Friday, March 20, 2009

Húsmæðraorlof í Yi wu

Við ákváðum fjórar vinkonur, íslenskar að skreppa út úr bænum í byrjun vikunnar.  Okkur langaði til að heimsækja Yi wu en þar er stærsti markaður Kína sem selur allt milli himins og jarðar. Þetta var svona könnunarleiðangur okkur til skemmtunar.

Við tókum hægu lestina sem var líka nokkuð gömul og illa lyktandi. Þremur og hálfum tíma seinna stigum við á brautarpallinn í Yi wu og fórum út fyrir að finna okkur leigubíl á hótelið. Það  er leiðinlegur siður hjá leigubílstjórum að reyna að plata peninga út úr ferðalöngum, sérstaklega á lestarstöðvum og flugvöllum. Þeir vilja keyra fyrir uppsett verð en neita að setja mælinn í gang. Sumir nýlentir hafa lent í því að borga mörg hundruð rmb frá flugvellinum í Sjanghæ þegar meðalgjald er svona 150 ef keyrt er eftir mæli. Við erum nú ekki fæddar í gær og vitum hvað hlutirnir kosta en okkur gekk erfiðlega að tjónka við bílstjórann. Amy sem var með okkur gekk ekki betur en okkur en eftir þessa ferð ákváðum við að gefa ekki eftir fyrir svikurum.  En þetta var ekki góð fyrsta reynsla af borginni.

Til að vera vissar um að lenda ekki á svikulum bílstjóra fórum við með skutlu frá Kingdom hótelinu á markaðinn:

_MG_0920

Anna, Lára og Elsa

_MG_0924

Brosmildar áður en við fórum inn á markaðinn sem var risastór, margar byggingar tengdar saman. Við náðum ekki að skoða nema hluta, t.d. var stórt svæði með hárskraut og álíka stórt svæði með regnhlífar og regnfatnað. Verðið er hlægilega ódýrt en allir vilja taka við stórum pöntunum, helst upp á lágmark 1200 stykki.

_MG_0936

Og við erum ekki svo mæddar eftir markaðsskoðun.

_MG_0940

Hvar erum við staddar?

 _MG_0950

Lára og Amy

Um kvöldið borðuðum við á veitingastaðnum Bláa fjallinu. Þar fékkst allt milli himins og jarðar, virðist vera þema í Yi wu. Á hótelbarnum skáluðum við í freyðivíni fyrir afmæli Önnu og starfsfólkið galdraði fram sæta hjartalaga köku handa henni.

 _MG_0958

Elsa á markaði á öðrum degi.

_MG_0972

Við nærfötin!

_MG_0976

Mamma lætur dóttur sína pissa/kúka, barnið er með gat í klofinu á buxunum. Hérna venja mæður/ömmur/barnapíur börnin á að pissa þegar þær gera sérstakt hljóð, þetta er einhverskonar skilyrðing.

_MG_0979

Þessi seldi litrík sængurföt.

_MG_0985

Elsa og Amy prútta við sölukonu sem var hláturmild.

_MG_0987

The profession produces to keep the every variety high inside low file bed top thing gift. Welcome to the kind make to order to process???? Þetta er mjög líklega þýtt í þýðingarforriti.

Við Elsa stungum af frá Yi wu á hádegi og skildum Önnu og Láru eftir. Við vorum ánægðar þegar við uppgötvuðum að við áttum miða í hraðlest sem flutti okkur heim á mettíma. Þetta var skemmtileg ferð hjá okkur stelpunum og við hlógum mikið.

Ég sá það enn einu sinni að ég er ekki ómissandi á heimilinu. Kjartan og Lí sáu um börnin . Lí mætti snemma og bauðst til að gista líka en það var nú óþarfi, Kjartan er vanur að setja Eyju í rúmið. Síðdegis fyrri daginn fékk ég símtal frá Elinu  nágrannakonu minni sem sagði að Lí og strákarnir hefði læst sig úti þegar hún fór út í hlið að sækja þá úr skólabílnum. Hurðin hefur líklega skellst í lás en það sem verra var að Eyja svaf inni í rúminu sínu. Ég hringdi strax í Kjartan sem þaut af stað á hjólinu heim. Lí var í miklu uppnámi eftir því sem ég heyrði seinna. Hún fór þó og fékk lánaðan stiga sem hún og Fredrik reistu upp við húsið og svo skreið Lí inn um baðherbergisglugga á annarri hæð. Kjartan sló nýtt hraðamet á hjólinu, var 7 mínútur á leiðinni. Eyja vaknaði við gauraganginn þegar verið var að reisa upp stigann en var hin rólegasta. Lí lét svo skipta um hún svo þetta kæmi ekki fyrir aftur.

IMG_2893

Eyja er orðin nokkuð dugleg við að sleppa sér en hún tekur ekki skref.

IMG_2895

Stendur ein!

IMG_2897

Við Eyja skoðum oft vísnabækur og ég syng fyrir hana. Lí sagði að þegar ég var í burtu skoðaði Eyja bókina og sönglaði eitthvað og leit svo á hana til að bíða eftir að hún færi að syngja.

Dalla

5 comments:

Anonymous said...

Dalla, Þú litur aldeilis ekki út fyrir að vera "þriggjabarnamóðir"! Frekar táningur sem er að skrópa í skólanum. Þessi kvennaleiðangur á markaðinn hlýtur að hafa verið gaman fyrir ykkur allar. En hvað keyptuð þið nú fyrir rest?
Gaman að sjá Eyju standa svona myndarlega á eigin fótum. Fyrsta skrefið er á næstu grösum!
Amma C.

Dalla said...

Takk fyrir hrósið!Það fyndna var að við keyptum ekki neitt.
Dalla

hekla said...

Flottar konur! Mikið eru standi myndirnar af Eyju sætar. Mjög einbeitt og dálítið montin.

Anonymous said...

Hæ Dalla. Við lesum alltaf bloggið þig og njótum þess að fá að fylgjast með ykkur og skoða myndir af krökkunum. Eyja er súperkrútt með meiru og það væri gaman að leyfa henni og Kjartani Ragnari að hittast einhverntímann. Hann er nýfarinn að labba, þó hann sé 20 mánaða enda rólegur kall í alla staði.
Við biðjum að heilsa ykkur öllum og sendum ástarkveðjur.
Guðrún & Kjartan

Dalla said...

Hæ Guðrún,
gaman að vita að þið fylgist með okkur. Hugi og Stirnir voru líka rólegir í labbinu, voru að verða 17 mánaða þegar þeir fóru af stað. Þessi börn virðast fara mjög varlega, það gengur ekkert að plata Eyju til að taka skref.
Sendum líka ástarkveðjur til ykkar og vonumst til að hitta á ykkur í sumar, Dalla.