Thursday, June 15, 2006


Mikill innkaupadagur í dag! Við byrjuðum á leikvellinum, mér finnast vera að bætast við krakkar þar, kannski eru sumarfríin að byrja í skólunum og þá verða skólakrakkarnir meira heima við.
Við fórum í kjörbúðina okkar sem er hérna handan við hornið til að sækja okkur hádegismat. Það versta við þá búð er að við þurfum að ganga eins og 200 metra á hjólabraut, þar er semsagt engin gangstétt. Ég þarf sífellt að draga Stirni til mín og líka Huga því þeir gleyma sér og ráfa út á brautina og þá er voðinn vís, þarna fara um bæði reiðhjól og mótorhjól. Hjólafólkið hægir varla á sér og ekki stoppar það þó gangandi vegfarendur séu á ferli. Það liggur við að hjólafólkið sé hættulegra en bílarnir sem virðast þó koma úr öllum áttum. Ég lít oft í allar áttir þegar við förum yfir götu, Hugi er líka mjög passasamur en Stirnir er meira fiðrildi og fylgist ekki með okkur hinum, en við höfum hann bara í gjörgæslu. Það er skemmtilegt að sjá hvað er flutt á hjólunum eða á kerrum dregnum af hjólum, í dag sá ég tvo menn, annar var með hægindastól í eftirdragi og hinn var með heilan stóran sófa.
Innkaupaferðin var svosem tíðindalaus fyrir utan það þegar við vorum í grænmetishluta búðarinnar þá sat þar sölukona á kolli og borðaði hádegismatinn sinn. Hugi fór eitthvað að frýnast ofan í dolluna hjá henni og áður en ég vissi var hann kominn með brauð í hendurnar og hún setti feitan kjötbita úr dollunni inn í brauðið. Hann át þetta svo með bestu lyst. Ég þakkaði fyrir drenginn, en skammaðist mín nú frekar mikið, gat ekki séð að það væru margir kjötbitar í dollunni hjá henni.
Við höfðum greinilega ekki skoðað búðina nógu vel síðast því nú rákumst við á tanka með lifandi fiskum og froskum líka. Ætli þeir slægji þetta ekki fyrir mann í versluninni, varla þarf maður að fara með fiskinn spriklandi heim í poka.
Seinni partinn ákváðum við að fara í stærri innkaup og héldum í leigubíl í Carrefour sem er frönsk verslunarkeðja, sú stærsta víst í Kína. Við ætluðum að kanna hvað þar væri að fá. Þar er mikill sælkeramarkaður, ótal fiskategundir, froskar og skjaldbökur lifandi í tönkum . Franskir ostar og pylsur (saucisson) og annað góðgæti. Verðið á ostunum var nú hærra en heima á Íslandi svo við rétt tímdum að kaupa okkur einn Emmental (músaost). Í víndeildinni vorum við ávörpuð á frönsku, ætli það sé ekki venja að ávarpa útlendingana svona en við fengum ráð hjá kjallarameistaranum og fjárfestum í rósavíni, gott að drekka það í hitanum.
Þverhausarnir Hugi og Stirnir ætluðu nú ekki að fást til að fara í stuttbuxur og stuttermabol fyrstu dagana, fannst þeir ekki vera fullklæddir. Það var nú komið í gegn en Stirnir lýsti því yfir að aldrei myndi hann fara í skófatnað sem nefnist sandalar. Svo vel vildi til að í Carrefour fengust þessir fínu sandalar með ljósi sem blikkar þegar fast er stigið til jarðar. Þarna varð Stirnir loks áhugasamur og baráttan er unnin ;-)
Hitastigið hefur gælt við 30 stigin síðustu daga, ég sá á veðurspá að rakaprósentan væri 65 svo við erum ansi þvöl hérna á daginn.
En svo við höldum okkur við innkaupin þá lá leiðin næst í herradeildina. Kjartan hefur ekki verið mikið fatafrík í gegnum tíðina en nú var komið mál á að fjárfesta í styttri buxum á hann. Daisy nefndi víst við hann að þegar eiginkonan kæmi ætti hún að fara með hann í fataleiðangur, hún var víst orðin leið á að þvo af honum sömu bolina og buxurnar.
En þetta fór þannig fram að ég fann til buxur og Hugi færði Kjartani í mátunarklefann þangaði til hann kom og tilkynnti: "Mamma, ekki láta pabba máta meira, hann er að deyja úr hita."
Ekki vildi ég bera ábyrgð á dauða Kjartans en ég er ekki viss um að Daisy verði ánægð með magnið sem var keypt. Sjáum til...
Strákarnir hafa unað sér við byggingastarfsemi á milli verslunarferða. Kassinn utan af sjónvarpinu varð að geimflaug í morgun og seinni partinn breyttist hann í bíl. Ég aðstoða við að skera út og líma en þarna er Hugi alveg í essinu sínu. Við skoðuðum vefsíðuna hjá vísindasafninu hérna og Hugi varð spenntur þegar hann sá að krakkar mættu byggja þar. Hann vildi fara strax í dag en við stefnum á ferð þangað á laugardaginn.
Þið megið alveg senda inn komment! Gaman að vita hver er að lesa.
Myndin er frá ævintýralandinu súrrealíska á sunnudaginn.
Dalla

No comments: