Friday, August 11, 2006

Þá er komið að ferðasögu frá Qingdao en fyrst vil ég byrja á því að þakka fyrir allar afmæliskveðjur í tölvupósti, mér þykir vænt um hvað margir hafa munað eftir afmælinu mínu!
Við flugum til Qingdao á laugardaginn, ferðin var tíðindalaus, bræðurnir eru orðnir mjög ferðavanir. Okkur féllust eiginlega hendur við komuna á hótelið, við löbbuðum út á svalir og ströndin blasti við en aldrei höfum við séð jafnþéttsetna strönd, það var eins og við værum lent á mauraþúfu. Það er reyndar ekki rétt að segja þéttsetna því flestir virtust standa á sandinum og fólk stóð langt út í sjó.
Við fylgdumst með ströndinni fram á kvöld og alveg fram í myrkur og ekkert virtist mannþröngin láta á sig fá þó dimmt væri orðið, alltaf voru jafn margir á ströndinni.
Daginn eftir var aðeins þolanlegra á ströndinni og við skruppum í sjóbað um morguninn, þessi mynd er tekin þann dag:


Bræðurnir undu sér vel við leik í sandinum. Reyndar var ég hissa á því að sólargeislar næðu á þá því á tímabili var mikil mannþröng í kringum þá, fólk stóð og fylgdist með leik þeirra og dáðist að þeim. Ég lá í sólbaði skammt frá og vitjaði þeirra í flæðarmálinu. Ég spurði Huga hvort það væri ekki allt í lagi og hann svaraði yfirvegaður að fólkið væri bara að fylgjast með, vanur maður.
Við Kjartan vorum hálfáttavillt þarna í byrjun, við erum kannski ekki vön því að þurfa að redda okkur sjálf, höfum ferðast með kínverjum áður sem hafa aðstoðað við að finna veitingastaði, panta mat o.s.frv. Okkur gekk illa að finna veitingastaði fyrst í stað, þeir voru ekki við ströndina. Það er ekki hægt að segja að hérna sé þessi evrópska stemmning sem við erum vön, veitingastaðir og kaffihús við ströndina með notalegum terrössum. Við söknuðum þeirrar stemmningar og vorum á tímabili að hugsa um að reyna að finna hótel þar sem mannfjöldinn væri ekki svona svakalegur en það varð nú ekkert af því.
Kjartan fann upplýsingablað á hótelinu og eftir það gekk okkur betur að finna út úr veitingastöðum og afþreyingu. Við fórum á einhverskonar sædýrasafn og sáum hákarla, krókódíla og margskonar fiska. Við röltum eftir strandlengjunni og horfðum á hafið, sáum krabba og fylgdumst með endalausum brúðarmyndatökum við ströndina. Qingdao virðist vera staðurinn sem fólk kemur til að fá brúðarmyndatöku. Það er svolítið fyndið að ljósmyndararnir virðast vera svipaðar týpur, þeir eru einu mennirnir sem maður sér með sítt hár hérna. Flestir eru með þessa stuttu herraklippingu en ég hef séð nokkuð marga ljósmyndara að störfum og það sést utan á þeim við hvað þeir starfa.
Við vorum búin að fá leigubílstjóra til að keyra okkur upp í Laoshan fjall á miðvikudaginn og ætluðum að ganga þar um og skoða okkur um. En þann dag vöknuðu bræðurnir með háan hita, beinverki og hálsbólgu. Kjartan sendi bílstjóranum afboðun á kínversku og fékk löng skilaboð til baka sem Kjartani tókst að þýða með aðstoð símans. Hann sagði að bræðurnir ættu að drekka vatn og borða melónu til að ná heilsu aftur.
Við eyddum semsagt deginum á hótelherberginu, bræðurnir lágu fyrir og báru sig illa. Þeir hafa aldrei verið svona samtaka í veikindum áður.
Á fimmtudeginum ákváðum við að gera aðra tilraun með fjallið og bílstjórinn sótti okkur kl. 9. Við byrjuðum á því að sækja lyf í apótek og héldum síðan í átt að fjallinu. Þá urðu bræðurnir samtaka aftur í gubbi, Hugi náði út úr bílnum en Stirnir gubbaði á buxurnar. Hann fór á fjallið á nærbuxunum.
Okkur Kjartani leist nú ekki á þetta að draga þessa sjúklinga upp á fjall en við vissum af því að það væri hægt að fara upp með kláfi og það bráði aðeins af bræðrunum eftir gubbið svo við létum slag standa.

Ferðin í kláfinum gekk bara vel og upp komumst við. Við gengum aðeins eftir stíg í fjallinu en sölubásar byrgðu sýn og ég hafði ekki undan að bægja frá mér mönnum sem vildu bera mig í burðarstól. Þetta var ansi túristískt að okkar mati, við höfðum séð fyrir okkur fjallaferð úti í náttúrunni. Kjartan hefur gefið út þá yfirlýsingu að næsta ferð verði farin til Tíbet eða Nepal.
Á heimleið frá fjallinu stoppuðum við á veitingastað með bílstjóranum okkar, þarna var boðið upp á sjávarfang í vatnsbúrum og Kjartan fór í það að velja hádegismatinn. Hann valdi fisk einn sem var tekinn og honum slengt í gólfið, settur upp á vigt, var 1,4 kíló og svo inn í eldhús.
Þetta var afmælisdagur undirritaðrar, fiskurinn bragðaðast vel og líka skeljarnar.

Eftir matinn fengum við reikninginn og þá var nú upphæðin ansi há, Kjartan rak augun í það að fiskurinn hafði þyngst um kíló og var ekki sáttur við það. Honum tókst þó að lækka reikninginn eftir mikla rekistefnu, hann er orðinn nokkuð góður eftir nokkurra vikna kínverskulærdóm!
Það var reyndar fyndið þegar Kjartan og bílstjórinn voru að tala saman í framsætinu á leigubílnum, þeir sendu skilaboð á milli sín í símunum. Svo var bílstjórinn með frasabók líka, til dæmis notaði hann frasann "If you don´t mind I´d rather have some tea" þegar við fórum upp í kláfinum. Okkur þykir líklegt að þetta sé algeng afsökun í Kína.
En bræðurnir hafa endurskírt Qingdao, nú gengur hún undir nafninu Lasnaborg í Gubbulandi.

Við flýttum för heim, komum heim í gær, okkur leist ekkert á það að eyða helginni á bjórhátíð, mannfjöldinn hefur líklega tvöfaldast á ströndinni við það.
Hugi og Stirnir voru glaðir að koma heim og þeir eru að skána, þetta er meira kvef í þeim núna.
Skólinn byrjar í vikunni og við erum búin að fá áætlun skólarútunnar, þeir verða sóttir kl. hálfátta og skilað heim kl. 15:45.
Dalla

No comments: