Saturday, December 01, 2007

Ég fór í skoðun á spítalanum í vikunni eftir þriggja vikna frí frá læknaheimsóknum, fann að það gerði mér gott að hvíla mig á rannsóknum þennan tíma.
Ég var skoðuð í sónar að venju og þar kom í ljós að vökvinn í kvið barnsins er enn að aukast, einnig var legvatnið komið yfir eðlileg mörk. Kínversku læknarnir sögðu að ég gæti þurft að huga að heimferð fyrr en áætlað var en ég vildi fyrst heyra álit íslensku læknanna minna áður en ákvörðun yrði tekin.
Sérfræðingur í fósturgreiningum og hjartalæknir á Íslandi skoðuðu myndir og video úr sónarskoðuninni hér og niðurstaðan er sú að vökvinn í kviðnum er hægt versnandi ástand, engin skýring fundin ennþá á honum. Hjartað virðist starfa vel og þeir telja að líkur á fósturdauða séu mun minni nú en áður. Legvatnið er yfir eðlilegum mörkum sem getur leitt til fyrirburafæðingar en mér var ráðlagt að bíða fram yfir næstu skoðun sem er eftir rúma viku og sjá svo til. Þannig að mér létti eftir að hafa heyrt frá Íslandi. Ég fæ eiginlega á tilfinninguna hér að læknarnir vilji losna við mig, þeir vilja ekki taka ábyrgð þegar eitthvað er að.

Hugi og bekkjarfélagar buðu í kaffi og meððí einn morgun í vikunni. Nýi kennarinn Mrs. Snyder vildi hitta foreldrana og kynna skólastarfið. Hugi las fyrir okkur sögu um apana í Tælandi sem við hittum um síðustu jól og sýndi okkur hvað hann er að vinna við. Hann sá um að færa okkur te, kaffi og meðlæti og stóð sig vel.


Hlaðborðið


Hugi útbýr te handa mömmu


Pabbi fær kaffi


Chen tævanska vinkona mín og Hsuan Hsuan dóttir hennar og bekkjarsystir Huga

Verðandi stóru bræður hugsa margt. Stirnir spurði mig um daginn hvort það hefði verið soldið vont þegar hann kom út úr maganum á mér. Ég sagði að það hefði verið svolítið vont. Þá leit hann á mig og sagði: Fyrirgefðu!

Fyrsta desember var aðventugleði Íslendingafélagsins IShai. Veislan var haldin heima hjá Elsu og Árna og það var virkilega jólalegt hjá þeim, hangikjötsilmur í loftinu og aðventuljós í gluggum.
Það var vel mætt að venju, um 30 manns, þar af 9 börn. Á hlaðborðinu var hangikjöt og hamborgarhryggur með meðlæti og brisket sem er reykt nautasíða, réttur frá Texas sem Anna og Árni fyrrverandi Texasbúar komu með.
Krakkarnir nutu þess sérstaklega að borða hangikjötið, ég held að sumir hafi farið fjórar ferðir til að fá meira og gátu ekki hætt að dásama þennan góða mat.



Undirrituð í öllu sínu veldi og Elsa fyrir komu gestanna


Ada og Atli


Mæðgurnar Björk og Lára, Björk á tveggja ára afmæli í dag 2. desember


Namm, hangikjöt


Þetta er rosalega góður matur!


En þá heyrðust hurðaskellir ofan af lofti og sjálfur jólasveinninn Hurðaskellir var mættur á staðinn


Það voru ansi mikil læti í þessum jólasveini


En hann var skemmtilegur


Bræðurnir dönsuðu við jólalögin


"Gamla fólkið" var búið að gleyma textunum að jólalögunum




Stelpupartí í eldhúsinu, Þórey, Lára með Björk, Elsa, Hekla og ég

Njótið aðventunnar, Dalla

1 comment:

Anonymous said...

On a l'air de bien s'amuser à Shanghai! La vie est une fête... et le hangikjöt a du succès partout. Qu'en disent les petits Chinois?
Tu as l'air en belle et bonne forme, Dalla, dans ta "position intéressante" comme on disait autrefois pour ne pas dire enceinte. Espérons que tout ira pour le mieux! Baisers, Catherine