Friday, June 20, 2008

Þá erum við komin til Íslands. Ferðalagið gekk vel hjá okkur með smá uppákomum. Starfsmenn Virgin í Shanghai ákváðu að fara eftir bókinni svo ég varð að sækja farangurinn í London og færa hann sjálf á milli terminala. Ég fékk fylgd út að fargangursbandinu, slapp við klukkutímabið í passaskoðun og svo hjálpuðumst við Hugi að með farangurinn, hann keyrði vagnstykkið fyrir mig og ég kerruna með töskunum, Eyja var í burðarsjali framan á mér og var til friðs.
Bræðurnir voru mjög þreyttir á Heathrow enda komið kvöld að okkar tíma. Stirnir sofnaði svo fast þegar við vorum að bíða eftir hliðnúmeri að við gátum ekki vakið hann. Ég bað flugvallarstarfsmann um aðstoð því ég gat ómögulega haldið á honum út að hliði. Hún bjargaði okkur alveg, fylgdi okkur út í hlið.

Bræðurnir neituðu að fara að sofa þegar við komum í Mosfellsbæinn. Þeir héldu sér vakandi og spurðu mig reglulega hvenær við gætum farið í sund, ég var frekar viðskotaill þegar ég var vakin um fimmleytið og spurð um sundferðina. Við vorum því komin ofan í laugina klukkan hálfníu í morgun, öll fjögur. Loksins eftir sundferðina lognuðust Hugi og Stirnir útaf og sváfu í rúma tvo tíma. Eyja svaf í 7 tíma eftir sundferðina, hún hélt líklega að það væri komin nótt.

Hérna eru myndir síðustu daga frá Kína:



Eyja að æfa sig í snúningi.



Heimatilbúinn ólympíukyndill



Hann logar vel



Þetta var á þjóðhátíðardegi Svíþjóðar og Filip því uppáklæddur










Kjartan og Eyja



Magnús og Eyja


Sería, Hugi velur föt á Eyju og klæðir hana:













Boggi og Örn í gistingu

Wednesday, June 18, 2008

Þá erum við að búa okkur fyrir Íslandsferðina, strákarnir eru að reyna að sofna, það er nú ekkert allt of auðvelt þegar spennan er mikil.
Síðustu vikur hafa verið skemmtilegar, með tilheyrandi niðurtalningu í Íslandsferðina. Boggi og Örn komu og gistu hjá okkur síðustu helgi og vinirnir sváfu lítið. Ég heyrði þá fara á fætur um fimmleytið eftir stuttan nætursvefn. Þeir horfðu á spennandi mynd og stráðu salti í dyragættir og gluggakistur til að varna því að skrímsli kæmust inn. Kjartan var ekkert voðalega glaður þegar ekki var til saltkorn í húsinu. Þeir útbjuggu líka tómatsósusprengjur og fleri gildrur fyrir skrímsli, húsið ætti að vera vel varið.
Við settumst inn á kaffihús í hádeginu á sunnudaginn með Heklu og Magnúsi og strákarnir könnuðu umhverfið. Þeir fundu greinilega blómabúð í húsinu því þeir komu færandi hendi með blómvendi handa pöbbunum í tilefni feðradagsins. Þeir sögðust hafa fengið blómin gefins og við ákváðum að trúa því.
Hugi færði Kjartani Family mailbox sem hann föndraði í skólanum og fyrstu skilaboðin voru til Kjartans: I love you daddy! Stirnir færði pabba sínum kort og geisladiskahulstur, í kortinu var texti um pabba.

Dad
My dad is funny.
I like to play with my dad.
He is crazy.
My dad is fun.

By Stirnir

Hugi kom uppveðraður heim úr skólanum einn daginn. Stúlka sem hljóp með ólympíukyndilinn hérna í borginni heimsótti bekkinn hans. Hann fékk eiginhandaráritun hjá henni og fékk að halda á kyndlinum. Hann var ekki lengi að föndra kyndil hérna heima og kveikja á honum með nágrannakrökkunum. Undir eftirliti fullorðinna að sjálfsögðu.

Eyja dafnar vel. Hún hjalar svo mikið núna að suma daga samkjaftar hún ekki. Ætli hún verði ekki málglöð stúlka með tímanum. Þeir sem sjá hana sjaldan undrast hvað hún stækkar hratt og bætir á sig. Mér finnst ég ekki vera dómbær á það því ég sé hana daglega. En ég staðfesti það að lærakeppirnir eru orðnir nokkuð margir. Eyja er bara yndisleg í alla staði, brosmild og góð. Hún sefur vel, mér finnst bara ekkert mál að sinna henni og mér finnst bara lúxus að hún skuli ekki vakna nema einu sinni eða tvisvar til að drekka yfir nóttina. Oft sefur hún 6 til 7 tíma í einum dúr á nóttunni. Það er greinilega ekki meira mál að eignst barn þó ég sé að nálgast fertugt (ískyggilega hratt). Hugi sagði reyndar um daginn að gamlar kellingar (og meinti mig) yrðu úrillar af því að eignast börn. Ég hef líklega eitthvað verið að skamma hann þegar þessi orð féllu.

Í skólanum hafa verið loka/kveðjuveislur í báðum bekkjum. Margir eru að flytja burt eins og gengur og gerist í alþjóðlegum skóla. Þetta getur orðið ansi tilfinningaþrungið og tár falla. Fólk veit ekki hvort það hittist aftur en kveðjusöngur skólans segir allt en í honum segir að við vonum öll að leiðir okkar eigi eftir að liggja saman einhverntíma í framtíðinni.

Við vonumst til að hitta vini og fjölskyldu á Íslandi, þetta verður stutt stopp að þessu sinni, fjórar vikur en við hlökkum til að halda inn í íslenskt sumar, sjáum ekkert eftir rigningunni í Shanghæ að þessu sinni.

Dalla

Wednesday, June 11, 2008

Stirnir skrifar um skýin á ský sem hann föndraði í skólanum:

Clouds

Clouds are white.
I think they look like a pig.
Clouds give us wotr.
Clouds are good.

Stafsetning er hans.

Við komum til Íslands þann nítjánda júní, þ.e.a.s. ég með börnin. Vonumst til að hitta sem flesta en við höldum áfram í langferð um miðjan júlí. Stutt stopp á Íslandi að þessu sinni.

Dalla

Thursday, June 05, 2008



Eyja með hárband



Undirrituð að reyna að gera hana stelpulega

Í gær var leikjadagur í skólanum. Þá eru settar upp stöðvar með leikjum/þrautum út um alla skólalóð og krökkunum er skipt í lið eftir litum. Stirnir var í gula liðinu og fannst rosa gaman. Ég og Eyja vorum í aðstoðarliðinu, sáum um eina stöð ásamt tveimur mömmum.
Í gær fór Hugi með sínum árgangi í skóla fyrir börn farandverkamanna til að afhenda skólanum ágóða af sölu jólakorta sem börnin teiknuðu um síðustu jól. Peningarnir fóru meðal annars til þess að kaupa leiktæki á skólalóðina en aðstaðan var ekki góð fyrir. Hugi sagði að það eina sem krakkarnir hefðu getað leikið sér var að hlaupa á skólalóðinni, ekkert við að vera.
Í dag er leikjadagur hjá eldri krökkunum, Huga og félögum. Hugi fór með mynd af sér til að gefa Hadley, hún er að fara til Oregon á morgun. Myndin sem hann valdi er sú þar sem hann heldur á slöngunni.



Eyja nagar snuð og horfir íhugul út um gluggann á bílnum



Stirnir var í gula liðinu og Eyja í bleika liðinu



Stirnir lenti í samstuði við annan nemanda og bólgnaði á kinnbeininu en þarna er hann kominn aftur af stað í leikinn.



Samvinna



Tilbúinn í reiptogið

Sumarplönin okkar eru að komast á hreint. Allavega búið að bóka tvær vikur á Kauai eyju, Hawaii í lok júlí. Þangað ætlum við í félagi við Hilmar, Guðrúnu og Evu dóttur þeirra, við fundum hús til leigu á Anini ströndinni sem er bæði falleg og barnvæn. Sumar strendurnar geta verið hættulegar vegna öldugangs og útsogs.

Dalla

Monday, June 02, 2008

Helgin var fín hjá okkur, höfðum lítil plön en svo rættist úr þessu öllu.
Strákarnir fóru í heimsókn til Hadley á laugardaginn, þeir fóru í sund með Hadley, Emmu systur hennar og pabbanum Dan. Mömmu Hadley höfum við aldrei hitt því hún er alltaf að vinna eða á ferðalögum. Hún er að vinna hjá Nike og það er brjálað að gera fyrir Ólympíuleikana. Hann er því einstæður faðir að mestu leyti. Hann ætlar að kenna í SCIS næsta vetur, voðlega fínn kall.
Við Kjartan fórum á flakk á bílnum á meðan, fórum í húsagagnaverslun og í götu þar sem eru mörg listagallerí og vinnustofur listamanna. Mér fannst eins og við værum bara alveg barnlaus, við erum vön að eyða helgunum öll saman svo þetta var tilbreyting að vera bara með Eyju með okkur.
Þegar við sóttum strákana fórum við og hittum Atla og Ödu á O´Malleys og svo hingað heim og pöntuðum okkur mat og rauðvín, því það er hægt að panta allt hérna í borginni. Ekki bara pizzu og kínverskan mat heldur er hægt að panta frá hvað veitingastað sem er.
Strákarnir minntust á það í bílnum að ég þyrfti að sinna Eyju mikið, það tæki soldið langan tíma. Hugi sagðist óska að Eyja væri tíu ára, þá gæti hún séð um sig sjálf og svo gæti hann líka strítt henni. Hann bíður spenntur eftir að geta strítt Eyju.

Í gær sunnudag var okkur boðið í hundrað daga afmæli. Sonur Shao Yan sem vinnur hjá CCP fæddist 20. febrúar, sex dögum á eftir Eyju og það er siður hér að fagna 100 daga afmæli, þá er tækifæri fyrir vini og ættinga að hitta barnið. Afmælið var haldið á veitingastað og boðið upp á óteljandi rétti, vín, bjór og sígarettur. Mesta athygli vakti réttur sem við höfum ekki séð áður, litlar skjaldbökur bornar fram, ein á mann.




Shao Yan og sá eini sem kemur frá himninum



Himnastrákurinn íhugull



Eyja virðist ekki sátt við þessa innrás í mömmufaðm









Vinsælasti rétturinn



Kjartan og Atli gera að skjaldbökunni og Ada horfir hlæjandi á aðfarirnar

Þetta var nokkuð skemmtileg veisla í hádeginu á sunnudegi. Vinir föðurins gengu um og skáluðu við alla. Þegar við fórum heim um tvöleytið var verið að leiða einn vininn dauðadrukkinn út af veitingastaðnum. Ekki oft sem maður sér ofurölvi kínverja, þeir passa sig yfirleitt vel að drekka ekki of mikið.

Hugi og Stirnir vildu vera einir heima meðan við fórum í afmælið. Við leyfðum það og þeir tóku af okkur loforð um að vera að minnsta kosti fimm tíma í burtu. Eftir tveggja tíma fjarveru hringdu þeir og báðu okkur um að koma heim aftur því þeir væru svo svangir.

Dalla