Langt síðan hefur verið bloggað en það er nú frekar vegna tímaleysis en að það gerist ekki neitt hérna. Bræðurnir voru í skólafríi vikuna í kringum fyrsta maí.
Kjartan kom úr velheppnaðri Marokkóferð með Matta og Maríu með sér sem fengu afnot af gestaherberginu. Það var notalegt að hafa þau hjá okkur og við fórum heilmikið út að borða með þeim og sendum þau líka ein í ævintýraferðir, m.a. með bílstjóranum okkar út úr bænum. Bílstjórinn er að læra ensku, situr og hlustar á kassettur í frítímanum en hann kann nú ekki mikið meira en að þakka fyrir sig og telja upp á ensku enn sem komið er.
Atli og Ada buðu okkur í kínverska veislu eitt kvöldið, þau eru orðin góð í eldamennskunni. Ada er nýbyrjuð að elda og Atli segir að þetta sé hreiðurgerðin sem sé í hámarki og við nutum góðs af því.
Við heimsóttum Heklu og Magnús, Bogga og Örn einn daginn þegar Kjartan var í burtu. Magnús setti bót í litla uppblásna sundlaug og strákarnir stripluðust í henni. Þeir kvörtuðu reyndar undan köldu vatni en létu sig hafa það, hitastigið er svona í kringum 20 gráðurnar þessa dagana.
Við Elsa fórum með krakkana í Century Park í fríinu. Þar voru leiktæki eins og í öllum kínverskum görðum.
Edda og Ævar í skothríð
Strákarnir tóku línuskautana með og fengu far með þessum dömum
Matti og María í portinu okkar
Okkur var boðið í brúðkaup til starfsmanns CCP. Veislan var haldin á veitingastað í nágrenninu og athöfnin fólst í því að brúðhjónin játuðu hvort öðru ást sína og settu upp hringa.
Brúðhjónin voru voðalega sæt og fín og brúðurin skipti þrisvar um kjól. Fyrst var hún í hvítum kjól, svo rauðum og loks gulum. Maturinn var góður og mikill að venju í kínversku borðhaldi. Okkur útlendingunum var boðið sérstaklega upp á ástralskt rauðvín en ekki kínverskt eins og aðrir máttu gera sér að góðu. Það er ekki siður að gefa gjafir við brúðkaup en færa brúðhjónunum peninga í rauðu umslagi og þá skiptir máli að upphæðin sé rétt. Talan fjórir má ekki koma fyrir í upphæðinni því hún táknar dauða. Tölurnar 6 og 8 eru mjög góðar. Þegar máltíðinni lauk var veislan búin.
Í vikunni fór Hugabekkur í vettvangsferð og ég tók að mér að fylgjast með þessum krökkum. Hadley, Zoe, Caspar, Hseung-Ho og Hugi, þau eru öll góðir vinir.
Í yu garden
Eyja í fyrstu skólaferðinni
Við ána Huangpu, Pudong megin
Mrs Snyder með 2nd grade Superstars eins og hún kallar bekkinn
Hadley og Hugi í faðmlögum
Ferðin endaði nú ekki skemmtilega því rútan okkar bilaði á heimleiðinni og við þurftum að bíða í 50 mínútur eftir nýrri rútu. Börnin voru orðin langeyg eftir að komast aftur í skólann og ungfrú Eyja kúkaði duglega á sig svo það þurfti að skipta á henni allri. Þetta var allt á hálfgerðri umferðareyju við stóra götu.
Á mánudögum fara bræðurnir á námskeið eftir skóla, í skólanum. Fredrik nágranni minn bauðst til þess að sækja þá síðasta mánudag, hann átti leið í skólann. Um fjögurleytið hringdi hann í mig og sagði að Stirnir hefði ekki komið á námskeiðið. Ég var stödd úti í bæ og hringdi heim í Lí til að athuga hvort hann hefði farið óvart heim með skólabílnum. Hún sagði að enginn hefði komið heim. Þannig að það leit út fyrir að Stirnir væri týndur, hvorki í skólanum né heima. Ég þurfti að anda djúpt í fáeinar mínútur því mér leist ekki á blikuna. Svo kom upp úr dúrnum að Stirnir hafði farið heim með skólabílnum, ekkert látið Lí vita af sér en farið beint yfir til Ebbu og Andreu að leika þar.
Að lokum tvær myndir af Eyju í stól og á leikteppi:
Uppáhaldsiðjan þessa dagana er að troða höndunum upp í munninn
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment