Saturday, June 17, 2006



Þetta var frekar óhefðbundinn 17. júní hérna í Shanghai. Við fórum reyndar í áttina niður í bæ og það var fullt af fólki á götunum en það eina sem við gerðum til að minna okkur á lýðveldisdaginn voru helíumblöður sem strákarnir fengu. Hugi valdi sér hjarta með höndum og Stirnir valdi sér fugl sem hann kallaði skrímsli. Huga blaðra sveif á brott 5 mínútum eftir viðtöku og býsnaðist hann mikið yfir því að kínverjar væru ekki góðir í að festa band í blöðru. Það var nú enginn grátur en hann lýsti því yfir að hann hefði fengið verk í hjartað þegar hann horfði á eftir henni út í geiminn.
Stirnis blaðra lifði aðeins lengur, fór á veitingastað og var geymd inni í skáp þar á meðan við borðuðum kvöldmatinn. Á heimleiðinni þegar við vorum á leið framhjá búðinni þar sem blöðrurnar voru keyptar gaf bandið sig líka og blaðran sveit í áttina heim, og festist undir þakskyggninu.
Við löbbuðum heilmikið í dag, byrjuðum reyndar á því að fylgja Kjartani í klippingu svo hann er orðinn fínn um höfuðið. Strákarnir settust í stólana á hárgreiðslustofunni og hárgreiðslufólkið byrjaði að fikta í hárinu á þeim og spurði hvort þetta væru náttúrulegir liðir í okkur öllum. Ég hef nú ekki verið þekkt fyrir að vera hrokkinhærð en það koma krulla eða tvær í hárið á mér hérna í rakanum.
Eftir nokkra göngu fórum við inn á Marriott hótelið og settumst á barinn þar á 38. hæð. Litla mömmuhjartað sló hraðar þegar strákarnir dönsuðu við gluggarúðuna þarna uppi. Kjartan sagði þeim að koma við rúðuna og athuga hvort hún væri föst og þá tók ég andköf. Ég er orðin svo lofthrædd með árunum að þetta leist mér ekki á, þoldi varla að horfa á strákana við gluggann.
Það var samt fróðlegt að sitja þarna uppi og horfa yfir borgina. Reyndar er yfirleitt mistur (eða mengun) yfir borginni svo ekki er sérstaklega víðsýnt. Strákarnir komu auga á leiktæki í garði þarna fyrir neðan svo við héldum þangað eftir drykkinn, ísinn og samlokuna á Marriott.
Við enduðum daginn á ítölskum veitingastað hérna í nágrenninu, vorum svo heppin að fá borð úti á svölum sem var notalegt í kvöldhitanum. Atli og Yongjia hittu okkur á veitingastaðnum svo félagsskapurinn var góður.
Það er gaman að segja frá því að bræðurnir fá alltaf góðar móttökur á veitingastöðum, það er dekrað við þá af starfsfólkinu, enginn pirringur yfir því að fá oft háværa stráka sem eiga stundum erfitt með að sitja kyrrir. Alltaf er tekið á móti okkur með brosi.
Á leiðinni heim braust út mikill blöðrubardagi en strákarnir voru vopnaðir blöðrum, ansi löngum sem voru notuð sem sverð. Ekki hlutust nein meiðsl af þessu en margir í mannþrönginni fengu högg og þá undir beltisstað. Myndirnar eru teknar þegar bardaginn stóð yfir. Þreyttir strákar lognuðust út af eftir kvöldbaðið og hringingu heim þar sem afa var óskað til hamingju með það að vera heiðurslistamaður Mosfellsbæjar.
Dalla

No comments: