Monday, June 02, 2008

Helgin var fín hjá okkur, höfðum lítil plön en svo rættist úr þessu öllu.
Strákarnir fóru í heimsókn til Hadley á laugardaginn, þeir fóru í sund með Hadley, Emmu systur hennar og pabbanum Dan. Mömmu Hadley höfum við aldrei hitt því hún er alltaf að vinna eða á ferðalögum. Hún er að vinna hjá Nike og það er brjálað að gera fyrir Ólympíuleikana. Hann er því einstæður faðir að mestu leyti. Hann ætlar að kenna í SCIS næsta vetur, voðlega fínn kall.
Við Kjartan fórum á flakk á bílnum á meðan, fórum í húsagagnaverslun og í götu þar sem eru mörg listagallerí og vinnustofur listamanna. Mér fannst eins og við værum bara alveg barnlaus, við erum vön að eyða helgunum öll saman svo þetta var tilbreyting að vera bara með Eyju með okkur.
Þegar við sóttum strákana fórum við og hittum Atla og Ödu á O´Malleys og svo hingað heim og pöntuðum okkur mat og rauðvín, því það er hægt að panta allt hérna í borginni. Ekki bara pizzu og kínverskan mat heldur er hægt að panta frá hvað veitingastað sem er.
Strákarnir minntust á það í bílnum að ég þyrfti að sinna Eyju mikið, það tæki soldið langan tíma. Hugi sagðist óska að Eyja væri tíu ára, þá gæti hún séð um sig sjálf og svo gæti hann líka strítt henni. Hann bíður spenntur eftir að geta strítt Eyju.

Í gær sunnudag var okkur boðið í hundrað daga afmæli. Sonur Shao Yan sem vinnur hjá CCP fæddist 20. febrúar, sex dögum á eftir Eyju og það er siður hér að fagna 100 daga afmæli, þá er tækifæri fyrir vini og ættinga að hitta barnið. Afmælið var haldið á veitingastað og boðið upp á óteljandi rétti, vín, bjór og sígarettur. Mesta athygli vakti réttur sem við höfum ekki séð áður, litlar skjaldbökur bornar fram, ein á mann.




Shao Yan og sá eini sem kemur frá himninum



Himnastrákurinn íhugull



Eyja virðist ekki sátt við þessa innrás í mömmufaðm









Vinsælasti rétturinn



Kjartan og Atli gera að skjaldbökunni og Ada horfir hlæjandi á aðfarirnar

Þetta var nokkuð skemmtileg veisla í hádeginu á sunnudegi. Vinir föðurins gengu um og skáluðu við alla. Þegar við fórum heim um tvöleytið var verið að leiða einn vininn dauðadrukkinn út af veitingastaðnum. Ekki oft sem maður sér ofurölvi kínverja, þeir passa sig yfirleitt vel að drekka ekki of mikið.

Hugi og Stirnir vildu vera einir heima meðan við fórum í afmælið. Við leyfðum það og þeir tóku af okkur loforð um að vera að minnsta kosti fimm tíma í burtu. Eftir tveggja tíma fjarveru hringdu þeir og báðu okkur um að koma heim aftur því þeir væru svo svangir.

Dalla

No comments: