Það eru ennþá veikindi á heimilinu, strákarnir voru skárri á laugardaginn en versnaði aftur í gær. Þeir hósta út í eitt og eru báðir með hita.
Kjartan fór með þá til læknis í dag meðan ég fór að stússast í dvalarleyfismálum fyrir okkur mæðginin. Bræðurnir eru komnir á lyfjakokteil, sýklalyf, hóstamixtúru og slímlosandi. Læknirinn sagði að þetta ætti að virka fljótt sem ég vona að það geri því við eigum að fara á morgun í skólann að hitta kennarana þeirra. Á miðvikudaginn byrjar síðan skólinn.
Læknirinn sagðist búast við Kjartani aftur með strákana í vetur, það væri eðlilegt að þeir veiktust í samneyti við krakkana í skólanum. Bræðurnir hafa nú verið hraustir yfirleitt, við vonum að þessar hrakspár læknisins standist ekki.
Helgin var róleg vegna veikindanna. Ég fór í innkaup á laugardagsmorguninn, ekkert til á heimilinu og sneri til baka með fulla innkaupakörfu og nokkra poka hangandi utan á mér. Kjartan leit á mig þreytta og sveitta og pantaði handa mér nudd, klukkutíma síðar var ég sest upp í leigubíl á leið í nuddið.
Ég fór í tveggja tíma meðferð, fyrst heilnudd kínverskt en þá fór ég í náttföt einhverskonar og var nudduð í gegnum teppi að auki. Nuddarinn þrýsti mikið á mig og þetta var mjög notalegt. Síðan var ég leidd niður í herbergi með nokkrum lazy boy stólum þar sem verið var að nudda fætur fólks. Fyrst fór ég í heitt fótabað og svo tók við fótanudd. Þetta var svo þægilegt að ég náði örugglega að dotta og slefa smá líka. Vona að ég hafi ekki hrotið líka.
Ég geispaði mikið á leið heim í leigubílnum en ég var alveg endurnærð eftir þessa meðferð.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Tous mes voeux de rétablissement pour les enfants
... et d'anniversaire, à retardement!
Il faudra avoir recours plus souvent à ce massage chinois. Ça a l'air vraiment efficace.Bonne continuation!
xxx Catherine
Post a Comment