Saturday, March 28, 2009

Bambusskógur og teakrar

Síðastliðna viku voru Hugi  og Stirnir í vorfríi. Það er ekkert páskafrí í alþjóðlega skólanum en þetta kemur í staðinn fyrir það. Við vorum að bræða það með okkur að fara út úr bænum en veðurspáin var ekki góð svo við tókum það rólega síðustu helgi en sáum svo að spáin myndi  breytast fyrir þriðjudag og ákváðum að stökkva af stað.

Við fengum Mr. Jin til að keyra okkur upp í fjöllin í nágrenni Hangzhou, nánar tiltekið á stað sem heitir Moganshan. Þar leituðu efnaðir Sjanghæbúar eftir svala á heitum sumrum um miðja síðustu öld.  Við fórum þó ekki á stórt hótel heldur leigðum okkur hús hjá Naked retreats í þorpi sem kallast 395. Þegar stofnendur þessarar húsaleigu komu í þorpið fyrir tveimur árum bjuggu þar 15 íbúar á aldrinum 63 til 93. Af þessum 15 vinna 10 við umsjón og viðhald húsanna sem eru orðin átta. Það er ekki hægt að keyra alla leið upp að húsinu þar sem við dvöldum, við gengum 230 þrep til að komast að því. Sjanghæ er mjög hávær borg, bílaniður, flaut og köll svo það var algjör sæla að komast í fjallakyrrð.  Ungur maður sem tók á móti okkur leiddi okkur beint út í skóg til að njóta friðarins, okkur var uppálagt að þegja í tvær mínútur og  hlusta á lækjarnið en strákarnir hlupu alsælir um. Í bambusskóginum er hvert tré merkt þeirri fjölskyldu sem á það og einnig er aldur trésins sjáanlegur á stofninum með merkingum. Það er talað um börnin, foreldrana og ömmurnar og afana. Börnin eru eins árs, foreldrarnir tveggja ára og gamla fólkið þriggja ára og það má fella. Það er víst hægt að horfa á bambustré vaxa því það getur hækkað um einn metra á dag. Þyturinn í laufunum var indæll.

Við komum okkur fyrir í Huahua kofanum sem var nú enginn kofi. Uppgert gamalt hús, allt mjög skemmtilega gert og bambusþema í innréttingum sem voru nokkuð hráar. Í kamínunni logaði eldur og við gátum vel hugsað okkur að vera þarna í  nokkra daga og ákváðum strax að bæta einni nótt við og vera þrjár nætur. Við reyndum einu sinni enn að veiða, höfum reynt á nokkrum stöðum en aldrei veitt neitt. Lónið var fullt af fiski en ekkert vildi bíta á okkar öngul.

Hugi og Stirnir lýstu því yfir að þessi staður væri jafn góður og Ísland, þeir fundu sér strax leynistað og byrjuðu stíflugerð þar. Við húsið var útisturta og þeir voru ekki lengi að berhátta sig og prófa sturtuna. Eyja kannaði umhverfið og skreið um úti, ekki oft sem hún hefur skriðið í grasi, kannski ekki svo huggulegt grasið í stórborginni. Hænur vöppuðu um og býflugur suðuðu.

Daginn eftir fórum við í göngu upp í hlíðarnar. Þar uppi komum við á teakra þar sem fólk var við tínslu. Á þessum tíma árs, fyrir vorrigningar er tínt fínasta teið og það dýrasta. Hugi slóst í hópinn með tetínslufólki og hreifst svo af þessu starfi að hann sagðist vilja vinna við tetínslu, hann tíndi í flösku og við gátum varla slitið hann frá tínslunni. Hann sagði að þetta væri besti dagur lífs síns. Við villtumst aðeins um en fundum svo lítið musteri hátt uppi í hlíðunum. Þar var einsetumaður sem sér um musterið og hann bauð upp á te.

Eyja ferðaðist um í magapokanum góða en ég verð að segja að ég var ansi þreytt eftir gönguna, blés eins og hvalur þegar við komumst aftur upp í hús. Þá var gott að fá sér hvítvínsglas og lesa bók. Strákarnir fóru í skoðunarleiðangur og komu til baka mjög spenntir en þá höfðu þeir rekist á Cameron bekkjarsystur Huga sem var nýkomin með mömmu sinni og bróður. Þarna urðu fagnaðarfundir og eftir kvöldmat fóru bræðurnir yfir til þeirra í heimsókn og skiluðu sér ekki heim fyrr en um miðnætti eftir að hafa spilað Monopoly í fjóra klukkutíma. Við Kjartan áttum semsagt friðsælt kvöld yfir bók.

Hugi vildi fara aftur í tetínslu daginn eftir og fékk að fara með Cameron og fjölskyldu í leiðangur. Við hin pöntuðum okkur nesti sem við löbbuðum með upp í skóginn og settumst þar niður á teppi. Eftir hádegismat vildi ég leggja mig með Eyju og við fórum upp í rúm, ég hlýt að hafa dottað á undan henni því þegar ég rumskaði var hún búin að ná í kremdós við rúmið og maka sig alla út í því. Heil dós af kremi sem hvarf þarna og fyrsta prakkarastrikið skjalfest.

Um kvöldið slógum við saman með Michelle, mömmu Cameron í grill og borðuðum í þeirra húsi. Ayi grillaði fyrir okkur en steikurnar voru harðar undir tönn hjá henni, í næstu ferð grillum við bara sjálf. Krakkarnir kveiktu varðeld og borðuðu vel.

Við ætlum að koma aftur á þennan stað, algjör perla í þriggja tíma akstursfjarlægð frá borginni.

_MG_0990

Burðarmaður ber farangurinn upp þrepin 230. Takið eftir öxinni sem hann ber í belti til að fella bambustré.

 

IMG_2898

Fyrir framan Huahua húsið okkar.

IMG_2904

Þögn í bambusskógi.

IMG_2924

Hua hua frá öðru sjónarhorni.

IMG_2934

Vinalegur vegfarandi.

IMG_2935

Lónið með fiskunum.

IMG_2951

Stirnir horfir eftir fiskum.

IMG_2970_1

Hugi veiðir.

IMG_2982

IMG_2994

Kvöldstemmning við húsið.

IMG_3019_1

Hugi tínir te.

IMG_3020

Brosmildur tetínari.

IMG_3038

Stirnir á þaki í fjöllunum.

IMG_3042

Bústaður musterisvarðarins.

IMG_3050

Eyja fær bita, Hugi drekkur te og Stirnir skráir í gestabókina.

IMG_3055

Hugi hjá musterisverði.

IMG_3073

Nesti í skógi.

IMG_3080

Kjartan var nú ekki ánægður þegar hann sá þessa mynd, að Eyja væri með hönd á linsunni. Hún er með prakkarasvipinn.

IMG_3105

Búið að kveikja upp í grillinu.

IMG_3115

Allt í blóma.

IMG_3127

Ayi grillar.

IMG_3136_1

Eyja í körfu sem ayi notar til að bera eldiviðinn.

IMG_3140

Cameron og Hugi, sést bara vel framan í Huga á þessari mynd.

Moganshan1

Lónið

Scarecrow2

Fuglahræða í grænmetisgarði.

Stirnir varð sjö ára á föstudaginn og þá keyrðum við aftur inn í borgina í rigningu. Heima biðu Hekla og börn eftir okkur og við borðuðum saman. Magnús kom svo úr vinnunni og við gæddum okkur á súkkulaðiköku frá Heklu. Eyja vildi borða grautinn sinn sjálf með skeið og fékk það. Ég var nokkuð hrifin af framtakinu hjá henni og þetta gekk bara nokkuð vel, hún setti skeiðina fyrst í grautinn sem var þykkur og svo í munninn en eitthvað fór nú á smekkinn. Lí horfði hissa á aðfarirnar en sagði ekkert. Ég spurði hana hvort kínversk börn á þessum aldri borðuðu sjálf, hún sagði að þau væru mötuð þar til þau væru fjögurra ára.

Á hverju götuhorni hérna er rakari eða hárgreiðslustofa, svona svipað eins og í suðurlöndum er apótek á hverju götuhorni. Eins og sést á myndunum eru Hugi og Stirnir ekki góðir viðskiptavinir slíkra staða, þeir vilja ekki fara í klippingu. Hugi hefur ekki verið klipptur í ár og þegar ég nefni klippingu við Stirni segist hann ekki vilja fara fyrr en Hugi fari. Á leiðinni í bæinn sagðist hann þó vilja fara í klippingu eftir afmælisveisluna og þá vill hann láta snoða sig.

Á morgun sunnudag er semsagt veisla og svo ferð á hárgreiðslustofu á mánudag.

Dalla

No comments: