Monday, August 23, 2010

Namibía og Legoland

Við fjölskyldan vorum búin að láta okkur dreyma um Afríkuferð og Kjartan fann út að Namibía væri góður áfangastaður. Þar gætum við keyrt um sjálf og landið er fallegt og öruggt. Við skipulögðum ferðina og bókuðum gististaði í samvinnu við ferðaskrifstofu í höfuðborginni Windhoek en bókuðum líka hluta sjálf.

Stirnir, sem er mikill legomaður, hefur spurt mig reglulega í ár hvenær við gætum farið í Legoland og Hildur vinkona mín sagði mér að það væri Legoland í Windsor nálægt Heathrowflugvelli svo við slógum tvær flugur í einu höggi og stoppuðum í Legolandi á leið til Namibíu.

Mánudaginn 2. ágúst flugum við til London og eftir viðkomu á hóteli þar sem við hentum töskunni inn, já takið eftir töskunni, því ég pakkaði í eina tösku fyrir mig og krakkana, héldum við beint í Legoland. Stirnir sagði þegar við gengum inn í garðinn: Takk mamma fyrir að fara með mig í Legoland! Við vorum svo heppin að fyrrnefnd Hildur var á ferð með fjölskyldunni og við hittum þau í garðinum. Ari Karl eldri sonur Hildar er mikill vinur Huga og Stirnis svo þó við kæmum seint að degi til  í garðinn gátu þeir náð í nokkrar rússibanaferðir saman því raðirnar höfðu styst .

Legoland-Namibia 002

Hugi og Stirnir fengu hláturskast þegar Kjartan benti þeim á ferðafélaga þeirra á myndinni, svartklæddur og lítur út eins og draugur.

Legoland-Namibia 011

Litlu ferðalangarnir Davíð og Eyja með Hildi fá sér snarl og drykk meðan stóru strákarnir fara í rússibana.

Eftir nokkra  fjöruga klukkutíma í Legolandi fórum við með Hildi og fjölskyldu inn í miðbæ Windsor og fengum okkur að borða saman. Eftir matinn vorum við nokkuð uppgefin og fórum beint heim á hótel að sofa.

Legoland-Namibia 022

Ari Karl, Stirnir og Hugi fá sér japanskan mat og Hugi sýpur á miso-súpu sem hann kynntist í Japan og sagði þá að hann vildi borða hana daglega.

Daginn eftir vöknuðum við snemma og fórum beint í Legoland. Indæll leigubílstjóri keyrði okkur og ég bókaði hann til að sækja okkur aftur síðdegis. Strákarnir skemmtu sér vel og Eyja líka sem fékk að fara í smábarnatækin og leika á vatnaleiksvæði í sundbolnum. Stirnir hreifst mikið af Minilandi þar sem allt var byggt úr kubbum.

Legoland-Namibia 033

Stirnir var hrifinn af öllu sem var byggt úr legokubbum.

Legoland-Namibia 040

Eyja fékk sér snúning í hringekjunni.

Legoland-Namibia 045

Og lestin er í uppáhaldi.

Legoland-Namibia 047

Stirnir í legoljónskjafti.

Bílstjórinn okkar mætti á umsömdum tíma og keyrði okkur á hótelið og sótti töskuna okkar og svo út á völl. Eyja svaf í gegnum allt, innritun, öryggistékk í kerrunni og rumskaði ekki fyrr en í vélinni og var ánægð með að fara aftur í ví eins og hún kallaði flugvélina. Flugið var 11 tíma langt en það fór vel um okkur í Boeing 747 og BA fólk hugsaði vel um okkur. Strákarnir hafa engu gleymt og eru duglegir ferðalangar. Stirnir horfði á eina mynd og sofnaði en Hugi horfði á fleiri myndir og las Wimpy kid sem er í uppáhaldi. Við Eyja sváfum nokkuð vel og allir voru nokkuð  hressir þegar við lentum í Jóhannesarborg klukkan sex að morgni. Það er aðeins eins klukkutíma munur á Englandi og Suður-Afríku og mér fannst munur að þurfa ekki að venjast tímamismuni eins og alltaf þegar við fórum til Kína og færðum tímann fram um átta klukkutíma. Við röltum um flugvöllinn og skoðuðum okkur um í búðum og fylgdumst með sólarupprásinni út um glugga. Við settumst niður og fengum okkur morgunmat og allt í einu birtist Kjartan en hann hafði sofið í Jóhannesarborg um nóttina, flaug í gegnum Dubai á leið frá Sjanghæ. Það urðu fagnaðarfundir en hann rauk svo í flug til Namibíu og við biðum tvo tíma til viðbótar eftir okkar flugi. Við lentum í Windhoek eftir tveggja tíma flug á pínulitlum flugvelli og Kjartan beið okkar þar með bílaleigubílinn.

Legoland-Namibia 058

Fjölskyldan sameinuð við Nissanbílinn sem flutti okkur um Namibíu.

Í Namibíu er vinstri umferð svo við þurftum aðeins að venja okkur við það. Á leið inn í borgina stoppuðum við í þjóðgarði og keyrðum einn hring þar. Það var algjör sjokkmeðferð að keyra þarna um og rekast á vörtusvín, antilópur og þegar við komum yfir litla hæð voru þrír gíraffar á veginum fyrir framan bílinn. Við vorum ein á ferð en þarna eru engin hættuleg dýr svo við gátum stigið út og nálgast gíraffana.

gamlavelin 034

Stirnir var stórhrifinn og sagði þegar hann gekk nær gíröffunum: Hver fékk eiginlega hugmyndina að fara til Afríku?

Við fundum hótelið okkar og skelltum okkur í sturtu og svo langaði okkur út að fá okkur að borða, kominn kvöldverðartími. Við spurðumst fyrir og ætluðum helst að ganga sjálf. Kona á hótelinu sagði að það væri ekki ráðlegt að fara út eftir myrkur, eiginlega bannað. Svo við tókum leigubíl mjög stutta vegalengd. En þó borgin Windhoek sé hættuleg eftir myrkur er ekki mikið um glæpi annarsstaðar í landinu.

Við borðuðum fyrstu antilópusteikina (oryx) okkar af mörgum og börnin fengu ljúffengar pizzur. Stirnir skrifaði vini sínum póstkort í lok ferðar og þar kom einmitt fram hjá honum að í Afríku væru góðar pizzur en sundlaugarnar væru ískaldar.

Eftir góðan morgunmat daginn eftir keyrðum við af stað út úr borginni, tókum stefnuna suður og ákváðum að fara frekar sveitavegi sem eru malarvegir en flýta okkur á malbikinu. Við urðum strax hissa á því hvað það var lítil umferð, við mættum bíl á hálftíma fresti og þorpin voru svo lítil sem við sáum á kortinu að við keyrðum óvart í gegnum þau án þess að taka eftir þeim. Við sáum fólk ferðast um fótgangandi eða á vögnum dregnum af hestum eða ösnum. Margir veifuðu okkur þegar við ókum hjá. Við stoppuðum þegar við sáum apahóp við veginn en þeir urðu feimnir við okkur og létu sig hverfa. Við stoppuðum til að kaupa bensín og drykki og þar spjallaði búðarkonan við okkur og spurði um ferðalagið.

Við stoppuðum á hóteli og fengum okkur síðbúinn hádegismat og þar skelltu strákarnir sér í kalda laug. Hundurinn Whisky stríddi strákunum og náði sundskýlunni af Huga og vildi ekki sleppa.

Card4 026

Hugi og stríðnispúkinn Whisky.

Card4 029

Krakkafjör við laugina.

Fyrstu næturnar bókuðum við sjálf á Red Dune Camp sem er suður af bænum Gochas og svæðið tilheyrir Kalahari-eyðimörkinni. Við ætluðum semsagt að sofa í tjaldi sem var reyndar lýst sem luxurious tented camp. Þegar við komum á staðinn kom í ljós að þetta er fjárbýli í eigu fjölskyldu, hjóna um sextugt og sonar þeirra Pieter. Þau eru með tjaldstæði á landareigninni til að drýgja tekjurnar og svo eitt uppsett tjald þar sem við gistum tvær nætur. Pieter tók á móti okkur við bæinn og leiddi svo veginn að tjaldinu sem var hinu megin við veginn og nokkra kílómetra inni á landinu. Við festum bílinn á leiðinni uppeftir en tókst að losa okkur.  Þarna er fallegur rauður sandur en líka þónokkur gróður því það rignir meira en í venjulegri eyðimörk. Gróðurinn var þó mjög þurr og hríslurnar kræktust í okkur þegar við gengum um.

Pieter skildi okkur eftir við tjaldið og sagði að líklega væri betra ef hann sækti okkur í kvöldmatinn, við gætum fest okkur og erfitt að keyra uppeftir vegslóðann í myrkrinu. Okkur leist vel á tjaldið sem var rúmgott með hjónarúmi og aukarúmi og litlu klósetti með sturtu fyrir aftan. Eftir fallegt sólsetur sem var snemma, rúmlega fimm kom Pieter að sækja okkur. Í Namibíu er vetur núna en þarna var hlýtt á daginn, kringum 25 gráður en svo féll hitinn um 20 gráður yfir nóttina. Ég var við öllu búin og var með ullarnærfötin á mig og krakkana fyrir nóttina. Kvöldmaturinn var ljúffengur, við vorum einu gestirnir og sátum að veisluborði. Eftir mat skutlaði Pieter okkur að tjaldinu og við vorum ein úti í eyðimörkinni. Við horfðum upp í heiðskíran himinninn og trúðum varla eigin augum því það var svo stjörnubjart. Við horfðum á vetrarbrautina og stjörnuþokur alveg heilluð.

Card4 031

Undirrituð flutt inn í tjaldið og les Namibíubókina.

Card4 037

Bara nokkuð sátt við bústaðinn.

Card4 066

Hugi sá um að hlaða bálköstinn og svo settust þeir bræður við eldinn og spiluðu á Nintendo DS.

Card4 100

Við mæðgurnar eftir fyrri nóttina í Kalaharieyðimörkinni.

Card4 101 +

Bræður spjalla eftir morgunmatinn við bæinn.

Við sváfum vel og urðum hvorki vör við snáka né sporðdreka en Pieter sagði okkur að það væru einu dýrin sem gætu verið hættuleg á staðnum. Hann sótti okkur svo í morgunmat um áttaleytið og við fengum staðgóðan morgunmat. Eftir morgunmat bauð hann okkur að koma með sér að vitja um kindurnar en feðgarnir eiga 1200 kindur á landinu sem er 3500 hektarar sem hann sagði lítið á namibískan mælikvarða. Hann sagði ekki óalgengt að bændur væru með 35.000 kindur. Öllu vatni er pumpað upp af 80 metra dýpi með orku frá vindmyllum og með sólarorku. Reyndar er sólarorkan mikið notuð í Namibíu, bæði til að hita vatn og fyrir ljós. Alla daga var heiðskírt sem við dvöldum í landinu, við sáum ský á himni hálfan dag og fannst það merkilegt.

Við komum okkur fyrir á sætum á pallinum á pallbílnum sem Pieter festi þar og strákarnir hálf lágu efst uppi. Þeir sáu um að kalla upp þegar við nálguðust tré svo við gætum beygt okkur niður í tíma. Við keyrðum upp og niður sandöldur og svipuðumst um eftir kindum og rákumst líka á antilópur og gasellur á hlaupum.

Card4 109

Hugi horfir fram veginn.

Card4 111

Pieter opnar hliðið en landinu er skipt upp í nokkur hólf.

Card4 115

Eyja naut þess að vera í öllum þessum sandi.

Card4 118

Pieter við pallbílinn. Hann er mjög vinalegur og við erum orðin fb vinir. Hann nefndi við okkur að hann væri að svipast um eftir eiginkonu og ítrekaði það við mig í samtali á fb hvort ég gæti aðstoðað hann í konuleitinni. Ég lofaði engu en sagðist skyldu nefna það við íslenskar konur og kem því hérmeð á framfæri við þær sem gætu hugsað sér að setjast að á fjárbýli í Namibíu.

Önnur nóttin í tjaldinu var aðeins órólegri því vindurinn blés hressilega og það hrikti í tjaldinu. Ég lærði þá lexíu í útilegunni að maður fer ekki í morgunsturtu heldur fer maður í heita sturtu rétt fyrir sólsetur þegar vatnið í kútnum hefur hitnað í sólinni.

Við keyrðum í vestur og stoppuðum í þjóðgarði við bæinn Mariental þar sem er stíflan Hardap. Við fengum okkur hádegismat en okkur reyndist erfitt að velja af matseðlinumþví margt var ekki til og ekki von á sendingu af vistum fyrr en sama kvöld. Ég fékk mér enn eina oryx-steikina og  svo fórum við í bíltúr og leituðum að nashyrningum sem við fundum ekki.

card2 043

Eyja breiðir úr sér.

card2 054

Springbok við Hardap stífluna.

Namibia2 001

Við keyrðum áfram vestur og gistum á hóteli í nágrenni við Sesriem/Sossusvlei.

Morguninn eftir vöknuðum við í bítið, klukkan hálfsex og keyrðum í stað og ætluðum að ná inn í Sossusvlei fyrir sólarupprás. Við vorum á góðri ferð þegar Kjartani fannst bíllinn láta illa og þá kom í ljós að það var sprungið hjá okkur.

Namib 005

Sólin gægist upp fyrir fjall á leið inn í Sossusvlei. Kjartan skipti um dekk og ég myndaði. Okkur leist illa á að vera lengi á ferðinni með ónýtt varadekk en okkur til gleði var þetta fína verkstæði við hliðina á bensínstöðinni við Sesriem. Við vorum líka sátt við verðið á viðgerðinni, um þúsundkall.

Namib 018

Við klifum sandöldu númer 45 í Sossusvlei. Þarna eru fallegar og myndrænar sandöldur, þar á meðal sú hæsta í Namibíu sem er yfir 300 metrar.

Namib 030

Sossusvlei er í Namib Naukluft eyðimörkinni sem nær niður að Atlantshafinu.

Namib 050

Til að komast síðasta spottann fengum við far í fjallatrukk.

Card4 009

Afslöppun á hótelinu eftir sandölduklifur.

Card4 010

Á ferðinni frá Sesriem.

Card4 022

Næsta dagleið bar okkur niður að Atlantshafinu þar sem við fengum okkur hádegismat á veitingastaðnum Raft í Walvis bay. Pizzurnar voru góðar þar fyrir krakkana og við Kjartan fengum okkur fisk eftir allt oryx-átið.

Gististaðurinn okkar var í bænum Swakopmund sem er líka við hafið. Ég hélt að þetta væri nokkuð stór borg en ætli 35.000 íbúar geti talist mikið. Namibía er álíka strjálbýlt og Ísland.

Að morgni afmælisdagsins míns mætti Tommy til að sækja okkur á hótelið en hann hafði ég fundið með aðstoð Tripadvisor og hann fer með ferðamenn út í  eyðimörkina og leitar að þeim fimm litlu. Þegar fólk fer í safarí vill það sjá þessi fimm stóru sem eru þá oftast ljón, nashyrningur, hlébarði, fíll og buffaló. En Tommy leitar að  kamelljónum, eðlum, skordýrum, sporðdrekum og snákum sem leynast ofan í sandinum. Hann var á stórum trukk og keyrði okkur um borgina en tók svo allt í einu skarpa beygju út í eyðimörkina sem liggur allt um kring. Hann leit til baka í átt að borginni og sagði að við þyrftum að fresta ferðinni því núna væri sandstormur og þá væri skyggnið lítið. Þetta var rétt  hjá honum því húsin í 50 metra fjarlægð voru ekki lengur sjáanleg. Við reyndum aftur eftir hádegið þegar hafði lygnt og þá byrjaði ferðin á stoppi þar sem hleypt var úr dekkjunum og hann fræddi okkur um eyðimörkina  sem hét ennþá Naukluft.

Card4 030

Tommy sjarmör og leiðsögumaður í leit að þeim fimm litlu.

Það var mjög skemmtilegt að keyra um með Tommy sem var fróðleiksnáma um lífið í eyðimörkinni. Hann horfði á sandöldurnar þegar við keyrðum hjá og þegar hann sá eitthvað stökk hann út og gróf með hendinni ofan í sandinn og kom með eðlu upp.

Hann benti okkur á kamelljón á runna og sýndi okkur svo hvernig það skipti um lit þegar hann setti það á heitan sandinn.

Card4 044

Hugi með kamelljón og orm á handleggnum sem kamelljónið átti að éta en vildi ekki.

Card4 062

Stirnir og eðla sem beit sig fasta við puttann.

Card4 069

Snákur (sidewinder) í Namib Naukluft eyðimörkinni.

Card4 080

Hugi beit það í sig að vera berfættur í Afríku eins og börnin þar. Hann stóð við það.

Card4 083

Tommy sýnir segulmagnaðan sand á Stirni.

Card4 124

Feðgin í eyðimörk við haf og sólin sest.

card4 013

Á leið norður ókum við eftir ströndinni og stoppuðum á Cape Cross þar sem þúsundir sela hafa aðsetur. Lyktin var nokkuð sterk þarna.

card4 041

Hugi og Kjartan leita að steinum við veginn til Uis.

card4 064

Í Uis gistum við í íbúð í eigu þessa manns og hann fór með okkur í leiðangur að skoða gamlar tinnámur og bauð upp á bjór.

Við færðum okkur svo daginn eftir á gististað þar sem okkur bauðst tjaldgisting, kúlutjald á sætum palli. Þetta er við fjallið Brandberg sem er hæsta fjall Namibíu um 2500 metrar og þarna í nágrenninu búa eyðimerkurfílar. Dýralífið var mjög fjölbreytt þarna og við skiptum okkur í tvö tjöld, ég með Stirni og Eyju og Kjartan með Huga og 50 metrar voru á milli tjaldanna.

card4 083

card4 091

Eyja og jógúrt.

card4 093

Samlokur við tjaldið.

card4 105

Hugi var búinn að tala um það fyrir Afríkuferðina að hann langaði til að fá afríska hárgreiðslu. Ég spjallaði við strák sem vann á hótelinu og hann sagði að hann gæti fengið starfskonurnar til að redda þessu. Kjartan keyrði Huga að starfsmannnabústöðunum og við skildum  hann eftir þar í tvo tíma.

card4 111

Við Eyja gengum um hótelgarðinn og skoðuðum fugla og Stirnir lék við lítinn meerkat (jarðkött, þessir sem standa upp á endann), Carlos að nafni.

card2 003

Við öfunduðum Huga svolítið af því að komast næst því af okkur að vera í lókalstemmningunni. Stúlkurnar sem fléttuðu sögðu að sársaukinn í hársverðinum myndi lagast eftir þrjá daga.

card2 006

Tónlist og dans hjá starfsfólkinu.

card2 017

Við fórum inn á hótelið til að borða kvöldmat og þar kom starfsfólkið fram og söng söngva frá Damaraland en þar er mállýskan þannig að smellt er í góm þegar talað er.  Þetta var mjög skemmtilegt og við dilluðum  okkur með. Eftir matinn skriðum við undir sæng inn í myrkrið í tjaldinu en söngfólkið var ekki búið að fá nóg og söng úti í fjarlægð og þarna fannst mér ég upplifa Afríku beint í æð. 

Um nóttina vaknaði ég við hljóð við tjaldið og ímyndunaraflið fór af stað og ég sá fyrir mér fíl eða aðra skepnu á ferli. Stirnir skreið upp í til mín og sagðist vera hræddur  og helst langaði mig til að segja: Ég líka!!

card2 011

Hugi með hárgreiðsluna sem entist stutt því daginn eftir gafst hann upp og vildi láta taka flétturnar úr. Hann var helaumur í hársverðinum og saknaði krullanna.

card2 021

Næsta dag gengum við upp að hellateikningum sem eru við Brandbergfjallið. Þær elstu eru 5000 ára gamlar og eru þær nefndar White lady því í fyrstu var talið að aðalpersónan væri kona en síðar kom í ljós að hún var karlmaður og galdramaður.

card2 024

Leiðsögumaðurinn benti okkur á hlébarðaspor á göngunni. Það er skylda að ganga upp í fylgd leiðsögumanns.

card2 027

Krakkar hvíla sig.

card2 030

Eftir hressandi göngu brunuðum við af stað norðar og að þjóðgarðinum sem heitir Etosha. Hann er stór að flatarmáli, nær einn fjórði af Íslandi og þar búa villt dýr sem okkur langaði til að heimsækja.

Við vöknuðum í bítið enn eina ferðina, borðuðum morgunmat klukkan sex og vorum mætt við hliðið inn í garðinn klukkan hálfsjö. Við veginn hlupu sebrahestar og við þræddum malarvegi að næsta vatnsbóli. Þar urðum við fyrir vonbrigðum því það var nærri þurrt en þar rétt við keyrðum við inn í l jónahóp á morgungöngu. Ljónin eru víst yfirleitt sofandi svo við vorum heppin að sjá þau á ferli. Þarna voru ljónynjur og ungar á ferð, líklega í veiðihugleiðinum en kallinn hefur verið í hvíld.

Card4 120

Við keyrðum um og sáum mikið af dýrum og mörg þekktum við ekki svo við þurftum að líta á mynd til að staðfesta nafnið á þeim. Við parkeruðum við vatnsból og sáum hýenu nálgast úr fjarska og koma að vatninu. Hún var mjög vör um sig og leit í allar áttir. Við annað vatnsból komu antilópur, gasellur, strútar og vörtusvín í morgundrykkju og við sátum lengi og fylgdumst með  dýrunum skiptast á fara að vatninu. Við máttum alls ekki stíga út úr bílnum, máttum bara stinga hausnum út um glugga. Við hugsuðum til þess að þarna vildum við ekki þurfa að skipta um dekk. Ég hitti seinna hollenska konu sem lenti í þvi að það sprakk á bílnum og þau hjónin keyrðu löturhægt á felgunni 16 kílómetra til að komast inn fyrir girðingu og skipta.

Card4 144

Card4 173

Við vonuðumst til að sjá fílahjörð en urðum að láta okkur nægja þessi einmana fíll sem kom og drakk lengi.

card4 021

Á hótelinu okkar var mikil stemmning og þrír menn spiluðu á gítar og sungu við eld á kvöldin. Hugi, Eyja og ég dönsuðum af innlifun.

card4 047

Síðasta daginn okkar heimsóttum við krókódílabúgarð.

Eyja varð lasin síðasta daginn og fékk uppköst og niðurgang. Hún hélt áfram að gubba á ferðalaginu til Íslands sem var annars tíðindalaust og var mjög slöpp við heimkomuna. Við hittum barnalækni samdægurs sem sendi okkur niður á Barnaspítala þar sem hún var lögð inn með vökva í æð. Þar vorum við í tæpan sólarhring og hún náði sér aðeins á strik. Hún er að ná fyrri kröftum en veikindin tóku á hana og hún gladdist yfir því sjálf þegar hún gat gengið aftur og sagði stolt: Eyja bappa sjá!

En Afríkuferðin var frábær í alla staði og minnisstæð,

Dalla

1 comment:

Guðrún Ragna said...

Frábær ferðasaga og myndirnar líka. Þetta hefur greinilega verið heilmikil upplifun. Kær kveðja frá Bragagötunni