ákvað að fara rennibrautina niður aftur. Ég veit ekki hversu margar ömmur renna sér þarna niður fjallshlíðina.

Við röltum um uppi á Múrnum, veðrið var nokkuð gott, sól og vindur.Bræðurnir rannsaka Múrinn að innan sem utanAmma og afi líta til allra átta
Barry keyrði okkur svo að litlum sveitaveitingastað. Hann var svo frumstæður að við sáum engan ísskáp á staðnum, drykkirnir voru bara geymdir uppi í hillu. Karlarnir gerðu tilraun til að veiða í matinn, en það gekk illa, ekki einu sinni þegar þeir voru orðnir vopnaðir háf.

Við gengum heilaga veginn á leiðinni aftur inn í borgina, þar eru styttur við eins kílómetra langan veg við Ming-grafirnar. Barry sagði okkur að það væri ekkert spennandi að fara niður í grafhýsin en vegurinn heilagi var fallegur.

Við fórum á Kung fu sýningu síðdegis, hún var nokkuð flott, svolítið kitsch.

Síðasta daginn í Beijing heimsóttum við pandabirnina í dýragarðinum. Þeir eru kallaðir risapöndur og voru bara frekar sætir.
Sumarhöllin var síðust á dagskrá. Þar gengum við í gegnum göng langlífis en margir staðir eru kenndir við langlífi hér, það virðist vera kínverjum hugleikið. Einnig koma auður og gæfa mikið við sögu.
Þarna voru Hugi og Stirnir búnir að fá nóg af musterum og höllum sögðu þeir. Umhverfið var mjög fallegt við Sumarhöllina en það var komið að því að ná lestinni aftur til Shanghai.

Á lestarstöðinni var mikil mannmergð en við ákváðum samt að freista þess að næla okkur í kjúklingabita á KFC fyrir heimferðina. Röðin í bitana var löng og við vorum orðin stressuð á tímabili um að við myndum missa af lestinni en allt tókst þetta. Við sofnuðum sætt í lestinni snemma að venju og sváfum til klukkan sex morguninn eftir en lestin kom til Shanghai um sjöleytið.
Bræðurnir fengu frí í skólanum þennan dag svona til að kynnast nýja húsinu. Við Kjartan drifum okkur í IKEA, meðal annars til að redda rúmi handa mömmu og pabba.

Næstu daga fóru í skoðunarferðir um borgina. Við skoðuðum Lu Xun garðinn en Lu Xun var rithöfundur. Í garðinum er skemmtilegt safn tileinkað honum og í nágrenninu er húsið þar sem hann bjó til dauðadags.
Einn daginn fórum við á Shanghai museum að skoða fornminjar og kíktum inn á Urban planning líka til að skoða líkan af borginni. Mömmu fannst sérstaklega áhugavert að sjá hvernig borgin liggur og staðsetja okkur á líkaninu sem er gríðarstórt.Amma og bræður í líkamsræktinni fyrir utan hliðið okkar. Þarna er iðulega fólk á öllum aldri í æfingum.Amma og afi bíða eftir að bræðurnir klári tónlistartímann á laugardögum. Í garðinum við tónlistarskólann er rólegt að sitja og hlusta á tónlistina sem ómar út um gluggana.


Við gengum öll eftir ánni einn daginn þegar foreldraviðtöl voru í skólanum og Hugi og Stirnir í fríi.

Á páskadag borðuðum við bröns á einu fínasta hóteli borgarinnar. Við hittum Heklu og Magnús með strákana sína og Atli og Svíinn Per sem vinnur hjá Össuri slógust líka í hópinn. Þetta var skemmtileg upplifun, maturinn var frábær á ýmsum stöðvum á tveimur hæðum. Kampavínið flóði allan tímann og skemmtiatriðin voru skemmtileg, sum kannski kitsh, akróbatar, listamenn sem bera grímu sem skiptir um andlit (face changing artist), danspör, hljómsveit og söngvarar. Það skrítnasta mátti nú sjá ef við litum upp á glerþak sem var hátt yfir salnum. Þar var verið að þrífa glerið og enginn annar en Batman var þar að störfum.
Strákarnir fjórir áttu sér athvarf í leikherbergi þar sem þeir fengu aðstoð við að mála egg og gátu leikið að vild.
Síðdegis vorum við ennþá í stuði og færðum fjörið hingað heim, pöntuðum pizzur í kvöldmat og sátum úti á verönd. Þetta varð eiginlega fyrsta partíið í nýja húsinu og heppnaðist vel. Það stóð nú ekki lengi, allir fóru heim um níuleytið enda ekki skrítið, við komum á hótelið um hádegi.

Síðustu helgi mömmu og pabba í Shanghai buðu Lára og Baddi ásamt Liv og Björk litlu í pulsupartí. Þau voru nýkomin frá Íslandi og höfðu SS pylsur með í farteskinu. Allir gæddu sér á pylsum með steiktum lauk og pylsusinnepi, algjört lostæti. Krakkarnir hlupu um hverfið, þeir mynduðu svona íslenskt gengi og skemmtu sér vel. Við hittum Björk litlu dóttur Láru og Badda í fyrsta skipti þarna og við dáðumst mikið að henni, hún er dugleg stelpa sem fellur ekki verk úr hendi. Verst að ég náði ekki góðri mynd af henni.Mamma og pabbi voru orðin mjög sjálfbjarga hérna síðustu vikuna. Þau gengu svo mikið um hverfið með aðstoð korts að þau þekktu það betur en ég, komu svo með fréttir heim síðdegis, þarna er grænmetismarkaður, fatahreinsun... Þau voru ánægð með að kynnast lífinu hérna í hverfinu sem íbúar frekar en ferðamenn enda er þetta skemmtilegt hverfi. Hérna í nágrenninu þvær fólk fötin sín í útivöskum, á móti okkur búa hjón sem elda allan sinn mat á svölunum og þvo sér líka morgunþvottinn þar. Líklega eru þau ekki með eldhús því ísskápurinn er þannig að maturinn hangir í pokum utan á svölunum. Þegar farið er í ruslið er fólk hérna sem vinnur við endurvinnslu og hirðir af okkur það sem er nýtilegt á leiðinni í tunnuna. Allir eru vinalegir hérna, þetta er eins og lítið smáþorp og við erum farin að heilsa fólkinu. Á horninu er pínulítil rakarastofa þar sem bræðurnir vildu endilega láta klippa sig. Ég hékk yfir klippurunum til að hindra snoðun og það tókst að einhverju leyti.
Hérna á næsta horni er líka skóli og síðdegis eru settir upp ýmsir standar þegar skóla lýkur. Kona steikir pylsur og setur upp á trépinna, viðskiptin fara bara fram við skólalok, námsmennirnir eru svangir eftir skóladaginn. Bræðurnir segja að Kínverjar séu síborðandi og það er nokkuð til í því, í nánast hverri dyragætt er eitthvað ætilegt til sölu og stundum hópast fólk að til að næla sér í bita.
Dalla