Kvöldstemmning í Qingdao, útsýni frá hótelsvölunum.
Ég gleymdi alveg að minnast á það að Stirnir safnaði nokkrum nýjum bannskiltum í sarpinn þar. Til dæmis var skilti á flugvellinum sem bannaði það að taka krabba með í handfarangri.
Stirnir hélt því fram líka að það væru skilti á götum Qingdao sem bönnuðu það að leggjast í götuna, við vitum ekki alveg hvaða skilti hann las þessa merkingu út úr.
Við fórum í skólann í dag til að hitta kennara strákanna, Ms. D kennir Huga, hún er viðkunnanleg kona. Ég heyrði að hún hefði farið í fallhlífastökk í sumarleyfinu, hún er nú samt á virðulegum aldri.
Hugi merkti hólfið sitt og við fengum upplýsingar um kennsluna. Hann verður í aukatímum í ensku til að byrja með og svo lærir hann líka mandarín/kínversku. Fyrir utan venjulegar kennslustundir fer hann í tölvukennslu, tónmennt og íþróttir. Það eru 15 krakkar í bekknum hans, við hittum eina ameríska stelpu en ég veit ekki hverra þjóða aðrir bekkjarfélagar eru.
Kennari Stirnis heitir herra Flesher, líka viðkunnanlegur maður sem er að kenna sitt fjórða ár í þessum skóla. Stirnir var hrifinn af sinni skólastofu enda nóg af dóti þar, bræðurnir undu sér við að strauja, byggja og púsla meðan ég blandaði geði við aðrar mömmur. Ég nældi mér í nokkur nafnspjöld og dreifði mínu. Það virðist vera grundvöllur hjá mömmum í Stirnis bekk að hittast í kaffi á morgnana og ég er glöð yfir því.
Stirnir verður ekki í neinum aukatímum í ensku, á bara að læra með hinum. Hann fer í tíma í mandarín líka.
Mömmurnar sem ég talaði við voru kínverskar en giftar, önnur þeirra ástrala og hin ameríkana. Einnig hitti ég franska mömmu sem á strák sem er með Stirni í bekk og annan í fyrsta bekk eins og Hugi, bara ekki í sama bekk. Við ræddum það að hittast kannski og leyfa strákunum að leika.
Mér sýndist meirihlutinn í bekknum vera stelpur, hann er nú vanur því frá leikskólanum að vera í kvennaveldi og kann því vel. Í bekknum hans eru 11 krakkar. Hvor kennari er með aðstoðarmann með sér mestallan tímann.
Mér fundust Hugi og Stirnir vera ánægðir með þetta allt saman, Hugi var þungur á brún til að byrja með en svo lyftist á honum brúnin. Það verður gaman fyrir þá að vera í samneyti við krakka. Það eina sem ég hef áhyggjur af er skólabíllinn, þeir verða sóttir upp að dyrum og skilað líka. En í skólanum eiga þeir að koma sér sjálfir í sínar stofur skilst mér. Ég ætla að reyna að snapa mér far í fyrramálið með bílnum og fylgjast með hvernig þetta fer fram. Vonandi verður Stirnir sáttur við að skilja við mig, kennarinn hans er ekki hrifinn af því að foreldrar séu að "flækjast fyrir" til að byrja með. Seinna meir geta foreldrar komið inn og aðstoðað, jafnvel lesið fyrir krakkana og hjálpað til í vettvangsferðum.
Heilsan fer batnandi hjá bræðrunum, þeir eru kannski ekki í sínu besta formi en við höldum að það sé mikilvægt að vera í skólanum fyrstu dagana. Matarlystin er að koma til baka og Hugi raðaði í sig salati og sveppasúpu áðan. Stirnir hélt því fram að hann borðaði ekki sveppi sem er nú ekki satt.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment