Um helgina lögðum við í langferð með Heklu, Magnúsi og börnum. Við flugum til Guilin, tveggja tíma flug og þar vorum við sótt á flugvöllinn og keyrð til Yangshuo. Við gistum á hóteli við ána Yulong í mjög fallegu umhverfi, fallegir tindar allt um kring.
Strákarnir voru í essinu sínu. Þeir gengu undir nöfnunum Stissi, Hussi, Össi og Bossi og strax fyrsta morguninn fóru þeir út að leika meðan foreldrarnir sváfu. Það var hellirigning og þeim tókst að bleyta sig inn að beini, þeir duttu þó ekki í ána. Þeir borðuðu morgunmat minnst tvisvar alla daga, hafragraut, egg og beikon, útiveran gerði þá hungraða. Í önnur mál völdu þeir sér annaðhvort hamborgara eða spaghetti bolognese. Þeir sletta mikið ensku strákarnir og þeim fannst vera mikil “nature” þarna. Þeir fundu laskaða drekaflugu og Össi tók hana að sér, hún hékk á fingrinum hans hvert sem hann fór. Drekaflugan var svo skilin eftir í sínu umhverfi þrátt fyrir beiðnir um að hún fengi að fylgja með heim til Sjanghæ.
Maturinn á hótelinu var mjög góður og við fullorðna fólkið pöntuðum okkur sérrétt staðarins bjórfisk. Engiferöndin var líka góð og engiferte rann ljúflega niður.
Þrátt fyrir rigningu lögðum við af stað til að finna hinn eina sanna Vatnahelli. Starfsmaður á hótelinu dró upp fyrir okkur kort og sagði að þetta væri svona 40 mínútna ganga. Það stytti fljótlega upp og við gengum um friðsæla sveitina en kyrrðin var rofin öðru hvoru þegar einhverskonar traktorar keyrðu hjá með stafla af bambusflekum aftaná. Ræðararnir fylgdu svo á eftir í opnum bílum, tilbúnir í næsta róður niður ána. Eftir þónokkra göngu og hælsæri og ýmis fótsæri sem hrjáðu ferðalangana fundum við lítinn skúr þar sem auglýst var miðasala í hinn eina sanna Vatnahelli. Við höfðum keypt miða á hótelinu á hálfvirði miðað við verðið sem þarna var auglýst og miðasölustúlkan tók af okkur loforð um að segja engum frá því. Við settumst inn í skúr til að bíða eftir að verða sótt. Þá birtist rútuskrifli og við hoppuðum um borð og hristumst af stað um sveitavegi, dyrnar lokuðust ekki en það gerir nú ekkert til, við erum öllu vön.
Hérna bíða bambusflekarnir eftir því að vera keyrðir upp ána
Innsiglingin undir klettinn inn í Vatnahellinn
Þetta varð talsverð svaðilför um hellinn því vegna rigningarinnar stóð vatnið hátt í hellinum. Við fengum skó til að ganga um, ég fékk mér einskonar bambusskó sem gömul kona lofaði að yrðu góðir á hálu hellisgólfinu. Við fórum með litlum bát fyrsta spottann og þurftum að beygja okkur niður til að reka ekki höfuðið uppundir. Síðan gengum við af stað í vatni upp að ökkla og sumsstaðar náði það hærra, strákarnir héldust í hendur þar sem var straumur. Þessi hellaferð hefði líklega ekki fengið öryggisstimpil en hellirinn var fallegur, hátt til lofts og dropasteinsmyndanir og upplifunin skemmtileg. Við komum að leirlaug þar sem ofurhugarnir Össi, Stissi, Hussi og Bossi “böðuðu” sig. Þeir fóru svo í kalda sturtu á eftir og voru hálf hraktir þegar við komum að heitri uppsprettu sem þeir skelltu sér ofaní og vildu helst ekki koma uppúr. Eftir hellaferðina fórum við í pínulitlum bíl til baka, tróðum okkur inn og einn sat á kolli því ekki voru nógu mörg sæti. Við erum greinilega búin að vera nógu lengi í Kína til að kippa okkur ekki upp við svona smáatriði.
Smábörnin Eyja og Ásta stóðu sig vel, horfðu stóreygar í kringum sig úr burðarpokum. Þetta eru ótrúlegar heimskonur sem heilla alla samferðamenn.
Heimamaður gerir að hænu við litla sprænu
Á öðrum degi gengum við upp með ánni Yulong. Við vöruðum okkur ekki á sólinni sem var bakvið ský og allir fengu roða á andlit og handleggi. Þetta litla rölt varð að tæplega tveggja tíma göngu um sveitina þar sem við mættum uxum og appelsínutré uxu við veginn. Sveitin er frjósöm, allt grænt og hrísgrjónaakrar víða.
Þegar við komum að miðasölunni fyrir siglingu niður ána varð uppi fótur og fit. Allir vildu eiga okkur og segja okkur hvernig við ættum að bera okkur að. Við fengum þó miða og stór hópur sölumanna fylgdi okkur niður að flekunum. Helst vildu allir selja okkur vatnsbyssur, eins konar rör. Sölumennskan hélt áfram úti í ánni því þar voru víða flekar sem seldu grillað kjöt, vatnsbyssurnar og á mörgum flekum var heill hópur manna, sumir mynduðu ferðalangana og aðrir sáu um útprentun myndanna. En þrátt fyrir góðar bissnesshugmyndir heimamanna létum við okkur fátt um finnast og liðum niður ána og nutum friðsældar. Öðru hvoru voru flúðir í ánni og þá var gaman að pompa smá niður, mjúklega þó.
Dassa, Eysa og Stissi á siglingu
Hussi í fíling
Pompað fram af flúðum
Magnús fékk lánaðan fleka við hótelið og fór með strákana í smá túr.
Í hverfinu okkar, bakgötum Yongjia götu númer 356 búa fullt af krökkum. Þetta er eins og lítið þorp með hárgreiðslustofu, sjoppu, leikskóla og að sjálfsögðu hjólaviðgerðarmanni. En okkar krakkar, þeir sænsku og íslensku hafa ekki náð sambandi við kínversku nágrannana, ég veit ekki hverju má kenna um. En um daginn gerðist eitthvað og portið okkar fylltist af sjö fjörugum strákum sem gerðu sig heimankomna. Hugi brást vel við og tók að sér veislustjórn á veislunni fyrir þessa nýju vini. Hann bar út dót til þeirra, bað pabba sinn um að poppa og gaf þeim svaladrykki. Veislan stóð lengi og allir skemmtu sér vel. Og í dag kom einn af þessum nýju vinum í heimsókn og lék sér með strákunum og fékk að smakka pasta a la Lí. Svoleiðis mat sagðist hann aldrei hafa smakkað. Hann kvaddi með þeim orðum að hann kæmi aftur á morgun.
En hér eru myndir frá veislunni:
Dalla