Tuesday, May 13, 2008

Það eru hörmungartímar í Kína, eftir kaldan vetur kemur stór jarðskjálfti. Þeir sem voru staddir í háhýsum í Shanghæ fundu kippinn en ég var á gangi og fann ekki fyrir neinu. Lí sagði að þetta væri mjög slæmt ár fyrir Kína í gær. Hún man eftir hörðum jarðskjálfta þegar hún var barn, þá bjó hún úti undir beru lofti í þrjá mánuði því hús fjölskyldunnar var við það að hrynja.

Í dag voru tónleikar í skóla bræðranna og Stirnir kom þar fram með sínum árgangi. Hann stóð sig vel að venju, var brosmildur og sætur á sviðinu. Við þurftum að borða snemma, klukkan fimm, til að drífa okkur svo af stað í skólann.
Huga biðu mörg heimverkefni, stafsetning, lestur, dagbókarskrif og stórt verkefni í kínversku. Hann var úrillur og hafði allt á hornum sér, þessi skóli væri hræðilegur.
Við þessi skrif í dagbókina fékk hann útrás fyrir úrillskuna:

If I were the teacher I would make a much better school than SCIS. I would teach the children to have free time, they would get to play all day. And you get to go to a fieldtrip all day. And I could also teach the children to make their own solarcar. And I will buy every kid a horse. And the best thing, you can eat whatever you want.

Það átti sko ekki við hann að hafa engan tíma til að leika, hann tönnlaðist á því endalaust, erfiður dagur, enginn tími til að leika.

Sama prógramm á fimmtudaginn, þá á Hugi að koma fram með sínum árgangi.

Dalla

No comments: